Skírnarkostnaður

Í umfjöllun um kirkjuna og rekstrarkostnað í námskeiði um breytingar á ásýnd kirkjunnar var varpað fram áhugaverðri nálgun á kostnað við kirkjustarf. En ein breytan sem notuð var er kostnaður á skírn. Hér er í sjálfu sér gengið út frá mjög áhugaverðri hugsun um kirkjuna, þ.e. að skírn sé markmiðið og annað starf sé stuðningur við skírnina. Ég tók mig til og reiknaði kostnaðinn út fyrir þjóðkirkjuna á Íslandi byggt á tölum í fjárlögum, en bendi á að velta kirkjunnar er ekki að fullu skrásett þar. Óhætt er að álykta að þjóðkirkjan velti allt að 35% meira fé en hún fær í gegnum skattkerfið. Ég er þó ekki viss um að nákvæm tala sé til. Þá er ekki ólíklegt að rekstrarkostnaður sumra kristinna söfnuða á Íslandi sé hærri á hvern skírðan einstakling en í þjóðkirkjunni, vegna samskota og ýmiskonar hliðartekna. En alla vega kostnaður á hvern nýskírðan einstakling í þjóðkirkjunni er eins og hér segir:

Sóknargjöld – 2.026.750.824
Jöfnunarsj. – 340.107.710
Kirkjumálasj. – 262.894.067
Laun presta og fleira – 1.458.000.000

Kostnaður er c.a. 4.1 milljarður króna eða 54 milljónir dollara. Ef 4000 börn eru skírð á ári, kostar hver nýskírður einstaklingur $13.500 eða rétt rúmar 1.025.000 krónur. Ef við bætum við 35% sem er jafn gott gisk og hvað annað fáum við 1,4 milljónir sem kostnað á hvern skírðan.

Þetta er í sjálfu sér mun eðlilegri leið til að reikna út kostnað hvers og eins skírðs einstaklings en að reikna út sóknargjöld og hliðargreiðslur, margfalda með ævilíkum og fá þannig út tölu, sem yrði eitthvað lægri en kostnaður á hvern nýskírðan.

Sjálfsagt hafa einhverjir áhuga á hvort mér finnist upphæðin há eða lág. Ef kirkjan hefði raunverulegt vægi í samfélaginu og léti sig varða líf þessara nýskírðu einstaklinga og berðist fyrir betra lífi allra, þá væri þetta mjög lág upphæð. Ef kirkjan hins vegar væri sjálfhverf stofnun sem teldi að steindir gluggar séu besta leiðin til að heiðra börn og unglinga og teldi að ábyrg hegðun þegar kemur að fjármálum sé minna virði en risaorgel þá er upphæðin mjög há. Að mínu hógværa mati liggur veruleiki þjóðkirkjunnar einhvers staðar þarna á milli, svo …

(Enn einn “stickies”-miðinn, farinn af skjáborðinu)