Ég er yfir mig hrifinn af stimplunum. Ég lít svo á að með því að búa til flokka og skipta fólki niður sé ég að gera mér lífið auðveldara. Eina vandamálið er að stimplanir eru fremur flóknar í framkvæmd. Sér í lagi þar sem einstaklingar eru iðulega ósáttir við stimplanna sem þeim eru gefnir og síðan hitt að hugtökin sem notuð eru við stimplunina eru oft á tíðum gildishlaðin. Þannig er stimplunarárátta mín algjörlega ónothæf í öllum samskiptum, því fæstir samþykkja flokkun mína og auk þess veldur hún því að ég nálgast fólk út frá stimplunum sem ég gef þeim og rekst þannig stundum á veggi.
En hvað um það, þessi færsla er í raun endurskrifuð færsla frá gærdeginum, sem ég glataði, en þar velti ég fyrir mér stimplunum frjálslyndur og íhaldssamur sem einhverjir vilja nota um kirkjunnar menn á Íslandi. Þannig rakst ég á vangaveltu um að við annálamenn værum flestir frjálslyndir og kallað eftir viðbrögðum frá mér og Skúla við einhverju sem ég man ekki hvað var. Við það rifjaðist upp fyrir mér atburður í Guðfræðideildinni fyrir rétt um 10 árum. Þannig var að einhver hópur í FB fékk mig og Gunnar Þorsteinsson í Krossinum til að tala á málfundi upp í Breiðholti og var mér ætlað að tala máli þjóðkirkjunnar. Þetta barst áðurnefndum Skúla til eyrna og hann kom að máli við mig og spurði hví í ósköpunum ég af öllum væri fenginn á slíkan fund. Skúli vildi nefnilega meina að ég væri örugglega mikið nær Gunnari í skoðunum en stærsti hluti guðfræðinema og þar með kirkjan í heild. Ég væri í raun jámaður Gunnars og í orðunum lá að ég væri ekki góður fulltrúi kirkjunnar enda íhaldsamur píetisti (eins og sjá má situr stimplunin enn í mér).
Svo við höldum áfram með stimplanir. Þá held ég að stimplunin frjálslyndur/íhaldssamur sé um margt áhugaverð og gagnleg. Þó ekki í þeim skilningi að frjálslyndir vilja leyfa og túlka, íhaldsmenn banna og lesa. Nei, stimplunin með ofangreindum hugtökum er að mínu viti mun fremur tengd hugtökunum “static” og “dynamic”.
Svo ég alhæfi svolítið, sem er hluti af stimplunaráráttu minni, þá er “static” t.d. sú trúarhugmynd að allt sé einhvern veginn, trúin kallar á aðlögun að ríkjandi ástandi og leit að einum réttum skilningi á heiminum í “trúar”ritum, hefðum, reynslu eða opinberun. Hægt er að höndla þennan skilning og þá verður allt gott.
“Dynamic” trúarhugmynd skilur trú sem þroskaferli sem tekur aldrei enda, hún kallar okkur til stöðugs samfélags við hvort annað og veit sem er að endanlegur sannleikur verður ekki höndlaður til fulls. “Dynamic” trúarskilningur horfir á trúna sem umbreytandi afl, sem kallar síðan á stöðuga endurskoðun á trúarveruleikanum.
Þessi skilningur á íhaldssemi og frjálslyndi er að sjálfsögðu tengdur mismunandi skilgreinum á trú, innihaldsgreiningu annars vegar og hlutverkaskilgreiningu hins vegar, en þó er vel hægt að sjá fyrir sér að hægt sé að nota innihaldsgreiningu að einhverju gagni á “dynamic” trúarskoðanir og eins hægt að horfa í hlutverk “static”-trúarhugmynda.
En þetta var pæling dagsins, hjá veikum manni á hitastillandi töflum á Halloween.
Áhugaverð og góð grein hjá þér Halldór, láttu þér batna.
Einhverntíman vorum ég og Birgir að spökulera í þessum málum. Þá gerði Birgir voða fín gröf 🙂
Ekki bara að Matti og Birgir voru að spá í þessu, heldur vitnuðu í mig (djákninn). En gröfin eru áhugaverð, þó hugtakið opin og lokuð heimsmynd sé að mínu viti ekki skýrt, enda bara pælingar hjá Birgi.
En þessi hugtök eru ákaflega einföld. Þau eru skilgreind í rigerðinni Fagurhyggja.
En ég tel að notkun á hugtökunum opin og lokuð séu villandi. Þar sem opið merkir að mér sýnist að heimurinn sé endanlegur en lokað merki að það sé eitthvað utan heims. Hins vegar er þetta auðvitað alltaf vandamál stimplunar. Hugtökin vefjast fyrir okkur.
Hugtökin snúast ekki um það heldur einfaldlega hvort heimsmyndin í hausnum á okkur geti tekið breytingum í takt við nýjar upplýsingar. Sá sem annað hvort hafnar nýjum rannsóknarniðurstöðum á forsendum heimsmyndar sinnar, nú eða reynir að fella þær að henni (sbr. sköpunarsinnar) eru einfaldlega með harðlæsta mynd af veröldinni í kolllinum á sér, mynd sem er algerlega í takt við þær trúarsetningar sem hann hefur numið. Lokuð heimsmynd getur á sínum verstu stundum haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, eins og við sjáum gerast í Bandaríkjunum, þar sem þróunarkenningin á undir högg að sækja. Hún fer enda í bág við harðlokaða heimsmynd þá sem strangtrúaðir hafa numið af prestum sínum. Sem betur fer hafa íslenskir prestar og guðfræðingar í seinni tíð reynt að fella kristindóminn að nýrri og breytilegri heimsmynd. Mér sýnist þó reyndar að eitthvert bakslag sé að eiga sér stað í þeim málum, nú þegar einstaka Þjóðkirkjuprestur er farinn að tala um að þróunarkenningin sé bara kenning.
Ég átta mig á skilningi þínum, en tel hugtökin opið/lokað ekki lýsa þessu vel. Þú bindur hugtökin við nýja vitneskju sem byggir á rannsóknarniðurstöðum, en virðist hafna annars konar vitneskju sem ógildri í módelinu, það er að mínu mati frekar lokaður skilningur. En ég veit að við erum ósammála þar. Enda er það vandi stimplunnar. Þá vil ég líka benda á að það að einhver telji þróunarkenninguna ranga, bendir ekki endilega til að hann hafi lokaða heimsmynd í þínum skilningi heldur getur líka bent til hins gagnstæða. Hans sé tilbúin fyrir nýja og ferska vitneskju. Án þess að það eigi endilega við í þessu tilfelli.
Geturðu tekið dæmi um slíka vitneskju? Er þarna um að ræða raunverulega þekkingu sem prófa má og sannreyna, eða áttu kannski við einhverja „innri vitneskju“ einstaklingsins þvert, eitthvað sem einstaklingurinn hefur sannfært sjálfan sig um að sé satt en getur engin rök fært fyrir? Er hægt að flokka slíkt undir þekkingu?
Já, Birgir ég tel að svo sé. Innri vitneskja sem er ósannanleg með rannsóknum getur verið þekking. Ég veit að þú ert ósammála mér þar, enda höfum við rætt þetta áður.
“Innri vitneskja sem er ósannanleg með rannsóknum getur verið þekking” Til er “innri vitneskja” sem er ósannanleg en getur samt talist þekking, t.d. vitneskja um ákveðnar tilfinningar. Þannig hefur því aldrei verið neitað að fólk trúi eða “elski konuna sína” svo fræg kjánaleg klisja sé notuð. En innri vitneskja sem stangast á við rannsóknir eða það sem sannað hefur verið getur aldrei talist þekking, heldur þvert á mót, það er andstæða þekkingar.
En ytri vitneskja svo sem lögmál Newtons. Eru þau andstæða þekkingar, þar sem þau stangast að einhverju leiti á við nýjustu rannsóknir á sviði Eðlisfræði? Eða hugmyndir á sviði hagfræði um ósýnilega hönd markaðarins. Eru þær andstæða þekkingar, þar sem að rannsóknir í leikjafræði stangist á við eldri hugmyndir Adam Smith? Eða hugmyndir Evklíðs um að samsíða línur skerist ekki. Það á ekki við í sveigðum veruleika eins og við lifum í. Eigum við þá að kasta evklíðsku rúmfræðinni út í hafsauga? Svona má halda endalaust áfram í hvers kyns fræðigreinum og grisja ef við notum þennan þrönga skilning á þekkingu. Þekking getur nefnilega haft gildi þrátt fyrir að stangast á við rannsóknir.
Halldór, þetta eru útúrsnúningar hjá þér.
Matti, þið gerið kröfu um endanlegan sannleik og að þekking sem stenst ekki ákveðnar kröfur sé andstæða þekkingar. Orð mín eru ekki tilraun til útúrsnúnings, heldur tilraun til að benda á galla sem felast í alhæfingunni að vitneskja sem stangast á við rannsóknir sé andstæða þekkingar.
Fyrir forvitnis sakir: Getur einhver vísað mér á upplýsingar um rannsóknirnar sem hafa verið notaðar til að styðja þá alhæfingu að vitneskja sem stangast á við rannsóknir sé andstæða þekkingar?
Þið eruð stórkostlegir 🙂 Ef ég “veit inni í mér” að þyngdarlögmálið virkar ekki fyrir mig, er það þá “þekking”? Hvað ef ég prófa svo vitneskju mína með því að henda mér ofan af hárri byggingu – hvað kallast það sem þá gerist? Uppljómun?
Ef þú telur þig vita þetta, inni í þér, þá eru nú einfaldari aðferðir til að prófa vitneskjuna en að henda þér ofan af hárri byggingu – til dæmis að stökkva niður af stól eða borði. Slík tilraun getur þá talist leið til að prófa tilgátu þína. Hún leiðir væntanlega annað hvort til þess að hún telst sönnuð eða afsönnuð. Þú ert líka stórkostlegur.
Nei, Matti það er til innri þekking sem er röng, það er rétt hjá þér. En þú alhæfðir hér um að vitneskja sem stangast á við rannsóknir sé andstæða þekkingar. Ég bendi á fjöldmörg dæmi um hið gagnstæða. Gott dæmi er þyngdarlögmálið og útskýringar Newtons, fjölmargar rannsóknir hafa komist að þeirri niðurstöðu að hugmyndir hans eru allsendis ófullnægjandi. Þú sannar mál mitt með að vísa í lögmál Newtons sem rökstuðningi þínum. Þrátt fyrir að skv. fyrri orðum þínum megi ætla að lögmál hans séu andstæða þekkingar.
Það sem ég er með öðrum orðum að reyna að benda á er að það er fullt af þekkingu sem stangast á við rannsóknir eða það sem sannað hefur verið sem er praktísk og hjálpar okkur í daglegu lífi og við notum til að styðja við aðra þekkingu og jafnvel vísindarannsóknir. Af þeim sökum HAFNA ÉG þeim skilningi að slík vitneskja sé nauðsynlega andstæða þekkingar.
Ófullnægjandi í vissum tilvikum. Lögmál Newton um þyngdarlögmál gildir enn í flestum tilvikum, afstæðulögmálið felldi það ekki úr gildi heldur útvíkkaði það. Enn notast menn við formúlur Newton þegar þeir skjóta fallbyssukúlum eða senda eldflaugar út í geim. Varðandi þyngdarlögmálið og dæmi mitt, þá væri það í þessari umræðu náttúrulega þannig að ég myndi ekkert mark taka á rannsókn sem felst í því að hoppa af stól, þetta væri jú innri “þekking” sem stangast á við rannsóknir. Ég hafna höfnun þinni. Það sem þú talar um er ekki þekking heldur í besta lagi hugmynd eða tilfinning.
Lögmál Newtons er NOTHÆFT í flestum tilvikum væri að mínu réttara orðalag. Annars skil ég ekki hvað þú ert að fara, þegar þú greinir á milli þekkingar, hugmyndar og tilfinningar. Nema þú flokkir lögmál Newtons og Evklíðs sem hugmyndir. Ef þú gerir það, þá spyr ég einfaldlega er til einhver ÞEKKING og getur þú nefnt dæmi um slíkt?
Ég skil ekki hvað þú ert að fara þegar þú segir “Innri vitneskja sem er ósannanleg með rannsóknum getur verið þekking”.
Samt útskýrðir þú það ágætlega með trú og ást hér að ofan. — Það vantar líklega hins vegar eitt skref í röksemdafærsluna mína hér að ofan. Það skref hljóðar eitthvað á þessa leið. Ef “innri vitneskja” er andstæða þekkingar ef hún stangast á við rannsóknir og sannanir þá hlýtur það að eiga við um vitneskju almennt. Með öðrum orðum hlýtur það að þýða að vitneskja sem stangast á við rannsóknir og sannanir sé andstæða þekkingar. Að öðrum kosti erum við með tvær eðlisólíkar hugmyndir um þekkingu sem lúta ólíkum lögmálum. Slíkt er vart í samhengi við fullyrðingar sumra Vantrúarmanna um að sannleikurinn sé aðeins einn.