Nokkrum sinnum á undanförnum árum hef ég tekið mér vef-sabbatical eða veffrí, ýmist að fullu eða hluta í lengri eða skemmri tíma. Fyrir rúmum mánuði fór ég yfir netnotkun mína og síðustu daga, í tengslum við áhugaverða umfjöllun Thomas L. Friedman í “The World is Flat” um blogg hef ég ákveðið að nota tækifærið og gera nokkrar breytingar. Þar sem ég er ekki lengur í námi næstu fjóra mánuði mun ég draga verulega úr netneyslu. Þannig mun ég í sumar ekki notast við FaceBook, Twitter og hætta skrifum á blog.is og annall.is fram undir miðjan ágúst. Ég hyggst hætta alfarið að lesa blogg og draga úr lestri fréttamiðla sem frekast er kostur. Á þessum tíma mun ég ekki notast við Flock-vafrann heldur einvörðungu Safari.
Ég mun takmarka vefnotkun við upplýsingasíður um sýningartíma kvikmynda, sjónvarpsdagskrá og veður. Ég hyggst einskorða vefsamskipti við gmail, gCal og Skype. Ég mun notast við flickr og gVideo en einvörðungu í tengslum við upplýsingasíðu fjölskyldunnar. Aðrar síður sem ég mun nota þegar þörf krefur eru ferðasíður, heimabankar, Donatos, Amazon og Papa John’s. Loks mun ég annast nauðsynlegt viðhald á vefsíðum sem ég hef gert fyrir aðra ef þörf krefur, og í tengslum við sérverkefni mun ég notast við vefgögn The Benefit Bank, heimasíðu Healthy Congregations, OhioLink og heimasíðu Trinity.
Ég mun um miðjan ágúst, skrifa færslu hér á annál um hvernig meðvituð breyting á netnotkun hefur áhrif á atferli og líðan. Síðan mun auðvitað fljótlega koma í ljós hversu sterk fíkn blogglestur og -skrif er í raun og veru.