Það er margt sem segja má um forkosningarnar í BNA, en líklegast munu áhrif þeirra á mitt líf ná hámarki í dag. Í gær bárust fréttir um að Obama hyggðist trylla lýðinn í St Johns íþróttahöllinni milli kl. 8:30-10:00 árdegis í dag. Konunni leist ekki á blikuna, enda sá hún fram á mikinn bílastæðavanda þegar hún héldi í skólann. Þess til viðbótar eru börnin veik, svo hún gat ekki lagt af stað snemma þar sem ég þurfti í tíma í morgun. Hún hélt af stað fljótlega eftir að ég kom heim, en þurfti að leggja í næstum hálftíma göngufjarlægð frá skólanum og mætti u.þ.b. hálftíma of seint í tíma. Planið seinnipartinn var að hún keyrði í snatri heim eftir kennslu svo ég yrði einungis 10 mínútum of seinn í tíma síðdegis. Það gengur ekki upp, enda hefur bæst við tímaplanið 30 mínútna ganga konunnar að bílnum. Ef allt fer á besta veg úr því sem komið er, mun ég aðeins mæta 40 mínútum of seint í skólann seinnipartinn að því gefnu að Obama taki ekki upp á því að halda ræður á fleiri stöðum í Columbus í dag.
One thought on “Obama til óþurftar”
Comments are closed.
Þetta fór öðruvísi en við bjuggumst við, konan hleypti af einhverjum ástæðum nemendunum sínum út snemma, náði að koma heim rétt 15 mínútum áður en tíminn minn átti að byrja í MeTheScO. Það tekur mig rétt rúmar 30 mínútur að keyra þangað og ég mætti rúmlega 15 mínútum of seint í stofuna mína. Það var engin í stofunni þegar ég kom og þegar ég fór í móttökuna og spurðist fyrir fékk ég að vita að tíminn hefði fallið niður vegna veikinda kennarans. Ritarinn vissi að við hefðum fengið verkefni til að vinna frá kennaranum, svo hún hringdi fyrir mig til að fá nánari upplýsingar.
Verkefnið reyndist vera að bera saman niðurstöður Robert Wuthnow í After the Baby Boomers, sem við lásum fyrir tímann í gær og niðurstöður The Pew Forum on Religion and Public Life sem ég benti á hér á blogginu í gær.
Það liggur því fyrir að ég þarf að hjóla í þessa rannsókn um helgina og mánudaginn til að sjá hvað kemur raunverulega fram.