Embættisgengi

Ég fór að velta því fyrir mér fyrir tveimur dögum hvað mig myndi vanta upp á embættisgengi til prests í íslensku þjóðkirkjunni ef ég myndi ljúka MALM og STM prófi hér við Trinity. Í sjálfu sér féll rannsóknin strax á lagagreininni um embættisgengi en þar kemur fram að skilyrðin séu

Embættispróf frá guðfræðideild Háskóla Íslands eða frá viðurkenndri guðfræðideild eða guðfræðiskóla og skal biskup um hið síðarnefnda atriði leita umsagnar guðfræðideildar Háskóla Íslands.

Þetta bendir til þess að aðeins nám sem er skilgreint sem embættisnám sé viðurkennt. Því sé MA eða jafnvel Ph.D.-gráða ekki fullnægjandi þrátt fyrir að öll sömu námskeið séu tekin og í Cand. Theol. námi.

Ef hins vegar skilningurinn er ekki svona þröngur þá hlýtur viðmiðið að vera nám sem inniheldur sömu eða svipuð námskeið og guðfræðideild HÍ býður upp á í Cand. Theol. náminu.

Gamlatestamentisfræði (5e kjarni, 5e hebreska, 14e framhaldsnámskeið, alls 24e)

  • Ég hef lokið kjarnanum í HÍ
  • Ég hef tekið einn OT/HS – 4 eininga kúrs í TLS
  • Ég á eftir að taka Hebresku 5 einingar
  • Ég á eftir 10 einingar í GT-ritskýringu

Nýjatestamentisfræði (3e kjarni, 10e gríska, 20e framhaldsnámskeið, alls 33e)

  • Ég hef lokið kjarnanum í HÍ
  • Ég hef tekið 4 eininga “val”kúrs í HÍ
  • Ég hef tekið 4 einingar í NT í TLS.
  • Ég á eftir 10 einingar í grísku
  • Ég á eftir 12 einingar í NT-ritskýringu

Trúfræði (3e kjarni, 11e framhaldsnámskeið, alls 14e)

  • Ég tók Játningafræði sem kjarna
  • Ég tók trúfræði I hjá Arnfríði upp á 4einingar
  • Ég hef tekið 8 einingar í trúfræði í TLS.
  • Ég hef tekið 1 einingu umfram skyldu í trúfræði.

Siðfræði (5e kjarni, 8e framhaldsnámskeið, alls 13e)

  • Ég tók 6 einingar í siðfræði í HÍ.
  • Ég hef tekið 4 einingar í siðfræði hér í BNA.
  • Mig vantar 3 einingar í siðfræði.

Kennimannleg guðfræði (2e kjarni, 17e framhaldsnámskeið, alls 19e)

  • Ég tók a.m.k. 20 einingar í kennimannlegu námi í HÍ.
  • Ég hef tekið og/eða er skráður líklega í 33 einingar hér í TLS.
  • Við það bætist STM-námið.
  • Ég er því með c.a. 34 einingar og árs meistaranám umfram skyldu.

Almenn trúarbragðafræði (7e kjarni, 4e framhaldsnámskeið, alls 11e)

  • Ég tók 10einingar í HÍ
  • Ég hef tekið 4,5 einingar hér.
  • Ég er því með 3,5 einingu umfram þörf.

Kirkjusaga (4e kjarni, 10e framhaldsnámskeið, alls 14e)

  • Ég tók 10einingar í kirkjusögu í HÍ.
  • Ég hef tekið 8 einingar í TLS.
  • Ég er því með 4 einingar umfram þörf.

Kjörsvið og frjálst nám upp á 24 einingar er væntanlega mætt með ýmsum námskeiðum sem ég hef tekið umfram þörf ýmist í HÍ eða TLS.

Niðurstaðan er því sú að ef krafan snýst um guðfræðipróf, en ekki embættispróf að mig skortir hebresku og grísku, auk 12 eininga í ritskýringu NT og 10 eininga í ritskýringu GT. Reyndar er eitthvað um “overlap” milli kúrsa sem ég tók á BA-stigi á Íslandi og ég hef verið að taka á MA-stigi hér, en það þyrfti að skoða sér í lagi í tengslum við merkingu orðsins framhaldsnámskeið sem er notað í Guðfræðideild HÍ.

Með öðrum orðum, ef ég hefði áhuga á að verða prestur þá þyrfti ég að fara að lesa í Biblíunni minni og læra smá siðfræði. Ekki veitir af 🙂

Annað skilyrði fyrir vígslu sem prestur er þetta hér:

Áður en kandídat hlýtur vígslu skal hann hafa starfað með sóknarpresti eigi skemur en fjóra mánuði undir eftirliti prófasts. Um framkvæmd og eftirlit þessa skal nánar kveðið á um í reglugerð. Að öðru leyti fer um nám í kennimannlegri guðfræði svo sem segir í reglugerð um nám í guðfræðideild Háskóla Íslands.

Hér hlýt ég að spyrja mig hvort störf mín sem djákni komi að einhverju leiti til móts við þetta skilyrði.

8 thoughts on “Embættisgengi”

  1. Hér hlýt ég að spyrja hvers vegna þú takir saman þessa löngu greinargerð. Hefurðu ákveðið prestakall í huga, eða er þetta aðeins ádeila á guðfræðideild HÍ/ kerfi embættisgengis hjá Þjóðkirkjunni?

  2. Í þessari samantekt felst enginn sérstakur dýpri skilningur. Mér flaug þetta einfaldlega í hug fyrir tveimur dögum. Ég ákvað að byrja á að kíkja á lögin um embættisgengi og skoða síðan hvað þetta þýddi fyrir mig svona c.a. Ég gaf mér ekki tíma til að athuga nákvæmlega hvaða kúrsa ég hefði tekið í HÍ fyrir 10 árum síðan, heldur skautaði svona yfir það. Þannig getur verið að ég hafi tekið fleiri einingar á einhverjum sviðum en hér kemur fram.

    Hins vegar má velta fyrir sér hvort að áherslur guðfræðideildarinnar varðandi Cand Theol nám séu í samræmi við þarfir kirkjunnar. Þannig er að mínu mati umhugsunarefni hvort að kirkjan þurfi ekki að leggja meiri áherslu á kennimannlega guðfræði sér í lagi þar sem kirkjureynsla margra guðfræðinema er mjög lítil og skilningur á eðli kirkjunnar jafnvel enn minni.

    Eins er að mínu persónulega mati áhersla á ritskýringu meiri en þörf krefur. Vissulega þurfa nemendur að læra aðferðafræði og kenningar en spurningin sem ég hef, er hvort lestur og rannsóknir hvers ritsins á fætur öðru eigi endilega heima í prestsnámi og slík vinna eigi eftir vill fremur heima að einhverju leiti í framhaldsnámi eða í söfnuðum. Þannig er mun minni ritskýringarvinna í M.Div. náminu í Trinity Lutheran Seminary. Reyndar er hebresku- og grískunámið svipað en síðan er einfaldlega gert ráð fyrir einum ritskýringarkúrs á hvoru tungumáli. Ég velti fyrir mér hvort það sé e.t.v. gáfulegri leið.

    Vangavelturnar um jafnvægi milli kennimannlegrar guðfræði og ritskýringar eru auðvitað byggðar á því hvað ég tel áhugavert, enda má sjá það á námi mínu hvað mér þykir skipta máli. Hins vegar geri ég ekki ráð fyrir að neitt breytist í þessum efnum, og kalla alls ekki eftir því. Ég verð enda hér í BNA í nokkur ár í viðbót og er ekki að spá í embætti, enda er ég þess fullviss að ég er ekki kallaður til prestsverka.

  3. Rétt er að taka fram að köllun snýst ekki einvörðungu um innri heldur ekki síður ytri köllun, svo einhvern tímann gæti það gerst að ég myndi kanna embættisgengi mitt í íslensku þjóðkirkjunni. En það verður ekki í bráð. Ég veit af embætti sem gæti verið gaman að glíma við og losnar hugsanlega í júlíbyrjun 2027, en ég sé ekkert annað í spilunum. 🙂

  4. Það er nú meira hvað þessum ungprestum finnast embættin sín merkileg. En reyndar virðist ég hafa afvegaleitt ykkur. Embættið áhugaverða losnar líklegast ekki fyrr en í júlíbyrjun 2029.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.