Gunnar Þorsteinsson kom fram í þættinum “Silfri Egils” og gagnrýndi harðlega nýja Biblíuþýðingu og sagðist særður vegna hennar. Gagnrýni hans var að ég held fjórþætt.
Monogenes
Hugtakið monogenes sem í grísku þýðir eini sonur/einkasonur, var í eldri íslenskum þýðingum þýtt sem eingetinn. Þetta var leiðrétt á öllum stöðum nema í Jh 3.16 í Biblíuútgáfunni 1981. Í nýju þýðingunni er þetta leiðrétt líka í Jh 3.16. Gunnar vill viðhalda vitlausu þýðingunni. (Sjá nánar um þetta hér)
Arsenokoitoi
Orðið Arsenokoitoi kemur fyrir á tveimur stöðum í bréfum Páls í upptalningu á löstum. Orðið er að öðru leiti óþekkt í grísku, nema í textum sem vísa í lastalista Páls. Orðið virðist vísa til einhvers konar samlífs tveggja karlmanna, en það er þó ekki óumdeilt. Í eldri þýðingu er orðið þýtt sem kynvillingar. Arsenokoitoi er þýtt með setningu í nýju þýðingunni sem er í raun jafn óljós og upphaflega orðið sjálft. (Sjá nánar um þetta hér)
Adelfoi
Sú leið þýðingarnefndarinnar að þýða Adelfoi sem systkin en ekki bræður, særir Gunnar einnig. Hér er um að ræða vanda sem öllum þýðendum er velkunnur. Á að þýða texta og fá fram rétta merkingu eða á að þýða orð fyrir orð. Í grísku er karlkynsorðið Adelfoi notað til að ávarpa bæði kyn. Bræður á íslensku er hins vegar ekki ávarp til beggja kynja. Spurningin er því hvort notast eigi við íslenska orðið bræður sem er bókstafleg þýðing Adelfoi, eða hvort notast eigi við systkin sem er merkingarleg þýðing Adelfoi. Ég persónulega hallast að merkingarlegu þýðingunni eftir að hafa lesið mér til um málið. (Sjá nánar nánar um þetta í ummælum hér og í þessari grein hér).
Apókrýfuritin
Óvissan um ritasafn Gamla testamentisins er löng en segja má að Vulgata þýðing textans hafi markað viss þáttaskil en Vulgata var latnesk þýðing Biblíunnar sem kom út rétt eftir 400 e.Kr. Í Vulgata voru 46 rit í Gamla testamentinu, samanborið við 39 í íslensku þýðingunni frá 1912 og auk þess 3 svokölluð apókrýf rit. Þetta ritasafn var notað í kirkjunni um aldir (og er víðast hvar enn) og 1546 samþykkti kirkjuþingið í Trent að festa Vulgata þýðinguna sem eina endanlegu réttu latnesku þýðinguna á textanum og staðfesti þar með ritasafnið.
Fram til 1813 voru Apókrýfubækurnar taldar tilheyra ritasafni Biblíunnar á Íslandi líkt og víðast hvar annars staðar, en fyrir tilstuðlan Ebenezar Henderson sem stóð að þýðingunni það ár, var ritasafn GT í íslensku þýðingunni skorið niður í 39 bækur og þannig hefur það verið hér á landi fram til þessa. Ákvörðun Henderson byggðist á því að hann tilheyrði hinum reformerta armi kirkjunnar sem leit á það sem hluta siðbreytingarinnar að hafna Vulgata ritasafninu sem hinum eina rétta canon, en notast við lista sem síðan var staðfestur í Westminster játningunni 1647 (Hægt er að leita í smiðju Wikipedia til að lesa um þróun ritasafns gyðinga, sem hefur alla tíð verið flöktandi). Því eru mótmæli Gunnars í raun krafa um að hafna því ritasafni Biblíunnar sem kirkjan studdist við allt frá árinu 400, og taka þess í stað upp lista yfir rétt rit sem var samþykkt af til þess að gera fámennum hópi trúmanna 1647.
Særindin
Ítrekað í Silfri Egils talaði þáttarstjórnandi um hversu Biblíufróður Gunnar væri. Af ofangreindu má vera ljóst að annað tveggja var Egill að hæða Gunnar, enda oflof háð, eða hitt að framkoma og sjálfsöryggi Gunnars blekkti stjórnandann. Ljóst er að athugasemdir Gunnars og kvartanir eru ekki byggðar á þekkingu og visku á sviði Biblíufræða, heldur tilfinningalegri tengingu við gamla þýðingu á stórkostlegri bók. Það er ekkert rangt við að tengjast bók tilfinningalegum böndum, þykja vænt um orðin sem færðu mann til trúar, og vera sár yfir breytingum. Breytingar eru nefnilega erfiðar öllum. En að tengja þessi sárindi við fræðimennsku eða einhvers konar vitneskju um rétt og rangt þegar kemur að Biblíuþýðingum er ófaglegt og ekki sæmandi fullorðinni manneskju sem vill láta taka sig alvarlega.
Þessi gamla góða saga
grípur mig á einhvern hátt.
Hún mun æ um alla daga,
eiga sama töframátt.