Þegar ég var að borða morgunmatinn minn í morgun fór ég að hugsa um fjárhagslegar afleiðingar þess að sóknargjaldafyrirkomulagið yrði lagt niður fyrir söfnuðina aðallega á höfuðborgarsvæðinu. Hvers vegna veit ég ekki en stundum hugsar maður skrítnar hugsanir. Eins og staðan er nú þá er gjaldið tæpar 9.050 krónur á hvert sóknarbarn 16 ára og eldra, eða rétt rúmar 750 krónur á mánuði. Þetta merkir að söfnuður með 4000 sóknarbörn er að fá um 36 milljónir króna á ári. Af því rennur í dag 5% í rekstur prófastsdæmisins sem heildar. Ljóst er að þessi 5% yrðu slegin af fyrst, alla vega að hluta. Sameiginleg verkefni eins og fermingarnámskeið í Vatnaskógi, flökkusöngvari og ÆSKR myndu hverfa af verkefnaskrá prófasts í Reykjavíkurprófastsdæmunum, hið sama má segja um menntaferðir og menningardaga. Eitthvað af þessu myndi aðeins hverfa tímabundið, annað yrði samstundis fjármagnað innan hvers safnaðar s.s. fermingarnámskeiðin.
Gera má ráð fyrir að flestir söfnuðir færu í gagngeran niðurskurð kostnaðar. Fyrir það fyrsta myndu væntanlega þeir kirkjukórar sem eru á launaskrá, taka þungt högg og jafnvel að mestu hverfa. Tvær leiðir eru sjáanlegar hvað varðar annað starfsfólk, annars vegar uppsagnir fastráðinna starfsmanna og endurupptaka verkefnaráðnu verktakanna, sem væri um margt auðfarin leið og sjálfsagt sú sem flestir myndu fara, alla vega fyrst í stað. Hin leiðin væri þveröfug, þ.e. ráðning eins starfsmanns til að annast umsýslu sjálfboðaliða og heildarskipulag safnaðarstarfs en leggja af verkefnaráðningar nema í sérstökum undantekningartilfellum. Vandinn við síðari leiðina er að hún kallar eftir sterkri framtíðarsýn sem oft er erfitt að öðlast á daglegum basis og síðan er auðvitað ljóst að kirkjuna skortir stórlega fólk sem er hæft á þessu sviði, enda hefur ekkert kallað okkur til að hugsa á þessum nótum. Önnur afleiðing breytinga í starfsmannahaldi er að sjálfsögðu að kirkjan myndi fyrst í stað binda starf sitt við húsnæði safnaðarins, en draga úr starfi á opinberum vettvangi, s.s. á elliheimilum, skólum og leikskólum. Ein áhugaverð skammtímaafleiðing þess gæti orðið sú að verulega myndi draga úr þverfaglegu starfi í viðkomandi sóknum, milli kirkjunnar, heilsugæslu, ÍTR og Félagssviðs svo dæmi sé tekið. En slíkt starf hefur á stundum verið leitt af kirkjunnar fólki. Þetta er þó ekki algilt og ekki víst.
Þessu til viðbótar má nefna breytingar á viðhorfi til leigu og notkunar á húsnæði kirknanna, þar sem meiri áhersla yrði lögð á að allt utanaðkomandi starf stæði undir öllum kostnaði. Þetta hefði hugsanlega áhrif á AA- og Al-Anon starf svo dæmi sé tekið, enda ljóst að kostnaður safnaða vegna láns á húsnæðinu undir slíka starfsemi er meiri en tekjurnar. Með þessum aðgerðum má reikna með að kostnaður 4000 manna safnaðar gæti dregist verulega saman og er mat mitt að kostnaður við rekstur slíks safnaðar gæti verið, eftir niðurskurð, um 20-24 milljónir á ári ef litið er framhjá fjármagnskostnaði og launum prests.
Hægt er að sjá fyrir sér tvö tekjumódel til að mæta þessum breyttu aðstæðum, annars vegar innheimta kirkjuskatts, þar sem hver safnaðarmeðlimur greiddi sín sóknargjöld líkt og áður, en í gegnum kirkjuna. Í stað þessara greiðslna væri þjónusta kirkjunnar án endurgjalds; skírnir, giftingar, jarðarfarir o.s.frv. Einhver útfærsla á þessu módeli er við lýði í Danmörku (reyndar innheimt með sköttum). Reikna má með a.m.k. 30% fækkun meðlima við slíka leið, það myndi þýða að í stað 4000 greiðenda, yrðu greiðendur nær 2.700. Ef við gerum ráð fyrir óbreyttum sóknargjöldum 9.050 krónum má reikna með að söfnuður sem í dag telur 4000 greiðendur gæti staðið undir slíkri breytingu að því tilskyldu að fjármagns- og nýbyggingakostnaður sé ekki til staðar. Hins vegar má leyfa sér að fullyrða að ofangreindar breytingar myndu opna fyrir möguleikann á hækkun sóknargjalda. Þannig myndi 25% hækkun færa slíkum söfnuði 6 milljónir á ári til að standa undir fjármagns- og kostnaði við nýbyggingu.
Hitt módelið er nær því bandaríska. Þar eð söfnuðurinn stæði undir sínum kostnaði með frjálsum framlögum. Hér væri hugsanlega hægt að viðhalda einhvers konar grunnskráningargjaldi. Þannig kostaði 6.000 krónur á einstakling, 12.000 krónur á fjölskyldu, að vera skráð í söfnuðinn á ári en slík skráning þýddi að öll þjónusta innan safnaðar væri endurgjaldslaus. Þess utan væri leitað til þeirra sem eru virkastir í söfnuðinn um að greiða fast gjald á mánuði til safnaðarstarfsins, t.d. 1.000 krónur á viku (svipuð upphæð og Hreyfing fékk hjá mér um 3 ára skeið og ég mætti þar sjaldnar en í kirkju). Ætla má að skráningargjaldið myndi skila 10,5 milljónum á ári og ef 300 manns tækju þátt í gjafakerfi myndi það skila um 15 milljónum.
Að ofantöldu er því ljóst að daglegur rekstur 4.000 manna sóknar á höfuðborgarsvæðinu er langt í frá háður núverandi sóknargjaldakerfi, ef horft er framhjá fjármagns- og nýbyggingarkostnaði. Eins er ekki tekinn inn í myndina kostnaður við laun prests/presta og gert ráð fyrir að þjónusta við sóknarbörn verði án endurgjalds í framtíðinni.
Ef horft er yfir landið í heild, gætu þessar vangaveltur átt við um Akranes, Borgarnes, einn söfnuð á Snæfellsnesi, Ísafjörð, Blönduós/Höfðakaupstað/nærsveitir, Skagafjörð (einn söfnuður), Glerárkirkju, Akureyrarkirkju, Húsavík og nágrenni, Egilstaði, Fjarðarbyggð, Rangárvallasýslu, Árnessýslu (tveir+ söfnuðir), Kjalarnesprófastsdæmi og Reykjavíkurprófastsdæmin bæði. Ekki er víst að forsendur væru fyrir slíkum söfnuðum á sunnanverðum Vestfjarðakjálkanum, í Dalasýslu, í Vestur-Húnavatnsýslu, á norðausturhluta landsins eða frá Fjarðarbyggð og að Rangárvallasýslu. Rétt er þó að hafa í huga annað safnaðarmódel er mögulegt á þessum slóðum, enda margir söfnuðir að gera góða hluti þó fjárhagsáætlunin hljóði upp á 2 milljónir en ekki 20. Eins má ekki gleyma því að nokkur prestaköll á þessum slóðum hafa verulegar tekjur og virkni sóknarbarna á landsbyggðinni er meiri en í þéttbýli. Þannig gætu í einhverjum tilfellum ráðstöfunartekjur kirkna í smærri bæjarfélögum aukist fremur en minnkað við aflagningu sóknargjaldakerfisins.
Að ofangreindu má ætla að sóknargjaldakerfið er ekki forsenda kirkjulegs starfs á Íslandi, það viðheldur ríkjandi ástandi í kirkjumálum á Íslandi, dregur úr þróttinum til framsækins kirkjustarfs og ábyrgðar sóknarbarna og hvetur ekki til ráðdeildar með fjármunum einstakra safnaða. Á sama tíma þá hjálpar það til við að viðhalda kirkjustarfi um allt land.