Í umræðum um Alþingissetninguna í gær hef ég rekið augun í ýmiskonar fullyrðingar sem að mínu viti lýsa miskilningi og vanvirðingu í garð kirkjunnar. Sumar þessar fullyrðingar eru á þá leið að ég tel mér skylt að hafna þeim hér á annálnum.
- Kirkjan er ekki núllpunktur, hefðarstofnun sem gefur fólki tækifæri til að sameinast um mannleg gildi sem allir taka undir. Slíkar hugmyndir gefa í skin að öll boðun kirkjunnar sé á einhvern hátt merkingarlaus, prédikun prestanna sé suð sem engu máli skipti.
- Kirkjan er ekki þjóðin. Hugsanlega var kirkjan samofin þjóðinni hér áður fyrr, þegar kirkjan hafði öll völd á hendi sér og engum var leyft að tjá sig án heimildar kirkjunnar. Þessi tími ætti að vera fyrir bí. Þjóðin, fólkið sem býr á Íslandi, er meira en kirkjan. Að halda öðru fram er að segja að kirkjan sé ekki kirkja Krists heldur einhvers konar Íslandskirkja, boðunarlaust fyrirbæri sem hefur það hlutverk eitt að vera einhvers konar “symbol” fyrir Ísland. Slíkar hugmyndir um kirkjuna biðu skipbrot í Þýskalandi um miðja síðustu öld.
Það er því hvorki kirkjunni og enn síður Kristi til framdráttar að ætlast til þess að allir taki sjálfkrafa og án fyrirvara þátt í trúarathöfnum kirkjunnar og enn síður við hæfi að ásaka fólk sem kýs að virða kirkjuna fyrir það sem hún í raun og sann er kölluð til að vera, um barnaskap.
Áhugaverður punktur. Það væri kannski sérstaklega áhugavert að bera þetta saman við viðbrögðin við húmanistabrúðkaupið í Fríkirkjunni um árið og, ef við förum lengra aftur, við baháí (man aldrei stafsetninguna) brúðkaupið í Árbæjarkirkju. Ég hætti að fylgja almennt með í kirkju af því að mér fannst ég vera hræsnari þar, sérstaklega þegar ég fylgdi ritúalinu eftir. En það eru voðalega fáir sem skilja þetta hjá mér. Ég fer þó enn í jarðarfarir.
að kirkjan sé ekki kirkja Krists heldur einhvers konar Íslandskirkja
Hin evangeliska lúterska kirkja hefur einmitt það hlutverk að vera Íslandskirkja, eða “þjóðkirkja á Íslandi” eins og stjórnarskráin orðar það. Hvernig svo sem við túlkum það síðan. En það er vel hægt að hefja þinghaldið með bæn þó að engin sé þjóðkirkjan, það gera Bandaríkjamenn – og leyfa jafnvel ýmsum að komast að.
En annars er ég alveg sammála Halldóri.
Um Bahá’í-trúna á Íslandi skrifuðum við wiki-nördarnir grein um daginn. Þar má finna tengla á blaðagreinar um brúðkaupið sem Óli Gneisti minnist á.
Þetta er skynsamlega mælt, en ég held ekki að þetta sé ekki bara spurning um vanvirðingu í garð kirkjunnar, vandamálið kemur fyrst og fremst innanfrá. Umburðarlyndi presta þjóðkirkjunnar gagnvart hefðarristninni er ótrúlega mikil.
Börn eru skírð til að friða ömmur og afa, fólk giftir sig í kirkjum til að hafa aðgang að orgeli, börn fermast vegna hefðar, Við þekkjum öll dæmi um þetta og það mörg. Auðvitað á kirkjan ekki að sætta sig við að fólk komi til messu vegna þess að það sé meinlaust og skaði engan að heyra svolítið guðsorð. Það er fáránlegt metnaðarleysi og arfavond guðfræði.
Allt er þetta þáttur í því að gera kirkjuna að meinlausu hefðarbatteríi fremur en kirkju. Og í þeirri stefnu finnst mér mega greina grundvallaróheilindi, kirkjan vill boða, en hún þorir sjaldnast að boða eigin kenningu. Helst vill hún boða einhverskonar teiknimyndakristni með sanktípétur á skýi (Bakþankar dagsins í Fréttablaðinu eru frábært dæmi um þetta).
Kannski erum við trúleysingjarnir ekki versti óvinur kirkjunnar, og ekki sinnuleysingjarnir heldur. Kannski eru hefðarkristnir hættulegastir, þeir sem eru til í að vatna kenninguna út þar til hún felst í almennum sannindum um manngæsku. Sören gamli var með þetta fyrir meira en 100 árum:
En ætt mannsins áttaði sig um síðir og vegna þess að hún er útsmoginn sá hún þetta í hendi sér: við losnum ekki undan kristninni með valdi – þess vegna skulum við gera það með slóttugheitum: við erum öll kristin þar af leiðandi er kristnin afnumin. (S. Kirkegaard: Séu allir kristnir er kristnin ekki til)
Ég held að þú hafir rétt fyrir þér Jón Yngvi. Trúleysingjar eru alls ekki vandamál kirkjunnar á Íslandi. Vandi kirkjunnar er fyrst og fremst innanhúsvandi sem felst í hræðslu við framtíðina og meint þörf fyrir öryggi, sem felst í að ef við segjum ekkert, þá verða allir glaðir.
“Börn eru skírð til að friða ömmur og afa, fólk giftir sig í kirkjum til að hafa aðgang að orgeli, börn fermast vegna hefðar, Við þekkjum öll dæmi um þetta og það mörg. Auðvitað á kirkjan ekki að sætta sig við að fólk komi til messu vegna þess að það sé meinlaust og skaði engan að heyra svolítið guðsorð. Það er fáránlegt metnaðarleysi og arfavond guðfræði.”
Ég verð að taka undir þessi fleygu orð. Þegar ég var trúaður, þá var þetta vandi þjóðkirkjunnar í hnotskurn frá mínum bæjardyrum séð, og ástæðan fyrir því að ég gekk ekki til liðs við hana, eftir að ég varð of guðfræðilega frjálslyndur til að vera hvítasunnumaður. Ég starfaði engu að síður áfram innan hvítasunnuhreyfingarinnar. (Var örugglega eini maðurinn sem predikaði reglulega á samkomum í hvítasunnukirkjum, sem samþykkti þróunarkenninguna, að Biblían væri skeikul, og ýmislegt fleiri. Ég lét bara engan vita.) Meinlausa hefðarækna þjóðkirkjan var aldrei valmöguleiki í mínum augum.