Núna um helgina er ég að skoða stöðu Múslíma í vestur Evrópu af fullum krafti, verkefni sem ég hef verið með annað augað á undanfarna 2 mánuði. Múslímar hafa mátt glíma við ýmsa erfiðleika við aðlögun að nýjum aðstæðum og ástæður þess fjölmargar, og sjaldan eins sök er tveir deila. Eitt málið sem er gegnumgangandi í Evrópu varðar greftrunarsiði og sérstaka grafreiti fyrir Múslíma. Hluti deiluefnisins hefur verið að víða í Evrópu hefur verið skylda að notast við líkkistur, en hefð Múslíma er að sveipa líkið klæðum og grafa það kistulaust. Sú aðferð er að sjálfsögðu mun eðilegri með hliðsjón af umhverfisvernd, auk þess sem það kallar á mun minni umgjörð, eitt stærsta atriðið sem jarðarfarir sér í lagi á Íslandi eru gagnrýndar fyrir (kistan kostar nefnilega sitt).
Ekki er kveðið á um það í íslenskum lögum að skylt sé að notast við kistu og má þannig ætla að allir gleddust yfir því að ekki kæmi til átaka um þetta mál. En svo er víst ekki.
Kirkjumálaráðuneytið vann að lagabreytingum fyrir síðasta þing sem reyndar náðu ekki fram að ganga, en í athugasemdum frá ráðuneytinu sem voru lagðar fram á Kirkjuþingi 2006, kom fram að:
Hingað til hefur ekki verið talið nauðsynlegt að hafa í lagatexta að lík skuli jarðsett eða brennt í kistu, svo sjálfsagt hefur það verið talið. Með auknum fjölda manna sem aðhyllast önnur trúarbrögð hér á landi, er nú talið nauðsynlegt að setja ákvæði hér um í lög, því í sumum trúarbrögðum er talið nægjanlegt að sveipa lík klæðum áður en það er jarðsett.
Þannig taldi nefndin í ráðuneytinu að það væri sérstök ástæða til að efna til ófriðar við Múslima um þetta mál og setja í lög ákvæði til að gera þeim erfitt fyrir, eða hvað…
E.s. Rétt er að taka fram að Kirkjuþing hafnaði þessari hugmynd frá ráðuneytinu og samþykkti að í ákvæðinu ætti að taka fram að:
Þó skal heimilt að veita einstökum trúfélögum leyfi til að búa lík til greftrunar innan sinna vébanda samkvæmt eigin hefðum enda samræmist það lögum og góðum siðum.
Blessaður Elli, þú fyrirgefur en ég skil fyrri tilvitnunina þína alveg eins á hinn veginn og því hafi ekki þurft að hafna neinu heldur einungis koma með tillögu að orðalagi eins og Kirkjuþing gerði. Ég skil athugasemdina svona: Það er viðtekin venja á Íslandi að lík séu jarðsett eða brennd í kistu og hefðin svo rík að ætla mætti að hún væri lögfest og aðrar leiðir ekki færar. En svo er ekki. Því er nú nauðsynlegt að koma orðum að því í lögum hvort og þá hvernig búa megi lík til greftrunar eða brennslu.
Jamm, það held ég nú.
Já, það er vegna þess að í færsluna vantar breytinguna á lagagreininni sem hljóðaði svo í tillögu nefndarinnar:
2. málsgr. 3. gr. breytist og verður svohljóðandi: Óheimilt er að greftra lík eða brenna það nema það sé í kistu og hjúpað líkklæðum eða öðrum klæðnaði.
Hugmyndin sem er rökstudd með fyrri tilvitnuninni, átti sem sé að banna útfarir sem ekki eru í kistu.
Er þetta ekki raunin í dag, ég hef verið að skoða þessi mál undanfarið og hélt að í dag væri óheimilt er að greftra lík eða brenna það nema það sé í kistu og hjúpað líkklæðum eða öðrum klæðnaði. Var einmitt að furða mig á þessu um daginn en finn svo ekki aftur reglugerðina eða lögin sem ég var að skoða.
Ég hélt líka að þessi lög hefðu verið samþykkt, en nú finn ég þau bara innifalin í umsögn Kirkjuþings um meint lög. Þau hefðu átt að taka gildi nú í sumar, en virðist hafa verið slaufað á Alþingi vegna tímaskorts eða eitthvað.