Mikilvægur flötur

Matthías Ásgeirsson skrifar í dag hreint ágæta grein í Fréttablaðið. En hann veltir fyrir sér fjöldarökunum fyrir starfi kirkjunnar í grunn- og leikskólum.

Ég held að kirkjan, verði að taka þessa umræðu upp án upphrópana og hroka. Getum við í nafni Jesú Krists, notað fjöldarökin til að gera kröfu um aðgengi á kostnað þeirra fáu sem finnst þjónustan óþægileg eða árás á stöðu sína.
Er það ekki í eðli kirkjunnar sem líkama Krists, að leitast við að sína ÖLLUM virðingu. Einhver myndi segja hvar liggja mörkin, ég hef séð upphrópanir um hvort kirkjan eigi þá að þegja. En nei, alls ekki, við eigum að vera kirkja, boðandi, þjónandi, biðjandi en umfram allt samfélag trúaðra.

Kirkja sem skilgreinir sig sem þjónustustofnun á sviði trúmála, boðunar, þjónustu og helgihalds en gleymir samfélagsþættinum, verður aldrei annað en þjónustustofnunin sem hún skilgreinir sig sem. Kirkja sem telur að boðunin, þjónustan og bænirnar séu á verksviði sérmenntaðra vígðra þjóna sem á að dreifa sem víðast um samfélagið skilur ekki hugmyndina um lifandi steina, skilur ekki köllun Krists.

Stundum er eins og við sem teljum okkur kirkjuna, gleymum því hvað kirkjan er, í þörf okkar fyrir góð dagskrártilboð (ég er framarlega í þeim hópi, ó, já). Ég og fleiri erum í raun mjög fær project-leaders. Sama hvort um er að ræða 10 ára afmælispartí líftæknifyrirtækis, hverfahátíðir, kristileg æskulýðsmót eða söfnun fyrir einhverju.

Þannig verða nýjungar í helgihaldi, hversdagsmessur eða æskulýðsfundir, tilboð en ekki vettvangur samfélags. Í tilraun til að koma boðskapnum til skila, sinnum við ekki samfélaginu heldur hönnum leikskólaheimsóknaplan, fræðslu fyrir framhaldsskólanema, hönnum hið fullkomna heimsóknarþjónustutilboð eða stofnun til þjónustu í grunnskólum. Sem eru allt frábær þjónustutilboð, en hafa lítið sem ekkert að gera með samfélag trúaðra, hina sönnu kirkju sem lifir, starfar, syrgir og gleðst saman. Fermingin okkar er tilboð um þjónustu, ekki boð til samfélags, skírnir, giftingar og jarðarfarir eru þjónustutilboð sérfræðinga, hvar er samfélagið þar – er söfnuðurinn (samfélag trúaðra sem sækir kirkju) viðstaddur hjónavígslur í kirkunni þinni?

Ég ítreka þjónustan er góð, sérfræðingarnir flestir færir. En erum við kirkja eða þjónustustofnun á sviði trúarlegra málefna?