Ég hef nokkrum sinnum skrifað færslur hér á vefnum, sem ég hef séð eftir en líklega er óhætt að segja að fáar hafi verið jafn erfiðar og sú sem innihélt þessar línur.
Þessu heldur hann á lofti á sama tíma og embættið hans er í kæruferli fyrir brot á jafnréttislögum, þar sem karl var tekin fram yfir konu, þrátt fyrir meiri menntun og reynslu konunnar.
Í dag féll dómurinn í Hæstarétti. Ég vildi óska þess að ég hefði haft rangt fyrir mér og þessi færsla væri formleg afsökunarbeiðni, en því miður reyndust orðin í upphaflegu færslunni rétt.
Hver er hann þessi maður sem þú vitnar til færslunni hér að ofan Halldór? Annars er þessi úrskurður Hæstaréttar í máli sr. Sigríðar Guðmarsdóttur gegn biskupi mjög athyglisverður og gæti hafa hafsjó af málaferlum gegn þjóðkirkjunni í för með sér. Sigríður er nefnilega langt frá því að vera sú eina sem hefur orðið fyrir því að annar umsækjandi með minni menntun og reynslu sé tekin fram fyrir. Segja má að það sé reglan frekar en undantekningin. Svo að öðru lögbroti sem ég hefði gjarnan viljað koma inn hjá Óla Eyjamanni en hann leyfir engar athugasemdir við sínar færslur. Það er brandari um Árna Johnsen: “Ég hef lengi verið að velta því fyrir mér af hverju göngin hans Árna til Eyja væru svona ódýr. Nú veit ég það. Þau liggja frá Hrauninu og það er þegar byrjað að grafa þau.”
Eruð þið búnir að lesa dóminn? Á heimasíðu kirkjunnar er frétt um málið og þar stendur að allar aðgerðir þessa manns í málinu hafi verið “lögmætar og málefnalegar og í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.” Er það rétt?
Torfi hér er færslan – Elli ég skil ekki hvað þú ert að fara, hvorki í upphafsfærslunni né hér. En ekki reyna að útskýra það fyrir mér.
Það er rétt sem fram kemur á vefsíðu kirkjunnar, svo langt sem það nær. Hæstiréttur hafnar þeirri niðurstöðu héraðsdóms að um stjórnsýslubrot hafi verið að ræða, og jafnframt því að eitthvað hafi verið athugavert við embættisfærslu Karls. Hins vegar kemst hæstiréttur að því að bindandi niðurstaða hæfnisnefndarinnar hafi verið röng. Þ.e. röng manneskja verið ráðinn miðað við þær kríteríur sem gefnar eru í lögum. Biskup skrifaði skipunarbréf fyrir nefndina og af þeim sökum er embætti hans/þjóðkirkjan ábyrg þó hann persónulega hafi ekki gert neitt rangt. Varðandi athugasemd þína Pétur, þá hyggst ég ekki útskýra þetta frekar að öðru leiti en því að þessi færsla hefur gildi fyrir mig persónulega.
Takk fyrir svarið Elli. Ég nota einmitt annálinn minn oft svona sem eintal og skil það vel. Gangi þér áfram vel vestan hafs.
Já, þessi niðurstaða Hæstaréttar er vissulega athyglisverð, ekki síst um ábyrgð biskups/þjóðkirkjunnar á bindandi niðurstöðu valnefndarinnar. Sama hlýtur því að eiga við um allar aðrar ráðningar í embætti innan kirkjunnar. Biskupsembættið er þannig ábyrgt gagnvart geðþóttafullu vali á prestum þótt biskup hafi ekkert gert annað en að skrifa undir bindandi niðurstöðu samstíga valnefndar. Ég er hræddur um að ég og fleiri þurfum að fara að kanna réttarstöðu okkar varðandi þessi fáránlegu ráðningarmál þjóðkirkjunnar og þann skrípaleik sem einkum er leikinn af öðrum vígslubiskupanna.
Gerði biskupinn ekkert rangt?
Og líka:
Og loks er þetta sagt um það sem biskupinn gerði:
Nú er ég hvorki lögfræðingur né mjög vel að mér í innri starfsemi kirkjunnar, en mér sýnist þetta ekki hafa verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.
Þarna ert þú Hjalti að vísa í héraðsdóminn sem er birtur í lok hæstaréttardómsins (með minna letri), en Hæstiréttur hafnar þessum skilningi í sínum dómi og einblínir einvörðungu á jafnréttisþáttinn.
Hlaut að vera, mér fannst þetta afskaplega dularfullt. Þetta gerist þegar maður ýtir á “End” og leitar upp á við að niðurstöðunni. 😉