Þrjú ár á annál

Í dag eru þrjú ár liðin síðan ég hóf skrif hér á annál og fékk varanlegt svæði fyrir færslur mínar. Þátttaka mín í vefskrifum á sér þó lengri sögu, en segja má að þau hafi hafist fyrir alvöru á umræðuþráðum strik.is meðan ég bjó í Danmörku veturinn 2000-2001. Þá gerði ég ýmsar tilraunir með eigin vefkerfi á simnet.is/jennyb um tíma og síðar á hvergikirkja.org. En hvað um það, 19. maí 2004 færði ég “merkilegustu” færslurnar af simnet-svæði konunnar og hóf skrif hér. Þegar ég leit yfir upphafsfærslurnar áðan var ein þeirra sem vakti sérstaka athygli mína, en það var færslan Að velta hlutunum fyrir sér. Þannig má segja að allt frá upphafi annálaskrifa minna hafi ég stefnt til náms hér í Trinity.

Þrátt fyrir að elli.annall.is sé aðalvettvangur minn í netheimum, er ekki svo að hann sé sá eini. Þannig opnaði fjölskyldan vefsvæðið hrafnar.net, með fréttum og myndum af fjölskyldunni í september 2005, þegar ljóst var að við værum á leið í nám erlendis. Í samvinnu við samnemendur mína í Trinity skrifaði ég um reynslu mína af hjálparstarfi í New Orleans á http://www.churchrespondstodisaster.blogspot.com/. Ég opnaði í nóvember 2006 blogsíðu til að tjá mig um fréttir á mbl.is, stöku sinnum set ég myndir á flickr-svæðið mitt og loks hef ég skrifað eina færslu í hvern flokk á tru.is.

Það er áhugaverð sjálfskoðun fólgin í að skoða eigið blogg, stara á sjálfsmynd sína og gleðjast yfir því sem maður sér, líkt og Narcissos, en ætli ég reyni ekki að forðast örlög hans og láta þessari færslu lokið.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.