Það er erfitt að horfast í augu við veruleikann þessa dagana. Öll leitum við sökudólga og á sunnudaginn var birtist grein í Morgunblaðinu þar sem átta guðfræðingar bentu á hvernig þjóðfélagið varð græðginni að bráð, missti sjónar á því sem máli skiptir. Hugsanlega ekki verri nálgun en hvað annað. Hins vegar segir greinin ekki alla söguna, hún segir nefnilega ekki frá mínum þætti í öllu þessu, mér vígðum þjóni kirkjunnar sem segist standa fyrir manngildi og ábyrgð. Ég, vígður þjónn þjóðkirkjunnar, starfsmaður á plani, brást hlutverki mínu.
Fyrirgefið mér.
Þegar ég hefði átt að beina sjónum að búlgörskum símamönnum sem misstu vinnuna vegna hlutabréfabrasks íslenskra fjárglæframanna, var ég upptekinn við að kalla inn greiða hjá þeim sömu mönnum, í von um lækkun vaxta á skuldum kirkjunnar. Ég talaði ekki gegn misnotkun farandverkamanna, vegna þess að ég var of upptekinn við að fylgjast með samningaviðræðum um vatnsréttindi. Ég gerði ekki athugasemdir við þjófnað úr almenningshlutafélögum, vegna þess að þjófarnir veittu svo góðan afslátt á aðföngum fyrir æskulýðsmót. Ég lét mér vel líka þegar glæpamennirnir keyptu aflátsbréf í formi orgelpípna. Ég, starfsmaður Æskulýðssambands kirkjunnar þagði þegar æska Íslands fékk steindan glugga að gjöf frá ríkisstjórninni. Ég gladdist þegar ég frétti að stjórnmálaforingjar væru til í að veita fyrirgreiðslu “á ská” til að auðvelda kirkjunni að leysa vandamál.
Fyrirgefið mér.
Ég hef talnaskilning á við þá bestu í viðskiptageiranum. Ef ég hefði sest niður og gefið mér tíma til að reikna hefði ég líklegast geta séð hitt og þetta. Ég vissi sem var hvað var á seyði með FL-Group. Ég ákvað hins vegar að nota gjöf mína, til að útbúa Excel-skjöl með kirkjutölum, velta vöngum yfir hvernig við gætum náð í stærri bita af kökunni. Ég eyddi orku í að réttlæta viðveru vígðra kirkjustarfsmanna í grunnskólum, þegar ég með réttu hefði átt að berjast gegn þátttöku stjórnmálamanna í stjórnum fyrirtækjanna sem þeir hefðu átt að vakta.
Fyrirgefið mér.
Ég var vígður til þjónustu við æsku landsins. Nú 10 árum eftir vígslu mína, er erfiðara fyrir æskuna að horfa vonaraugum til framtíðar, en þegar ég tókst á við köllun mína. Sú köllun mín að vera farvegur fyrir von virðist hafa brugðist.
Fyrirgefið mér.
Það er gott og blessað að skrifa lærðar greinar um mikilvægi guðfræðinnar þegar kemur að endurreisn. En sá tími er ekki kominn enn. Áður en endurreisn hefst þarf að horfast í augu við það hver við erum, hvað við gerðum/gerðum ekki. Aðeins ef við erum tilbúin að horfast í augu við okkur sjálf, erum tilbúin til að iðrast og viðurkenna sekt okkar, getum við vænst upprisu.