Einn af minnistæðustum kennurum mínum í MR, kenndi mér tölvufræði í 4. bekk. Hann var í sjálfu sér litlu eldri en við, var nemandi í tölvunarfræði í HÍ og kenndi okkur pínulítið í Pascal forritun og ef ég man rétt DOS-bókina hans Davíðs Þorsteinssonar eðlisfræðikennara. Tölvuverið var svo sem ekki mikið til að hrópa húrra fyrir, málið var grænir skjáir og Word for Dos sem var reyndar hluti af kennsluefninu.
Verkefni sem fól í sér að horfa á kynningarmyndband um framtíðarnotkun á tölvubúnaði á heimilum var sér í lagi minnistætt. Þarna var kynnt til sögunnar raddstýrð fartölva sem gekk fyrir stýrikerfi, svipuðu því sem ég nota í Macanum í dag, meira að segja ruslafatan á skjáborðinu var á sínum stað. Ég var skipaður í hóp með Gunnar Há og Gumma Hafsteins og við áttum í verkefninu að greina hvaða eiginleika tölvubúnaðurinn hafði og spá í hvenær einstakir þættir yrðu að veruleika. Mér er minnistætt að það eina sem sat í okkur 1990 var raddstýribúnaðurinn, en við spáðum að slíkur búnaður yrði ekki almennur næstu 20 árin. Annað væri nær og jafnvel þá þegar til. Í sjálfu sér er merkilegt að líklega var tölvan í myndbandinu þó nokkuð nálægt MacBook-inni sem ég skrifa þetta á, að frádregnum raddstýribúnaðinum.
Annar hluti verkefnisins var að greina mismunandi þarfir fyrir tölvubúnað og hvort til yrðu margir notendamarkaðir fyrir heimilistölvur. Hér leituðumst við við að greina milli hardcore og softcore notenda, og hittum sjálfsagt ekki fjarri veruleikanum þar heldur. En alla vega kennaranum mínum í tölvunarfræði fyrir 17 árum tókst sem að vekja upp áhuga minn á þessum pælingum sem ég hef rifjað upp öðru hvoru siðan. Ekki síður tókst honum þrátt fyrir lélegan búnað að kynna fyrir okkur margskonar hliðar á tölvunarfræði, sem sjálfsagt voru ekki hluti af námsefninu alls staðar. Mikilvægi þess að skilja hver notin eiga að vera fyrir mismunandi hópa, umræður um mikilvægi notendaviðmóts, skilningur á markaðinum (ekki bara fyrir tölvur) og svo mætti lengi telja. Síðan auðvitað lærðum við líka að feitletra í Word og skrifa Hello forrit í Pascal. Þetta er kannski ekki síður merkilegt fyrir þær sakir að þessi atorkusami kennari sem opnaði alls konar dyr og nýjan skilning á því að feitletrun í Word er mikilvæg var einvörðungu 22 eða 23 ára þegar hann kenndi okkur í 4. bekk í MR.
En hvað um það, þessi ágæti maður og frábæri kennari missti vinnuna sína í dag, en hann eins og margir góðir kennarar hætti kennslu fljótlega eftir að ég sat í tímum hjá honum og sneri sér að viðskiptalífinu. En nú er lag, ef Yngvi rekur og Bjarni konrektor lesa þetta, þá er tækifæri til að reyna að koma manninum aftur í kennslu.
Það merkilega er að hann er ekkert minni nörd í dag heldur en hann var þá. Segið svo að við nördarnir getum ekki líka verið töffarar.