Samkvæmt þörf

Ég ákvað að nýta tækifærið í kvöld þar sem Sicko var forsýnd hér í bænum og skellti mér á þessa umdeildu mynd Michael Moore enda alltaf gaman að sjá ýkta framsetningu á veruleikanum. En framsetningin reyndist ekki svo ýkt. Myndin er hrikalega raunsönn, auðvitað fyndinn og pínulítið stílfærð á köflum, en eftir eitt ár í BNA á mín fjölskylda sögu um ömurleg samskipti við handónýtt heilbrigðiskerfi í þessu landi og því í sjálfu ekki óvænt að heyra sögurnar um gallana í kerfinu, galla sem ég hef séð. Það sama átti við um aðra í salnum, sögurnar virtust kunnuglegar fyrir fólki.

Þegar hins vegar kom að umfjöllun um Kanada, Frakkland og Bretland, heyrði maður undrunarviðbrögðin í salnum, vandræðalegur hlátur og andvörp eins og fólk trúði ekki eigin eyrum. En umfjöllunin kom mér svo sem ekki á óvart, reyndar eru komugjöld á Íslandi en við höfum greitt fæðingarorlof, 4-6 vikna sumarfrí, almannatryggingar og engum er kastað út úr sjúkrahúsum eða hafnað þjónustu vegna þess að tryggingafélagið er ekki með samning við rétt sjúkrahús.

Michael Moore er því í raun að varpa ljósi á heiminn eins og hann er, veruleika sem Evrópubúi með fjölskyldu mætir hér í BNA á fyrsta árinu sínu í landinu. Auðvitað eru einhver hægrisinnaðir strákar sem koma til með að gagnrýna efnistökin, benda á að laun lækna séu lág á Kúbu, eða að efnahagslífið í Frakklandi sé ekki frábært. En myndin fjallar ekki um þessi atriði og þau skipta engu máli.

Spurningin er einföld, á heilbrigðiskerfið að byggja á getunni til að borga eða á þörf einstaklinga í samfélaginu? Með öðrum orðum á að dreifa gæðum heilbrigðiskerfisins eftir þörf eða eftir getunni til að greiða?

Svarið er flestum ljóst, nema kannski ríkustu einstaklingunum ríkustu þjóðar heims.

3 thoughts on “Samkvæmt þörf”

  1. Þetta er mjög áhugavert. Ég hef fylgst aðeins með myndinni og tók eftir markaðssetningarbrellum (eða upplifði ákveðna umræðu kannski bara á þann hátt). Umfjöllunarefnið er mikilvægt og það verður spennandi að sjá myndina og eins að fylgjast með umræðunni sem verður í kjölfar sýningar hennar.

  2. Veit einhver hvort/hvenær þessi mynd verður sýnd hérna á Íslandi? Mig dauðlangar til að sjá hana.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.