Sigur í LutherBowl

Nú um helgina fór fram hið árlega flag-football mót guðfræðiskóla á austurströnd Bandaríkjanna, Luther Bowl, en mótið er haldið árlega í Gettysburg, Pennsylvania. Að þessu sinni mættu átta skólar til leiks, fjórir lútherskir, tveir með tengsl við ensku biskupakirkjuna, einn kalvínskur auk Wesley Theological Seminary (WTS). Er óhætt að segja að mótið hafi þannig endurspeglað framtíð “mainline” kirkjudeilda í BNA, eða alla vega leiðtoga þeirra. Hvert lið spilaði þrjá leiki eftir ákveðnu kerfi, sem leiddi til þess að eina liðið sem sigraði alla sína leiki stóð uppi sem sigurvegari.

Eftir rúmlega 8 tíma ferðalag, einn bilaðan van og gistingu á teppalögðu gólfi St. James Lutheran Church í Gettysburg, hóf Trinity Lutheran Seminary, titilvörn sína með því að gjörsigra WTS, en hluti þess liðs skilaði sér ekki á keppnisstað. Því næst var att kappi við The Lutheran Theological Southern Seminary sem varðist af hörku. Eftir að það hafði verið jafnt allan leikinn, skoraði Trinity Lutheran Seminary á síðustu mínútunum glæsilegt snertimark, sem lengi verður í minnum haft. En sigur í leiknum kom Trinity Lutheran Seminary í úrslitaleikinn gegn Trinity Episcopal School for Ministry. Þrátt fyrir talsverða hörku, olnbogaskot og skurði í handlit, tókst Trinity Lutheran að verja titilinn með 26-16 sigri yfir Pittsburgh skólanum.

Það var því glaður og sáttur hópur sem hélt heim á leið til Columbus, Ohio. Enda ekki á hverjum degi, sem maður vinnur stórmót í íþróttum. Héðan í frá fer ég fram á að til mín sé vísað sem Austurstrandarmeistari guðfræðiskóla í flag-football.

Myndir frá mótinu eru hér.