Spurningin sem öllu máli skiptir er hversu mikill munur er á uppgjöri eigna og skulda bankanna. Það sem við vitum er að skv. hálfsársuppgjöri skulduðu bankarnir 13.900 milljarða króna og áttu 14.500 milljarða króna. Ef við lítum framhjá gjaldeyrissveiflum (enda líklegt að eignir og skuldir sveiflist jafnt á þeim vettvangi) og gerum ráð fyrir að eina breytan sem líta þarf til sé breytileiki í verðmæti eignasafnsins þá er hægt að líta til hlutabréfavísitalna og meta rýrnun eignasafnsins til samræmis við lækkun hlutabréfa á heimsvísu. Þannig væri hægt að notast við Dow Jones sem gæfi rýrnun upp á tæplega 22%, sem þýddi raunlækkun eigna niður í 11.370 milljarða. Þetta er sjálfsagt vel í lagt, enda áhættan í eignasafni bankanna sjálfsagt talsvert meiri en Dow Jones. Við gætum notað S&P500 og fengið út að eignirnar hafi rýrnað um ríflega 25%. Þannig væri verðmætið í dag tæpir 10.700 milljarðar króna sem er sjálfsagt meira í áttina, þó ég efist um að eignasafn bankanna hafi verið jafn gott og S&P. Til viðbótar þessari stöðu kemur síðan þörfin fyrir að selja, sem veldur frekara verðfalli.
Þar sem mig langar að vera bjartsýnn og gera ráð fyrir um 15% rýrnun vegna skyndisölunnar þá getum við vonað að eignir bankanna séu í dag um 9.000 milljarða virði. Þegar það er dregið frá 13.900 milljarða skuldinni stendur eftir mismunur upp á 4.900 milljarðar króna. Þessi upphæð er rétt um 16 milljónir króna á hvert mannsbarn á Íslandi. Þessar 4.900 milljarðar króna eru 3,75 föld verg landsframleiðsla (GDP) ársins 2007.
Ef við gerðum allar eigur Björgúlfsfeðga upptækar þá myndi það duga fyrir tæplega 10% af því sem upp á vantar ef miðað er við meintar eignir þeirra á síðasta lista Forbes.com. Hins vegar hafa eignir þeirra rýrnað gífurlega síðan, sér í lagi vegna upptökunnar á Landsbankanum. Eignir annarra Íslendinga sem komu að rekstri bankanna eru mun minni og í sumum tilfellum næstum horfnar, en hugsanlega væri hægt að skrapa saman í 900 milljarða króna með peningum Björgúlfsfeðga, með sölu á einkaþotum og með að gera upptækar eignir af reikningum í Sviss, Lúxembúrg, Karabíahafinu og hvar annars staðar sem menn hafa komið varasjóðum sínum fyrir.
Að ofantöldu sögðu er ástandið þó ekki óleysanlegt, sér í lagi í ljósi þess að Ríkissjóður er að mestu skuldlaus. Hins vegar eru nokkrir óvissuþættir í þessum þönkum sem ég hyggst telja upp.
- Hlutfall skulda og eigna bankanna í erlendum gjaldeyri.
- Gæði eignasafns bankanna er í þessum reikningum talið svipað og uppbygging S&P500, það er líklega ofmat á gæðum þeirra.
- Erfiðleikar í sölu eigna og rýrnun á verðmæti vegna skyndisölu. Hér geri ég ráð fyrir 15% rýrnun sem er mjög bjartsýnt í ljósi tilboðs Green svo dæmi sé tekið.
- Það er líklegt að landsframleiðsla dragist saman næstu árin og hagvöxtur verði neikvæður. Aukið atvinnuleysi og hrun ákveðinna atvinnugreina (svo sem fjármálageirans) kemur til með að hafa þar mikil áhrif.
- Reyndar má ekki gleyma því að hluti bankatapsins lendir á eigendum peningamarkaðssjóða og annarra ótryggðra eigna, þannig að ekki er víst að allt lendi á ríkissjóði.
Niðurstaða mín er því sú að ef allt fer á allra besta veg og við gerum eignir upptækar, þá megi gera ráð fyrir að mismunur á eignum og skuldum bankanna sé neikvæður um 4.000 milljarða króna eða um það bil 3 föld verg landsframleiðsla. Fjölskyldan mín skuldar því rétt um 51 milljón króna í pakkanum.
VIÐBÓT:
Rétt er að taka fram hér að gjaldeyrisbreytan sem ég sleppi hér að ofan er mun veigameiri en ég vonaði. Mismunur eigna og skulda erlendis í mars síðastliðnum var a.m.k. 800 milljarðar króna. Að öðru óbreyttu þýðir það líklega skuldaaukningu upp á að minnsta kosti 600 milljarðar króna miðað við gengi krónunnar í dag. En ég hef hins vegar ekki nægar upplýsingar til að geta fullyrt nákvæmlega hvaða áhrif gengið hefur.
Með öðrum orðum. Þessi færsla snýst ekki um nákvæma útreikninga heldur stærðargráður skulda. Með nokkurri vissu má halda því fram að neikvæð staða bankanna þegar uppgjöri lýkur verði einhvers staðar á milli 4000 milljaða ef allt fer á besta veg og 8000 milljarða ef allt fer á versta veg.
Þegar talað er um eignasafn bankanna er mikilvægt að hafa í huga að hluti safnsins eru lán til bifreiða- og húsnæðiskaupa m.a. á Íslandi. Nærri einn fimmti hluti (amk Kaupþings) er í lánum til fyrirtækja eins og Stoða, Samsons og Exista sem öll eru nær dauða en lífi. Eitthvað af lánum voru síðan veitt til fjármagna hlutabréfakaup einstaklinga m.a. í bönkunum sjálfum sem eru núna verðlaus og ekki líklegt að mikið fáist upp í þær skuldir. Áhugavert og gagnlegt væri ef einhver sjálfskipaður snillingurinn tæki sig til og færi í gegnum árshlutauppgjör bankanna frá 30. júní og gæfi okkur almúganum upplýsingar um samsetningu eigna bankanna þriggja og mat á rýrnun þeirra.
Eins væri að sjálfsögðu spennandi að sjá hverjum bankarnir skulda, og hversu mikið af skuldunum lendir óumflýjanlega á Ríkissjóði, en ekki einstaklingum og fyrirtækjum hér heima og erlendis.