PR-klúður

(Upphaflega birt á halldorelias.blog.is)

Fyrir það fyrsta er mikilvægt að átta sig á því að Prestastefna er valdalaus stofnun í þjóðkirkjunni, alla vega þegar kemur að beinum völdum. Hér er um að ræða fund sem hefur tillögu- og umsagnarrétt um mál er varða kenningu kirkjunnar og helgisiði og annars heyra undir biskup og kirkjuþing. Einungis prestar hafa atkvæðisrétt á Prestastefnu, þannig að hér er um að ræða fagfund fremur en ákvarðanaapparat. Völd kirkjunnar birtast í gerðum Kirkjuþings, þar deila prestar vígðum sætum með djáknum og meirihluti þingmanna eru óvígðir. Þannig að ákvarðanir Prestastefnu eru á engan hátt bindandi og þeir sem sitja hana hafa ekki einu sinni meirihlutavöld þegar kemur að ákvörðunum í kirkjunni.

Hitt er samt sem áður merkilegt að á Prestastefnu var sátt um málefni samkynhneigðra sem gengur jafn langt og nokkur kristin kirkja hefur gengið í þessum málum, ef undan er skilin UCC í Kanada og Bandaríkjunum, sem eru fremur smáar kirkjur, sem hafa tekið málefni samkynheigðra upp á sína arma sem PR-mál, m.a. til að marka sérstöðu á kirkjumarkaðinum hér vestra (ef Deb kynni íslensku myndi hún sparka í mig fyrir að túlka ályktanir UCC á þennan hátt).

Samþykktin sem var gerð á Prestastefnu er á pari við Svíþjóð og tillaga Sigga Grétars og dr.dr. Péturs sem var samþykkt gengur lengra en Svíarnir.

PR-klúður kirkjunnar fólst í því hvernig tillaga 42 manna hópsins varð að einhvers konar ground-base, allt minna en það væri íhaldssemi. Reyndar er spurning hvers vegna tillögur 42 einstaklinga endar með 22 atkvæði. Það væri áhugavert að sjá hversu margir bökkuðu frá tillögunni á stefnunni og hvort á listanum hafi verið margir utan þjóðkirkju (a.m.k. Einar, Sigríður, Ása og Pétur).

En hvað sem má segja um kirkjupólítík, þá er ljóst að kirkjan virðist hafa tapað í PR-stríði jafnvel þó að gengið hafi verið lengra til móts við réttindabaráttu samkynhneigðra en þekkist annars staðar (sjá þó ofar um UCC).

Nú er bara að vona og sjá hvað gerist á Kirkjuþingi, hvort að biskupar og kenninganefnd nái að koma með eitthvað þar, sem kemur til móts við tillögu dr.dr. Pétur og Sigga Grétars sem Prestastefna samþykkti. Ef það tekst, og kynningarpakkinn verður lagaður, er líklegt að kirkjan geti snúið þessu PR-fíaskói við.

Þegar deilan færist endanlega frá helgisiðum og lögheimildum og snýst einvörðungu um hugtakanotkun, þá er málið komið í höfn. Í daglegu lífi notum við nefnilega ekki alltaf pólítísk rétt hugtök. Þannig er enn talað um brúðkaup, þó slík kaup séu almennt ekki viðurkennd, við tölum um manninn hennar eða hans, þó ekki sé fólk gift og svo mætti lengi telja.

Þannig verður hjónahugtakið notað jafnt um gagnkynhneigð og samkynhneigð pör í allri umræðu, óháð lagabókstafnum, þegar lögheimildirnar og helgisiðirnir verða þeir sömu eða að fullu sambærilegir.

Tilfinning mín er því sú að ef tillaga dr.dr.PP og Sigga Grétars nær í gegn á kirkjuþingi, þá sé það eina sem eftir stendur, leiðrétting á málvenju og skemmt PR kirkjunnar. Leiðrétting á málvenju mun eiga sér stað, óháð lagabókstaf. En hvað gerist með PR-ið er verra að segja.

29 thoughts on “PR-klúður”

  1. Ég hef nokkrar athugasemdir fram að færa við þessi skrif þín Halldór.

    Fyrir það fyrsta er staða Prestastefnu sterkari en þú heldur fram, þó svo að að formlegt vald hennar sé á reiki og miklu minna en Kirkjuþings. Tillögur sem snerta presta og starf þeirra þurfa á fá samþykkis Prestastefnu áður en þær eru sendar til Kirkjuþings og samþykktar þar. Það þarf sem sé samþykkis beggja þessara stofnana kirkjunnar í sumum málum til að þau geti öðlast lagalegt gildi.

    Í öðru lagi fólst tillaga sú sem þú talar um að hafi verið samþykkt á Prestastefnu (með 43 atkvæðum gegn 39!), einungis í því að fela biskupi og kenninganefnd að taka afstöðu til þess hvort einstaka prestum skuli vera heimilt að vígja samkynhneigð pör eða ekki.
    Merkilegri var sú samþykkt nú ekki – og á engan hátt róttæk samþykkt sem gengur lengra en kirkjulegar samþykktir annars staðar gera.
    Enda segir með réttu á bloggi á visir.is að þar með hafi kirkjan stungið tillögu 42-menninganna ofan í skúffu þar sem hún mun líklega dúsa framvegis.

    Hins vegar er ég sammála þér að málið er í raun komið harla langt þar sem komið hefur fram að það séu engin biblíu- eða kenningarleg rök fyrir því að leyfa ekki hjónaband samkynhneigðra. Þetta sé einungis spurning hvað eigi að kalla hlutina! Þó finnst mér borin von að Kirkjuþing langi lengra en Prestastefna enda er það mun íhaldsamari stofnun.

    Varðandi PR-ið hef ég lítið að segja. Það er reyndar neyðarlegt hve fækkaði mjög í hópi þeirra sem vildu vígja samkynhneigða, ekki aðeins úr 42 í 22 heldur einnig niður í 14 þegar tillaga kenningarnefndar var borin fram til atkvæða. Reyndar veit maður ekki hverjir þessir 14 voru sem þar kusu á móti. Vel getur það hafa verið hinn þögli minnihluti sem var á móti hvoru tveggja, vígslu sem blessun samkynhneigðra.

    Mér finnst samt sem áður framlag 42-menninganna vera mjög þarft verk og gott fyrir þjóðkirkjuna. Það sýnir alþjóð að prestar þjóðkirkjunnar eru ekki eins steinrunnir og afdankaðir og margir vilja vera láta, og margir prestar láta sjálfir, heldur finnast þarna innan um þónokkur stór hópur manna sem vilja aukin mannréttindi innan kirkjunnar.
    Og svona til að svara sr. Þóri Jökli þá eru mannréttindi og jöfnuður hluti af fagnaðarboðskap Krists. Baráttan fyrir jafnri stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra er þannig hluti af boðun fagnaðarerindisins.

  2. Einn kennarinn minn hér úti, hefur bent á mikilvægi þess í þessari umræðu, sem er komin miklu skemmra á veg en heima, að gefa neikvæðu röddunum ekki kost á að hafna tillögum. Með því móti enda hugmyndir ofan í skúffu og leiða til stöðnunar. Þannig hefði verið hægur vandi fyrir hópinn sem stóð að tillögunni sem var felld, að kanna landið áður en lagt var af stað. Það er sér í lagi mikilvægt þegar um er að ræða mál, sem er ljóst að verður teygt og togað í allar áttir, hvernig sem fer.

    Kennarinn minn benti þannig á að kenninganefnd ELCA hefði, eftir viðhorfskannanir og viðtöl við fjölmarga, lagt fram drög sem hefðu opnað glugga, en fullyrt fátt. Þar komu hins vegar einnig fram einstaklingar fullir af heilögu réttlæti sem lögðu fram tillögur sem gengu lengra í réttindaátt. Þeim tillögum var hafnað og gluggum kenningarnefndarinnar var lokað. Niðurstaðan engum í hag, öllum til ama.

    E.t.v. skiptir Prestastefna meira máli en má sjá í lögunum frá 1997.

    Hvað varðar samþykktina sem fór 43-39 þá gerir hún ráð fyrir að löggerningurinn í tengslum við vígsluna verði á höndum presta (sem það kjósa). Ég hélt að slíkt væri ekki til staðar annars staðar, þó erkibiskup Svía telji því ekkert til fyrirstöðu.

  3. Hitt er samt sem áður merkilegt að á Prestastefnu var sátt um málefni samkynhneigðra sem gengur jafn langt og nokkur kristin kirkja hefur gengið í þessum málum

    Nú sagði Sólveig Lára að það væri ekkert nýtt í því máli, prestar hefðu getað blessað samkynhneigða í mörg ár.

    Hefur hún rangt fyrir sér?

    Annað. Kirkjan stærir sig reglulega af því að vera í fararbroddi í siðferðismálum. Nú vitum við öll að það er ósatt, en er ekki dálítið pínlegt að vera svona langt á eftir siðferði almennings í þessu máli – almenningur er fyrir löngu búinn að taka samkynhneigða í satt – en kirkjan hangir í einhverjum fjölskyldugildum þar sem karl og kona skulu giftast og eignast börn.

  4. Það væri áhugavert að sjá hversu margir bökkuðu frá tillögunni á stefnunni og hvort á listanum hafi verið margir utan þjóðkirkju

    Einn dró sig af listanum, tveir bættust við á prestastefnu. Margir voru annað hvort ekki í þjóðkirkjunni eða ekki prestar (=guðfræðingar) sem rituðu nafn sitt undir plaggið. Margir komu ekki á prestastefnu. Engu að síður, get ég sagt að niðurstaðan gefur góða hugmynd um það hve stór hluti kirkjunnar vill ganga alla leið, en það er 1/4 – 1/3 presta. Ég áætla að um helmingur presta væri tilbúinn að ganga þá leið að vígja samkynhneigða í kirkju ef vígslan héti ekki hjónaband heldur e-ð annað.

  5. Ef “vígslan héti ekki hjónaband, heldur eitthvað annað”? Kommon. Kirkjan getur ekki “vígt” fólk í neitt annað en hjónaband, það veistu vel Carlos. Hún “blessar” samband samkynhneigðra en “vígir” það ekki því einstaka prestar fá ekki leyfi til þess fyrir biskupnum og fyrir kollegum sínum.
    Hjónavígsla heitir það þegar gagnkynhneigðir eru gefnir saman. Blessun sambúðarforms heitir það þegar samkynhneigðir eru “gefnir saman”. Málið snýst um hugtaka- og orðnotkun eins og Halldór Elías hefur bent á, eða svo er a.m.k. látið.

  6. Matti, ég er ekki sammála Sólveigu Láru, þegar litið er til tillögu Sigga Grétars og dr.dr.PP, sem er vísað áfram til biskups. Þar er gengið lengra en áður hefur verið gert.
    Ég held að Carlos meti fjöldatölurnar rétt. Helmingur Prestastefnu er ekki neikvæður gagnvart því að annast löggerning til að staðfesta og blessa sambúð samkynhneigðra.
    Ef tillaga-42 hefði hljóðað:

    Prestastefna haldin á Húsavík 24. – 26. apríl 2007 leggur til að Þjóðkirkjan fari þess á leit við Alþingi að það samræmi hjúskaparlög og lög um staðfesta samvist þannig að vígslumönnum þjóðkirkjunnar og skráðra trúfélaga verði heimilt að annast vígslu samkynhneigðra sambanda.

    Þá hefði sú tillaga verið nær því að fara í gegn. Ég skil reyndar athugasemd Torfa, en minni á að kirkjunnar menn “vígja” hitt og þetta án þess að það hafi vísun til hefðar. Hús, bátar, bílar og kristniboðar utan hefðbundins vígsluskilnings eru dæmi um þetta.

  7. Torfi, ég vitnaði til umræðunnar á prestastefnu en ekki í eigin skoðanir. Til hvers þetta “common”? Ertu að reyna að etja mér út í einhverjar stælur við þig hér hjá Ella?

  8. Ertu nú alveg viss um það Carlos að þú hafir einungis vitnað til umræðunnar á Prestastefnu en ekki í eigin skoðanir. Af hverju notarðu þá fyrstu persónufornafn eintölu?: “Ég áætla að um helmingur presta væri tilbúinn að ganga þá leið að vígja samkynhneigða í kirkju ef vígslan héti ekki hjónaband heldur e-ð annað.”

    Mig langar ekki í neinar stælur við þig, hvorki nú né endranær. Ég leyfi mér hins vegar í allri auðmýkt að gera athugasemdir við skrif þín ef mér þykir ástæða til.
    Og hvernig væri nú að svara einu sinni málefnalega? Á vígsluhugtakið aðeins við um “hjónabandið” en ekki við um “staðfesta sambúð”? Já, eða nei – og rök máli þínu til stuðnings ef svarið er neikvætt!

    Við Ella hef ég þetta að segja. “Vígsla” sambúðarforms á einungis við um hjónabandið en ekki staðfesta sambúð, það skilur þú auðvitað þó svo að prestar séu jú að vígja allan fjandann.

    Auk þess stenst ekki tillaga þín, því ekki er hægt orða hana á þann ha´tt sem þú gerir: “annast vígslu samkynhneigðra sambanda.”

    Hins vegar gæti þessi texti staðist:

    Prestastefna haldin á Húsavík 24. – 26. apríl 2007 leggur til að Þjóðkirkjan fari þess á leit við Alþingi að það samræmi hjúskaparlög og lög um staðfesta samvist þannig að vígslumönnum þjóðkirkjunnar og skráðra trúfélaga verði heimilt að annast vígslu para í staðfestri sambúð.

    Ég efast þó um að þessi tillaga hefði frekar verið samþykkt en sú sem lögð var fram. Henni hefði auðvitað verið vísað til biskups og til kenningarnefndar, eins og sú raunverulega, og safnað þar ryki þar til löggjafinn tekur af skarið, skilgreinir staðfesta sambúð samkynhneigðra sem hjónaband og leyfir forstöðumönnum trúfélaga (þar með talið hverjum sóknarpresti fyrir sig) að gera það upp við sig hvort þeir vilji vígja samkynhneigð pör í heilagt hjónaband eða ekki.
    Þá getur yfirstjórn kirkjunnar ekkert sagt, nema hún vilji brjóta landslög.

  9. Ég heyrði ekki betur en að dr dr Pétur Péturs staðfesti í sjónvarpinu rétt í þessu það sem Lára sagði. Verið væri að staðfesta eitthvað sem hvort sem er hefði verið gert síðustu sjö ár.

  10. Ég veit ekki betur en að umræðan þegar frumvarpið var lagt fram á Alþingi, hafi snúist um hvort löggerningurinn ætti að vera á hendi vígslumanna trúfélaga eða ekki. Ég veit ekki betur en að Prestastefna hafi vísað áliktun um akkúrat það mál til biskups. Kannski túlka ég þá ákvörðun jákvæðar en dr.dr.PP. En ég sá ekki fréttir.

  11. Pétur lagði nú fram ályktunina sem samþykkt var að stinga undir stól, þ.e. vísað til biskups, svo hann ætti að vita hvað hann segir. Það er auðvitað hárrétt hjá Pétri og Matta að tillaga kenningarnefndar, sem var samþykkt á Prestastefnu með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða, var einfaldlega eitthvað sem var fyrir löngu búið að samþykkja.
    Já, kirkjunnar menn eru samir við sig: “Verið því kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur.”

  12. Ég var að horfa á drdrPP og það er skýrt að hann túlkar það sem höfnun að tillögu sé vísað til biskups. Það má vera að svo sé, en skv lögum um Prestastefnu þarf það ekki að vera óeðlileg málsmeðferð. En ég var ekki á Húsavík svo…

  13. Miðað við hversu umræðan þarna á að hafa verið frábær (sbr ummæli Sigurðar Árna í Fréttablaðinu í gær) þá finnst mér undarlegt að margir prestar hafi ekki þorað að segja opinberlega frá skoðun sinni:

    Þeir sem vilja hag samkynhneigðra sem mestan fóru fram á að atkvæðagreiðslan yrði leynileg en því var hafnað. Óskar [Akureyrarprestur] telur ekki ólíklegt að fleiri hefðu sagt já í gær ef atkvæði hvers og eins hefði ekki verið opinbert.

    Hann segir marga hafa viljað leynilega kosningu þar sem þetta væri viðkvæmt mál og fólk ekki tilbúið að segja hvar það standi. Á það var ekki fallist.

    „Ég tel að það hafi skipt máli, þótt það hafi kannski ekki verið úrslitaatriði,” sagði Óskar og bætti við „Við erum enn að takast á um þetta innan stéttarinnar og það er viðkvæmt að segja sína skoðun.” #

    Við hvað voru þeir hræddir?

  14. Í öllum kosningum eru einstaklingar sem hafa þörf fyrir að fá viðurkenningu þeirra sem þeir líta upp til. Það eru líka alltaf einstaklingar sem eiga erfitt með að sætta sig við niðurstöðu sem þeir vita að er röng. Ég held að það þurfi að lesa/hlusta á ummæli Óskars með það í huga.

  15. Þú varst ekki á Húsavík en samt eru tilbúinn að fegra þingið og reynir hér að verja kirkjuna – er þetta biskupsvörn? 😉

    Ert semsagt að segja að Óskar sé bara tapsár? Er ekki frekar sennilegt að einhverjir prestanna hefðu samþykkt tillöguna ef kosning hefði verið leynileg, því þá hefðu þeir ekki hætt því að komast í ónáð hjá biskup og kó?

    Ef eitthvað af prestunum 40 hefðu bein í nefinu myndu þau yfirgefa kirkjuna, en ætli gullpeningarnir haldi þeim ekki góðum.

    Svo vil ég koma því á framfæri að ég fagna því að tillögunni var hafnað.

  16. Nei, Natti þetta er ekki biskupsvörn. Það vill svo til að ég hef lesið mér til um þessa umræðu annars staðar í heiminum auk þess sem einn kennarana minna hér úti leiddi vinnu ELCA (stærstu lúthersku kirkjunnar í BNA) í þessum málum og við höfum spjallað um hvernig var haldið á því máli.

    Ég verð að viðurkenna að þessi tilhneiging til að búa til einhvers konar alsráðandi yfirstjórn sem allir hræðast, sem sumir kirkjunnar menn hafa gert í viðtölum síðustu daga og haldið á lofti í þessari umræðu, er einfaldlega óþolandi. Þetta er ómálefnaleg nálgun og þeim sem til minnkunar sem halda slíku fram.

    Jú, sjálfsagt eru einhverjir prestar, líkt og aðrir, þannig að þeir vilja vera í meirihluta ef um er að ræða umdeildar kosningar. Við höfum tilhneigingu til að flokka okkur í við og hinir, og sumir hugsa meira um hvaða félaga þeir vilja hafa en málstaðinn. Þannig að mér kæmi ekki á óvart að einhverjir hafi kosið að vera í “biskupsliðinu” fyrst að kosningin var ekki leynileg. Það snýst hins vegar ekki um ótta, heldur þörfina fyrir að fá viðurkenningu frá réttum aðila, vona ég alla vega. Þetta var hins vegar ekki afgerandi atriði í þessu máli, og já, það að horfa í svona hluti sem hugsanlega útskýringu á niðurstöðunni gefur í skin að Óskar sé tapsár. Hann leitar skýringa annars staðar en í veruleikanum, tillögu 42, var einfaldlega hafnað af meirihlutanum og prestar eru íhaldsamuri hópur en hann hélt.

    Já, ég skil að þú fagnir. Það er ekki ósennilegt að úrsagnateljarinn á Vantrú, brenni yfir næstu sólarhringana. 😉

  17. Þú skilur þetta ekki alveg Halldór. Matti fagnar vegna þess að nú brennur úrsagnarteljari Þjóðkirkjunnar yfir næstu sólarhringana. Það eru þegar komar fréttir um það í fjölmiðlum hér heima.

    Auk þess hafa raddir fólks um fullkominn aðskilnað ríkis og kirkju orðið miklu háværari og algengari en áður.
    Ljóst er að íslenska þjóðkirkjan tapar mjög miklu á því að hafa ekki samþykkt tillögu 42-menninganna. Ég hélt reynar að viðbrögðin myndu ekki vera svona sterk og gaf því ekki mikið fyrir skrif þín um PR-klúður (hélt að allir vissu um þessa afstöðu kirkjunnar og kærðu sig kollótta). Hvert skref hennar hér eftir mun aðeins gera illt verra, nema auðvitað að hún breyti gjörsamlega um stefnu og leyfi prestum sínum að velja það sjálfir hvort þeir vilji vígja samkynhneigð pör í hjónaband eða ekki. Mér sýnist það vera eina leiðin út úr þessu klúðri ef kirkjan á ekki að missa hina sterku stöðu sína í þjóðfélaginu.

  18. Torfi, úrsagnateljarinn á Vantrú, er teljari sem telur úrsagnir úr þjóðkirkjunni. Hins vegar er rétt hjá þér, Torfi, veik staða kirkjunnar sem þú hefur mótmælt að sé til staðar, mun koma í ljós á næstu vikum og mánuðum. Þetta er EKKI fyrst og fremst vegna stefnubreytingar í kirkjunni, heldur vegna þjóðfélagsbreytinga almennt í heiminum. Vissulega metur þú ástandið rétt, þegar þú segir kirkjuna vera að færast meira í far sem þú kallar “sértrú”. Það er hins vegar “eðlileg” viðbrögð trúfélags við nýju þjóðfélagsmunstri, þar sem áhrifavald þess hefur minnkað (horfið).

    Kirkjan mun vígja samkynhneigð pör innan 2-3 ára, það mun ekki breyta ástandinu neitt. Áhrifavald kirkjunnar á samfélagið allt hvarf fyrir c.a. 30-35 árum og það kemur ekki aftur – ALDREI.

    Líklega er hægt að segja með nokkurri vissu að upphaf endaloka áhrifavalds kirkjustjórnarinnar/Prestastefnu hafi átt sér stað í símtali milli þáverandi biskups og sóknarnefndarformanns á Suðureyri 1973 eða 1974.

    Ég harma EKKI þessa þróun, fagna henni reyndar (enda úr hinum illa KFUM-armi) og tel að nú sé ástæða til að setjast niður og semja bréf þar sem kirkjan óskar eftir samningaviðræðum um fullan aðskilnað ríkis og kirkju og afnám stjórnarskrárákvæðisins.

  19. Eitt vil ég nefna, svona til að ráðleggja Þjóðkirkjufólki.

    Ekki tönglast á því að nú sé kirkjan meðal þeirra framsæknustu í Evrópu eftir þetta prestaþing.

    Í fyrsta lagi er það ekkert til að stæra sig þó maður sé framarlega í einni röð ef maður er á sama tíma langt á eftir þjóðinni. Kirkjur eru almennt íhaldssamar og langt á eftir almenningi þegar kemur að frjálslyndum viðhorfum. Í öðru lagi segir þetta ekki neitt, lönd Evrópu eru mismunandi. Í mörgum þeirra fá kirkjur alls ekkert að gifta fólk, einungis að blessa sambandið eftir að fólk hefur gifst hjá opinberum aðila, í sumum löndum Evrópu eru grasserandi fordómar gagnvart samkynhneigðum, líkt og hvar hér á landi fyrir 2-3 áratugum. Í þriðja lagi, þá breyttist ekkert á þessu prestaþingi, ekki neitt.

    Athugasemdin ætti kannski heima hjá öðrum annálaritara, en hann tekur lítið mark á mér þannig að ég sóa athugasemdinni ekki þar.

  20. Matti, ég er sammála þér, að úr því sem komið er þá skiptir engu máli hvar kirkjan stendur gagnvart öðrum kirkjudeildum þegar kemur að umræðunni hér heima. Hins vegar er ég ekki sammála því að samanburðurinn sé ekki mögulegur.

    Ég er ekki sammála drdrPP, um að ekkert hafi breyst, þó ég hafi ekki verið á Húsavík. Ég held að Pétur hafi mislesið ástandið í kirkjunni sem var til staðar fyrir Húsavík, líkt og 42 menningarnir gerðu án nokkurs vafa.

    Ef formleg staða samkynhneigðra ekki önnur, en fyrir helgi, eins og Pétur heldur fram. Þá er alla vega staða kirkjunnar önnur.

  21. Í öllum kosningum eru einstaklingar sem hafa þörf fyrir að fá viðurkenningu þeirra sem þeir líta upp til.

    Jahá, heldur þú að einhverjir prestar hafi ekki kosið eins og þeir vildu vegna þess að þeir höfðu “þörf fyrir að fá viðurkenningu þeirra sem þeir líta upp til”? :S

  22. [Leiðrétting] Nei, það er ekki það sem ég er að segja, heldur öllu fremur að sumir vilja fremur geðjast þeim sem þeir líta upp til, en að taka afstöðu til málefna.

  23. Tja, þeir klæða sig a.m.k. öðruvísi 😛

    Ég skil vel að einhverjir hafi ekki kosið með tillögunni vegna þess að ekki var hægt að kjósa í skjóli nafnleysis. Ég vil meina að nákvæmlega sama tilfinning valdi því að margt fólk treystir sér ekki til að mótmæla Vinaleið.

    Ég vona að frjálslynda þjóðkirkjufólki íhugi þetta og reyni að skilja tengingu mína þó hún virki kannski langsótt í fyrstu.

  24. Það er alltaf mikilvægt að ítreka hér með reglulegu millibili að ég tel mig ekki tilheyra hópnum “frjálslynda kirkjufólkið”. Ég er uppalinn í KFUM&KFUK, tók píetískt uppeldi mitt þar mjög alvarlega. Ég lít á kirkjuna á Íslandi sem kirkju Krists á jörðu, hluta af almennri katólskri heilagri kirkju en um leið kirkjuna að fullu. Það merkir hins vegar ekki að ég leyfi mér ekki að vera gagnrýnin þegar áhrifavaldar innan hennar gera mistök, en ég veit og trúi að kirkjan sé meira en fólkið sem tekur ákvarðanir.

  25. Hér er ég að höfða til þeirra sem lögðu þessa tillögu fram á prestaþingi. Þar eru margir sem teljast til frjálslyndra, en í sama hópi er fólk sem skilur ekkert í gagnrýni á Vinaleið Þjóðkirkjunnar.

    Ég var ekki að beina þessu til þín.

  26. Það er aldeilis fjör hérna þessa stundina 🙂 Aðeins eins spurning Halldór Elías. Hvað áttu við þegar þú segir að “upphaf endaloka áhrifavalds kirkjustjórnarinnar/Prestastefnu hafi átt sér stað í símtali milli þáverandi biskups og sóknarnefndarformanns á Suðureyri 1973 eða 1974.”

    Var það þegar Auður Eir var vígð sem prestur til Suðureyrar? Og hvað fólst í þessu samtali Sigurbjarnar Einarssonar og sóknarnefndarformannsins? Ert þú kannski mótfallinn kvenprestum og telur að “frjálslyndi” kirkjunnar í þeim málum hafi verið upphafið að einangrun hennar?
    Fleira var það nú ekki gæskurinn.

  27. Torfi, ég er ekki mótfallinn kvenprestum, fjarri fer því og ekki græt ég minnkandi áhrifavald vígðra þjóna kirkjunnar innan kirkjustjórnarinnar (Prestastefnu), enda einn af íhaldssömu “sértrúar” KFUM leikmönnunum (vígður að vísu).

    Ekki veit ég hvort símtalið meinta átti sér nokkru sinni stað, enda vart fæddur á þessum árum. En rétt er hjá þér að ég var að vísa til vígslu Auðar og þeirrar staðreyndar að ákvörðunin um vígslu hennar var EKKI tekin á Prestastefnu eða eftir nákvæma útlistun Prestastefnu á því hvað vígsla er og hver má njóta hennar.

    Þvert á móti, virðist sem ákvörðunin hafi einfaldlega orðið til vegna þrýstings frá Súgfirðingum. Þeir höfðu manneskju sem hafði áhuga á að þjóna þeim í afleysingum og kölluðu eftir þjónustu hennar. Prestvígsla kvenna var ekki guðfræðilegt úrlausnarefni, eins og prestar rembast við að gera úr málefnum samkynhneigðra, heldur einfalt réttlætismál sem leikmenn börðust fyrir. Ég ítreka að orðalagið um símtalið er tilraun til að færa í stílinn, enda Annáll minn yfirlett ekki hugsaður sem Kirkusöguleg heimild um atburði um/eða fyrir fæðingu mína.

    Nei, Torfi ég tel ekki að vígsla kvenna hafi verið upphafið að einangrun kirkjunnar, heldur endalok kirkjunnar sem stofnunar sem er stýrt af vígðum hóp einsleitra einstaklinga sem meira og minna allir hafa menntun frá sömu menntastofnuninni, og hittast og hlusta á félaganna segja sögur og spila á munnhörpu einu sinni á ári.

  28. “Nei, Torfi ég tel ekki að vígsla kvenna hafi verið upphafið að einangrun kirkjunnar, heldur endalok kirkjunnar sem stofnunar sem er stýrt af vígðum hóp einsleitra einstaklinga sem meira og minna allir hafa menntun frá sömu menntastofnuninni, og hittast og hlusta á félaganna segja sögur og spila á munnhörpu einu sinni á ári.”

    Halldór Elías, þú er alveg frábær í þinum skrifum. Það mættu fleiri vera svona óhræddir við að segja skoðanir sínar! Takk fyrir!! kveðja, Sunna Dóra

  29. Elli! Hvað er að því að hittast einu sinni á ári og spila á munnhörpu?
    Ertu nú ekki að verða fullmikill píetisti kvummarinn þinn?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.