Að lokinni upprisuhátíð er við hæfi að snúa til baka eftir bloggföstu. Ekki tókst mér jafnvel til og ég hugðist, en ég skannaði fréttir og bloggfyrirsagnir öðru hvoru á föstunni, þó mér hafi tekist að láta það vera að bregðast við. En ég lét hins vegar vera að skrifa færslur bæði hér og við fréttir á blog.mbl.is.
Það er við hæfi að lokinni svona föstu að hefja mál sitt með umfjöllun um Vantrú, enda sýnist mér að við kirkjunnar fólk teljum þá félaga á tíðum einstaka ógnun við trúarlíf landsmanna. Ég hins vegar rak augun í áhugaverðan greinabálk á síðunni þeirra nú að lokinni föstu um Strategískar ráðleggingar handa Þjóðkirkjunni. Án þess að ég taki undir allt í greinunum er ljóst að þarna er á ferðinni áhugaverð gagnrýnin nálgun sem er verð umræðu og skoðunar í hópi kirkjufólks.
Eins verður að viðurkennast að bingóboðið á Föstudeginum langa minnir okkur öll á mikilvægi þess að skynja samtímann. Helgidagalöggjöfin er einfaldlega úrelt og þarfnast nýrrar nálgunar og vandaðrar umræðu.
Árlegar upphrópanir um Uppstigningardag og mikilvægi hans eru einstaklega gagnslausar í þeirri umræðu, enda fáir sem nota þann frídag frá vinnu til að ganga til kirkju. Eins er spurning hvort hluti af afhelgun daganna felist í fölsku öryggi sem kirkjan telur sig hafa af löggjöfinni.
Með öðrum orðum, innlegg Vantrúarmanna á föstunni og í kyrruviku eru mikilvægt innlegg til sjálfskoðunar í kirkjunni sem við ættum að taka fagnandi.
Mig langar að færa þessa umræðu aðeins lengra. Ég tek orð Halldór sem svo að hann fagni allri gagnrýninni umræðu um þjóðkirkjuna hvort sem þar sé að ræða gagnrýni af hendi Vantrúar eða frá öðrum kirkjudeildum svo sem frá fríkirkjunni og presti hennar. Gagnrýni á kirkjuna sé “mikilvægt innlegg til sjálfskoðunar í kirkjunni sem við ættum að taka fagnandi.”
Mér skilst að gagnrýni Hjartar Magna beinist fyrst og fremst að því bákni sem kirkjan sé orðin og á þær miklu fjárhæðir sem týnist í þeirri hít ár hvert. Því gagnrýni hann presta fyrir að dýrka kirkjubyggingar, þ.e. hið ytra, í stað andans. Nú skilst mér að hann telji slíka dýrkun vera djöfullega sem er auðvitað misskilningur hjá honum. Hún er hins vegar mjög gott dæmi um hinn eilífa dans mannkyns í kringum gullkálfinn, sem hingað til hefur verið kallað skurðgoðadýrkun, og brot á fyrsta boðorðinu.
Það er ekkert óeðlilegt við það að kirkjunnar þjónar gleymi sér um stund og stigi þann dans með öðrum þegnum þjóðfélagsins. Þeir eru jú mannlegir, ekki satt?
Hitt er óeðlilegra hvernig sumir þeirra bregðast við þessari gagnrýni, sbr. margumrædda kæru til siðanefndar prestafélagsins. Slík viðbrögð sýna skort á sjálfskoðun og sjálfsgagnrýni að mínu mati og veit ekki á vott fyrir kirkjuna.
Reyndar hafa prestar yfirleitt verið mjög hörundsárir og átt erfitt með að taka gagnrýni. Það er svo sem ekkert nýtt.
En það er hinn herskái andi sem vekur athygli og verður að teljast tiltölulega nýtt fyrirbæri. Ég tel að ástæða hans sé sífellt meiri aðgreining kirkju og samfélags og síaukin sérhyggja innan kirkjunnar. Líklega eru það viðbrögð við aukinni fjölhyggju í samfélaginu.
Þó er ekkert sjálfgefið að svo sé brugðist við af hálfu kirkjunnar.
Í byrjun síðustu aldar var brugðist á allt annan hátt við aukinni frjálsræðishugsun, þ.e. af nýguðfræðinni. Hún setti sig í fylkingarbrjóst þeirra sem gagnrýndu kirkjuna – en gerði það innan frá. Þannig varð samfélagsgagnrýnin beisluð innan kirkjunnar og beint í þann farveg sem hún réði sjálf við og hafði stjórn á.
Þetta getum við lært af frjálslyndu guðfræðinni. Tekið upp hina oft á tíðum fjandsamlegu gagnrýni á kirkjuna og unnið sjálf úr henni á jákvæðan hátt. Byggja starfið á lifandi steinum en ekki steinsteypu, vera í fararbroddi þeirra afla sem krefjast breyttra lífshátta, og fórna sjálf eitthvað af eigin forréttindum til að sýna að henni sé alvara.
Slík væri dæmi um vellukkaða sjálfskoðun – og að kunna að taka gagnrýni.
Ég get tekið undir með þér hér Torfi að mörgu leiti. Ég tel það rétt mat að sú aðgreining sem þú nefnir sé að einhverju leiti viðbrögð/andsvar við kröfu samfélagsins um aðgreiningu og skilgreiningu kirkjunnar á sjálfri sér. Hvort viðbrögð kirkjunnar séu rétt eða röng er vart mitt að dæma um. Ég aðhyllist sjálfur kirkju sem gefur skýr skilaboð og leyfir sér að standa til hliðar og utan við hið pólítíska vald og samtímann sem hún er um leið hluti af.
Ég er ekki viss um að kirkja upplýsingarinnar og síðar nýguðfræðin hafi verið svo stórkostleg. Ég held að þar höfum við einmitt haft guðfræði menntaðrar yfirstéttar sem gnæfði yfir og fjarlægði sig frá söfnuðinum, aðgreiningin hafi ekki siður verið til staðar þar.
Ég er enginn nýguðfræðingur, enda ekki inni á því að samsama kristindóm og mennsku – og gera að einu og sama fyrirbærinu. Hins vegar var nýguðfræðin slungin í því að taka upp nútímalegar hugmyndir og gera að sínum, svo sem nýjar uppeldis- og kennsluaðferðir, og hafði með því feikimikil þjóðfélagsleg áhrif.
Það er því rangt hjá þér Halldór að nýguðfræðin hafi aðeins verið “guðfræði menntaðrar yfirstéttar” því hún hafði ótrúlega mikinn hljómgrunn meðal almennings. Þetta er líklega sú guðfræðistefna sem hefur haft mest áhrif nokkurra slíkra stefna hér á landi – og hefur mótað trú þjóðarinnar allt til þessa.
Kirkjan í dag hins vegar er ekki leiðandi afl á nokkurn hátt. Hún eltir tíðarandann með því að þjóna almenningi í eftirsókn sinni eftir ytri táknum um velgengni. Í stað þess að leiða fólk í burtu frá hégómanum eltir hún hann af sömu ákefð og aðrir – og bregst svo hin versta við ef einhver vogar sér að gagnrýna hana fyrir það. Og það hlálegasta er að sértrúarprestarnir (KFUM/K, þeir karismatísku o.s.frv.) er þeir sem hæst láta í nauðvörninni. Ég tek undir með vantrúarmönnum að það sé kominn tími til að kirkjan láti af þessari varnarbaráttu og snúi vörn í sókn.
Við sáum örsmáan vísir af slíku í ræðu biskups, í tali hans um nýjan lífsstíl, en í örvæntingarfullri þörf hans og kirkjunnar til að þóknast afturhaldsöflunum hljóp hann yfir í árásir á vantrúna – og fékk hrós fyrir hjá hægribullunum.
Nei, kirkjan á að þora að taka forystuna og leiða þjóðina áfram til nýrra tíma rétt eins og hún gerði í upphafi síðustu aldar!
Ég skil ekki af hverju “sértrúarprestarnir” láta hæst í nauðvörninni. Er það af því að þegar áskorun er mætt er öryggið í byrginu, sem var búið að reisa fyrir löngu síðan? Og af hverju getur þjóðkirkjan ekki verið spámannlegri? Getur verið að þjóðin vilji enga spámenn nema í formi Spaugstofunnar?
Ég verð að viðurkenna að mér mislíkar þessi leið til að flokka presta á þann hátt sem bæði Carlos og Torfi gera hér. Ég hef gert mig sekan um þetta sjálfur, en ég held að þetta sé ekki hjálpleg leið til að fjalla um stöðu kirkjunnar.
Ég held að innan kirkjunnar séu meira og minna allir í vörn. Við erum í vörn vegna óvissrar stöðu okkar persónulega, vörn vegna stöðugrar hlutfallslegrar fækkunar, í vörn vegna þess að ríkið vill ekkert með okkur hafa, í vörn vegna þess að skyndilega eru fleiri sem lesa Biblíuna á Íslandi en hinir kristnu, vörn vegna þess að við vitum ekki hvað gerist á morgun, ólíkt menntuðu prestunum í upphafi 20. aldar, er kirkjufólk í upphafi þeirrar 21. sjaldnast talið rjómi menntafólks í landinu og margir innan kirkjunnar upplifa sig áhrifalausa í mótun nýrrar aldar. Ég held að Torfi hitti naglann á höfuðið með því að vilja takast á við umræðuna, koma fram af festu og öryggi og segja hver við erum hvað við viljum og horfast í augu við afleiðingarnar (aðskilnað ríkis og kirkju – breytta stjórnarskrá).
Ég flokkaði ekki, ég spurði. Hefði vissulega geta bætt einu “Torfi:” framanvið, en gerði ekki. Geri það hér með.
Ég skil ekki spurninguna Carlos. Vantar ekki einhvað í setninguna: “er það af því að þegar áskorun er mætt er öryggið á byrginu”.
Ertu að spyrja hvort “sértrúarprestarnir”, þ.e. prestarnir í Kópavogi, virkilega láti hæst í nauðvörninni eða ertu að leita að skýringu á þeirri “staðreynd”?
Hvað viðbrögð Halldórs varðar þá sé ég ekkert að því að reyna að sundurgreina ólíkar stefnur innan þjóðkirkjunnar og reyna með því að skerpa myndinni af kirkju og prestum hennar.
Vissulega er kirkjan í vörn. Dæmi um það er viðbrögð eins prestsins við spurningarlista um þekkingarstöðu og viðhorf sjöndubekkinga í garð kristinna fræða og truar, sem ég sendi prestum landsins í byrjun ársins. Hann sagðist óttast að siðmennt kæmist í könnun sem þessa og notaði hana gegn kirkjunni! Fyrir það fyrsta gaf hann sér að útkoma yrði kirkjunni neikvæð og í öðru lagi að opin umræða um stöðu hennar yrði henni ekki til góðs.
Þá er staðan ekki eins slæm og þú vilt vera láta, Halldór. Könnun Gallus árið 2004 sýnir sterka stöðu kirkju og kristni. Mikil og almenn eftirspurn eftir kirkjulegri þjónustu gerir það líka (skírn, ferming, hjónavígsla, útför).
En ég tek undir með þér um að við megum ekki vera svo hrædd við umræðuna að við reynum að forðast hana eins og heitan eldinn.
Fyrirgefið ritvillurnar í fyrri pósti, það er einhver mánudagur í manni.
Mig langar hins vegar að hnykkja á þessu um sókn í stað varnar. Ég hef þegar nefnt eitt sem biskup kom inn á í páskadagsræðu sinni, þ.e. að kirkjan bregðist af einurð og hugrekki við ofhlýnunarvandanum og boði breyttan lífsstíl sem forsendu þess að við endum ekki aftur í moldarkofum miðalda.
Einhvers konar asketismi hefur alltaf verið boðskapur kirkjunnar – og nú virðist fátt annað geta bjargað stórum hluta heimsins en slík hugsun. Ofhlýnunin lendir verst á þeim fátækustu í veröldinni, en einmitt þeir eru einhverjir helstu skjólstæðingar kirkjunnar í aldanna rás.
Annað sem ég vil nefna sem sóknarfæri er hinn sígildi boðskapur Krists (og kirkju) gegn styrjöldum og hvers kyns ofbeldi. Biskup kemur inn á þetta í einu bæklinga sinna – og eru þau ummæli notuð á kirkjan.is sem leiðarljós okkar í nýbyrjaðri viku:
“Upprisa Jesú hins krossfesta er öflug andmæli Guðs við ranglæti, þjáningu og dauða í sérhverri mynd. Upprisa Jesú staðfestir að Jesús hafði rétt fyrir sér en ekki þeir sem dæmdu hann. Upprisan er staðfesting þess að líf hans, líf kærleikans, mildi og miskunnsemi, réttlætis og sannleika – er Guði þóknanlegt, en EKKI hrokinn og hrottaskapurinn og ofurefli ofbeldis og valdbeitingar.”
Þessi orð eru sérstaklega mikilvæg fyrir kirkjuna í dag, þegar ofbeldi hins vestræna heims gagnvart múslimum í vestur-Asíu verður æ meira áberandi. Íslenska kirkjan getur með þessum boðskap, sem er svo rótfastur í kenningum hennar, tekið forystu í baráttunni hér heima gegn valdníðslu okkar eigin heims gagnvart öðrum heimshlutum, baráttu gegn ofneyslu Vesturlandabúa og hernaðarhyggju.
Hefur þú séð allar niðurstöður könnunar Gallups frá 2004? Af einhverjum ástæðum hafa ekki allar niðurstöðurnar birst, ekki einu sinni sjálfar spurningarnar.
Ég hef nú aðeins séð þessa könnun á kirkjan.is, sjá http://kirkjan.is/skjol/truarlif_islendinga_2004.pdf
Þar er sérstaklega tekið fram að hún sé til birtingar á netinu, sem hlýtur að þýða það að hún er ekki birt annars staðar.
Þá er tekið fram að hún sé unnin fyrir Biskupsstofu, guðfræðideild Háskólans og kirkjugarða Rvíkur.
Þessir aðilar eiga því væntanlega könnunina og ráða hvar þeir birta hana.
Þá fæ ég ekki séð að einhverjum niðurstöðum hefur verið stungið undir stól, og leyfi mér að efa það. Þá birtast sjálfar spurningarnar í könnuninni. Ég skil því ekki þessar athugasemdir Hjalti.
Ef þú skoðar efnisyfirlitið sérðu að spurningarnar eru númeraðar. Síðan vantar amk eina spurningu sem ætti alltaf að vera “ofarlega á baugi” í svona könnunum. Amk er undarlegt ef það var spurt um viðhorf fólks til biskupsembættisisns í könnun um trúarlíf Íslendinga, en ekki um Jesús.
Jú, en mér finnst óðlilegt að birta ekki niðurstöður sem voru gerðar fyrir pening úr opinberum sjóð sem hefur það markmið að “að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn”.
Hjalti þar sem þú telur að kirkjan sé að leyna mikilvægum upplýsingum, þá er bara eitt að gera. Hafðu samband við guðfræðideild Háskólans og óskaðu eftir aðgangi að könnuninni í heild.
Já, þetta er rétt hjá þér Hjalti. Það vantar fjölda spurninga og niðurstöður úr þeim í könnunina! Mér telst til að það vanti 25 spurningar.
Reyndar taka þeir það fram hjá Gallups að skýrsla þessi sé einungis til innanhúsnota hjá þeim sem kaupir hana, svo það var svo sem óþarfi hjá biskupsstofu að birta eitthvað af könnuninni.
Fróðlegt væri þó að fá að heyra hvaða spurningar þetta séu og af hverju niðurstöður þeirra er ekki hafðar með.
Þá vil ég endurtaka það enn og aftur við Hjalta að drífa sig nú í guðfræðideildina! Og ég er ekkert að grínast með það. Guðfræði er akademísk grein og námið í henni jafn mikil “vísindi” og nám í öðrum hugvísindagreinum (eða á að minnsta kosti að vera það). Maður með þennan áhuga á trúmálum og svona glöggt auga á fullt erindi þangað inn.
Reyndar voru nokkrar spurningar birtar síðar af Kirkjugörðum Reykjavíkur (18-22) og sumar spurningarnar eru ef til vill frekar ómerkilegar (t.d. kannski “Hvaða menntun hefurðu?”). En mér finnst merkilegt að þau hafi ekki birt spurninguna um viðhorf fólks til Jesú, sem þau hljóta að hafa spurt um.
Halldór, ég tel ekki að kirkjan sé að leyna mikilvægum upplýsingum. Ég veit að hún hefur ekki birt allar niðurstöður sínar úr Gallup-könnuninni frá árinu 2004.
Ég held ég myndi nú frekar læra trúarbragðafræði heldur en guðfræði, þar sem margt í guðfræði er alls ekki fræðilegt (t.d. kennimannleg guðfræði) og svo get ég ekki einu sinni lært guðfræði samkvæmt sumum guðfræðingum!
Það er því miður ekki verið að kenna trúarbragðafræði hér heima. Allsstaðar annars staðar er það gert. Guðfræðideildin (þ.e. religionvetenskapliga linjen) í Lundi (í Svíþjóð) er t.d. ágæt. Líklega hefur þú þó meiri áhuga á hinum engilsaxneska heimi, en þar þekki ég ekki til.
Hér heima þarftu þó alls ekki að læra kennimannlega guðfræði nema þú ljúkir embættisprófi. Hægt er að taka BA og svo halda áfram ytra eða stefna í master hér heima með því að taka sitthvað úr öðrum deildum.
Guðfræðin er ekki alslæm. Þú sérð nú mig. Ég komst í gegnum hana án þess að skaddast verulega. Þeim “sértrúuðu” tókst a.m.k. ekki að heilaþvo mig.
Torfi, ég sé það að ég hef verið óskýr í spurningum. Ég ætla að gera eina tilraun enn:
1. Af hverju heldurðu því fram að “sértrúarprestar” hafi hæst í nauðvörn, alment talað. Ertu viss um að svo sé?
2. Af hverju kallarðu Kópavogsprestana “sértrúarpresta”, í hverju felst sértrú þeirra og hugsanleg “villa” (=fráviki frá stefnu kirkjunnar, kenningu og helgisiðum)
3. Getur verið að þjóðin, embættismannakerfið, fyrirtækjamenningin leyfi ekki andóf, nema í bundnu máli eða spaugi, sbr. Spaugstofan? Getur það verið að þjóðin vilji þar af leiðandi að þjóðkirkjan viðhafi ekki slíkt og sé ekki spámannleg?
Tja
1) Mér skilst að KFUM/K fólk úr Kópavoginum sé framarlega í flokki þeirra sem kærðu Hjört Magna, þ.e. Magnús glaði, Íris og fleiri (eða kvæntir “sér”trúarfólki eins og Gunnar Sigurjóns er). Ég get ekki verið viss þar sem ég hef hvergi séð nöfnin og umgengst ekki mikið kirkjunnar fólk svo ég þekki ekki slúðrið.
2) Í sértrú felst engin villa heldur frávik frá áherslu þjóðkirkjunnar á því m.a. að allir þeir sem skírðir eru séu fullgildir meðlimir kirkjunnar. Sértrúin telur að sitthvað fleira þurfi að koma til en skírnin ein, svo sem persónuleg játning viðkomandi og gjöf Andans sem sýnir sig á áþreifanlegan hátt í lífi hins trúaða. Hann þurfi á einhvern hátt að hafa “frelsast”, tekið sinnaskiptum, horfið frá villu síns vega á hinum breiða glötunarvegi o.s.frv.
3) Þjóðin vill andóf, eða réttara sagt hluti þjóðarinnar.
Hún vill andóf gegn stíðshugsun núverandi stjórnarherra og stuðningi þeirra við stríðið í Írak.
Hún vill andóf gegn stóriðjustefnu stjórnvalda sem ekki aðeins eyðilegur stór landsvæði og saurgar ósnortna náttúru, heldur eykur einnig mjög útstreymi á gróðurhúsalofttegunum og gengur þannig þvert gegn ályktunm alþjóðsamfélagsins um að dragaúr slíkri losun.
Hún virðist einnig andæfa gegn forréttindum þjóðkirkjunnar gagnvart öðrum trúfélögum og hefur því samúð með málstað Hjartar Magna og gagnrýni hans. Þannig má segja að hluti þjóðarinnar sé spámannleg.
Kæra áttmenninganna á hendur fríkirkjuprestsins hefur hins ekkert með spámannlegheit að gera.
Hún sýnir einfaldlega að “sértrúin” er búin að koma sér vel fyrir innan kirkjunnar og vilji nú verja hana sem stofnun á sinn dæmigerða aggressíva hátt.
Hér fyrr gagnrýni KFUM/K og aðrar slíkar “vakningarhreyfingar” kirkjuna fyrir að vera staðnaða, vera sest að á ákvenum stað í stað þess að ferðast um með tjaldvagninn, og hugsa um það eitt að halda stöðu sinni sem stofnun. Leggja allt fjármagn í byggingar og í rekstur þeirra í stað þess að leggja áherslu á hið lifandi starf.
Ég vil meina að þetta hafi breyst. Nú eru þessir hinir sömu gagnrýnendur búnir að koma sér fyrir innan veggja kirknanna, sitja að feitum sjóðum þeirra og með himinháu launin, og hugsa fyrst og fremst um að verja þann árangur sinn.
Þú mátt alveg kæra mig fyrir þessi ummæli því ég er enn undir siðareglum presta þótt ég sé ekki þar starfandi. En ég vil þó benda þér á að til stendur að breyta siðareglunum – og það til hins betra. Þar á t.d að taka út mjög svo sveigjanlegt ákvæði sem segir að prestar eigi að “forðast að gefa í skyn yfirburði sína yfir starfssystkini sín.” Ég veit að menn hafa verið kærðir fyrir þetta og fengið áminningu fyrir, þó svo að með örlitlum velvilja (meira hefði ekki þurft) hefði vel mátt túlka það atvik sem málefnalega gagnrýni og ekkert annað.
Torfi, bara svo að ég nái þessu og geri þér ekki upp skoðanir:
Heldurðu því fram að “nauðvörnin” sé vegna þess að þau áttmenningar hafa það svo gott sem þjóðkirkjuprestar og eru stöðnuð? Að þetta snúist um peninga og status?
Þú mátt alveg gera mér upp skoðanir ef þú vilt.
Mér finnst þessar spurningar þínar hins vegar bera vott um að þú sért að reyna að koma mér í klandur.
Í grein 3.1. í siðareglum presta segir að presta eigi að “sýna hver öðrum heilindi og virðingu í … umtali” o.s.frv.
Bara svo ég skilji þetta rétt og sé ekki að gruna þig um græsku að ástæðulausu: Ertu nokkuð að því?
Mér finnst dálítið undarlegt af þér, Torfi, að uppnefna kollega, að ætla öðrum sérvisku vegna hjúskapar og að hugsa um ekkert nema steypu og hagsmunagæslu fyrst þeir eru orðnir embættismenn. Því spyr ég.
Hver er svona grófur að strika yfir það sem ég skrifaði. Var eitthvað óviðurkvæmilegt í spurningu minni? Ef svo er þá er siðgæðisvitund hans á mun hærra og þroskaðra stigi en mín. Vesssslings ég!
Fyrirgefðu Carlos, en hvar “uppnefni” ég “kollega”, hvar ætla ég þeim “sérvisku vegna hjúskapar” og hvar ætla ég þeim að þeir “hugsi um ekkert nema steypu og hagsmunagæslu” eftir að þeir eru orðnir embættismenn? Svar óskast.
Torfi, mér fannst þessi ásökun þín í garð Carlosar ekki viðeigandi, þannig að ég ákvað að strika það út, eftir að hafa fengið athugasemdir við ummæli þín. En það hefur ekkert að gera með siðgæðisvitund mína, enda hef ég látið ýmislegt frá mér fara sem á útstrikunina skilið.
Torfi @ 19.4. 16:31:
Mér ofsást steypan. Hitt stendur.
Halldór. Ef þér líkar ekki umræðan þá er mun meira viðeigandi að loka fyrir frekari færslum á hana í stað þess að setja ofan í við menn með því að strika ummæli þeirra út.
Auk þess ásakaði ég Carlos ekki um eitt eða neitt. Ég spurði hann einfaldlega hvort hann væri að reyna að koma mér í klandur.
Hins vegar ásakar Carlos mig ítrekað um að uppnefna kollegana, ætla þeim sérvisku vegna hjúskapar og hugsa “um ekkert annað” en hagsmunagæslu – og þú sérð enga ástæðu til að strika þau ummæli út.
Finnst þér slík ummæli viðeigandi – og finnst þér viðeigandi að taka þannig óbeint afstöðu annars aðilans gegn hinum.
Carlosi nenni ég ekki að svara. Ummæli hans dæma sig sjálf.
Ég hef ákveðið að afyfirstrika ummmæli þín og leyfa þeim að standa Torfi.
Takk fyrir það Halldór.