Hlutverk djáknans

Ég lenti í áhugaverðum samræðum eftir Kirkjusögutíma í morgun. Umræðuefni tímans var bók rómversk-katólsks kardinála um mismundi “kirkjumódel”. Ég tjáði mig mjög ákveðið í tímanum um þjónsmódelið í bókinni og mótmælti fullyrðingu bókarinnar um að þetta ákveðna módel skorti Biblíulega undirstöðu og benti á nokkra grundvallandi texta módelinu til stuðnings. En hvað um það. Að lokinni kennslustund tók ég, kennarinn og ágætur samnemandi minn á tal saman og ég sagði þeim að ég væri vígður djákni í lúthersku kirkjunni og hefði því skoðað grunn þessa módels nokkuð.

Við ræddum í því samhengi nokkuð um vígslu djákna sem “permanent” en ekki einvörðungu skref á leið til prestsþjónustu. Í þeirri umræðu var áhugavert hvernig samnemandi minn hnikti á því að þar sem prédikunarembættið og sakramentin væru utan djáknaþjónustunnar, þá væri staða djákna sérlega hættuleg með tilliti til almenns prestsdóms. Hættan væri sú að djáknar leituðust við að taka yfir hlutverk leikmanna í kirkjunni, í stað þess að líta á hlutverk sitt sem stuðning á sviði diakoniu og sem sýnilegt tákn þeirrar þjónustu sem kirkjan vill að leikmenn sinni. Hættan fælist í því að hinn almenni prestsdómur væri smættaður, kirkjan tapaði stöðu sinni sem þjónandi kirkja og hlutverk hennar yrði félagsleg þjónustustofnun sérfræðinga en ekki samfélag trúaðra.
Gott dæmi um þessa hættu, er ef kirkjan í krafti meintrar sérfræðiþekkingar tekur yfir hlutverk foreldra í trúarlegu uppeldi og skilur foreldranna eftir sem máttlausa áhorfendur, en ekki þátttakendur í starfinu sem kirkjan sinnir.
Hins vegar má sjá hvert hlutverk djáknans er samkvæmt þessum hugmyndum í hreint “ágætu” fræðsluefni um heimsóknarþjónustu kirkjunnar sem má nálgast hér.
Samkvæmt þessu mati samnemanda míns sem myndaðist í samtali og er hugsanlega eitthvað fært í stílinn meðan ég skrifa. Þá ætti markmið mitt sem djákni að vera það að kalla til þjónustu leikmenn, leiðbeina þeim til góðra verka, í stað þess að taka yfir hlutverk þeirra í krafti meintrar sérþekkingar

16 thoughts on “Hlutverk djáknans”

  1. Gott dæmi um þessa hættu, er ef kirkjan í krafti meintrar sérfræðiþekkingar tekur yfir hlutverk foreldra í trúarlegu uppeldi og skilur foreldranna eftir sem máttlausa áhorfendur, en ekki þátttakendur í starfinu sem kirkjan sinnir.

    Það eru merki þess að þetta sé að gerast og af einlægum ásettningi kirkjunar. Ég get ekki betur séð en að eitt af markmiðum “vinarleiðar” sé að börnin geti leitað til djákna án vitundar foreldra. Þetta þykir meira að segja jákvæð þróun að mati kirkjunar. Þetta þykir mér mjög neikvæð þróun svo ég tali nú ekki um ólögmæti þess arna. Það er athyglisvert að lesa þetta hjá þér Halldór.

  2. Gott dæmi um þessa hættu, er ef kirkjan í krafti meintrar sérfræðiþekkingar tekur yfir hlutverk foreldra í trúarlegu uppeldi og skilur foreldranna eftir sem máttlausa áhorfendur, en ekki þátttakendur í starfinu sem kirkjan sinnir.

    Gott (eða á maður að segja skelfilegt) dæmi um nákvæmlega þetta eru skóladjáknar. Kristniboð, sem nefnt er kærleiksþjónusta innan kirkjunnar, er þarflaust í almenningsskólum, siðlaust og ólöglegt. Það er mér með öllu óskiljanlegt hvernig sjálfskipaðir þjónar almennings geta gengið svo freklega á rétt annarra með öðrum eins ósóma.

  3. AÐ GEFNU TILEFNI: Rétt er að taka fram að umræðurnar sem lýst er hér að ofan snerust um ákveðið kirkjumódel og áhrif þess. Það er hins vegar ljóst að það eru ekki allir sammála um hvaða kirkjumódel sé það rétta/besta. Eins er rétt að taka fram að umræðan fór fram í Bexleybæ í BNA og tveir af þremur þátttakendum höfðu aldrei heyrt minnst á Vinaleiðina og hafa ekki enn. Þessi grein tekur ekki afstöðu til Vinaleiðarinnar að öðru leiti en því sem hver og einn kýs að lesa inn í samræður einstaklinga sem hafa aldrei heyrt á Vinaleiðina minnst.

  4. Halldór, ég geri mér grein fyrir því að þeir hafi ekki heyrt um vinaleiðina. Málið er bara að þarna telur þessi aðili að það sé óæskilegt að kirkjan taki fram fyrir hendur foreldra við trúarlegt uppeldi barna. Ég var bara að benda á að það er að gerast hér á landi og að ég sé sammála þessum einstaklingi sem þarna talaði. Ég var ekkert að lesa inn í samræðurnar, það er afbökun á því sem ég sagði að halda því fram. Ég gerði engum upp skoðanir.

  5. Arnold, ég biðst afsökunar á því að hafa oflesið í orðin í lok athugasemdar þinnar. Um að það sé athyglisvert að lesa þetta á annálnum mínum.

  6. Halldór, Síðasta setning mín var í raun jákvæðni í þinn garð. Sú staðreynd að þú ert Djákni og í frekara námi á trúarlega sviðinu en um leið tilbúinn að ræða opinskátt um þessi mál og ekki bara frá sjónarhorni trúarinnar er bara aðdáunarvert. Það er það sem mér þótti athyglisvert við skrif þín. Misskilingur þinn er mér að kenna.

  7. Ég held reyndar að umræðan um kirkjumódel, guðfræðileg álitamál, s.s. stöðu samkynhneigðra, málfar beggja kynja og t.d. samskipti ríkis og kirkju séu mun meiri innan kirkjunnar og milli þeirra sem telja sig kirkjufólk en skoppar upp á yfirborðið hér á netinu. Margt af þessari umræðu fer hreinlega ekki upp á yfirborðið hér, vegna þess að einstaklingar utan kirkjunnar hafa tilhneigingu til að taka yfir umræðuna, krefjast útskýringa á hinu og þessu. Þessi krafa veldur því að umræðan færist í annan farveg en stofnað var til. Sumir innan kirkjunnar veigra sér við því að kommenta á vefinn minn en nota netpóst til að halda umræðunni gangandi. Af þeim sökum er sjálfskoðun kirkjunnar ekki sýnileg. Svo ég taki dæmi sem hefur verið notað hér. Vinaleiðin, er í stöðugri umræðu í hópi vígðs fólks og það eru ekki allir á einu máli. Þó ég telji að í umræðunni innan kirkjunnar sé til staðar virðing fyrir skoðunum á báða bóga.

  8. Ég skil það mjög vel. Það er eðlilegt að umræðan sé innan stofnunarinnar svo stofnunin geti svo komið fram með sameiginlega niðurstöðu. Hingað til hafa þó allar opinberar yfirlýsingar kirkjunnar manna verið einróma vinaleið í vil. Ég bið þig að afsaka það að ég hef leitt umræðuna frá upphaflegu umræðuefni.

  9. Nei, alls ekki Birgir. Hins vegar heftir sú aðkoma og sífelldar spurningar um hvað við eigum við með hinu og þessu umræðuna sem hugsanlega var reynt að stofna til. Það er ekki ætlun mín að mótmæla aðkomu ykkar, heldur benda á að hún er einn af áhrifavöldum þess, að umræða milli kirkjufólks fer ekki fram á vefsvæðum eins og þessum. Þetta á ekkert bara við um ykkur, KSS-ingar lokuðu spjallsvæðum sínum fyrir utanaðkomandi ekki síður vegna nokkurra heittrúarmanna sem spömmuðu og stoppuðu alla umræðu. Umræða á jafningjagrunni þar sem virðing er borin fyrir ólíkum skoðunum, á ekki vel heima á opnum svæðum.

  10. Varðandi opinberar yfirlýsingar um Vinaleið þá á ég fremur von á að þær verði áfram í sama anda. En varðandi umræðuna og hvert hún hefur verið leidd við þessa færslu, þá er það ekki vandamál. Ég þekki lesendahópinn minn 🙂 bæði þá sem kommenta og nokkra af hinum. Þannig að ég veit yfirleitt hvað ég kalla yfir mig.

  11. Það sem ég skil ekki Halldór, er að ég skil þig þannig að innan kirkjunnar virðist vera til fólk sem er t.d. ekki sammála vinaleið eða leikskólakristniboði. Af hverju heyrist ekkert í þessu fólki opinberlega? Verður það útskúfað ef það lætur skoðun sína uppi – á þetta fólk á hættu að missa stöðu eða tækifæri á stöðu innan kirkjunnar? Eða bera það svo mikla virðingu fyrir andstærði (ríkjandi) skoðun að það vill ekki láta sína uppi? Vill það ekki móðga biskup með því að segjast vera ósammála honum?

  12. Eitthvað af þessu fólki kærir sig hugsanlega ekki um að vera tengt baráttu Siðmenntar, þar sem gagnrýni þess er af allt öðru tagi en sú sem þar er kynnt. Hins vegar er alls óvíst að sá greinarmunur komist til skila í almennri umræðu. Vandinn við að koma athugasemdum á framfæri opinberlega án þess að vera mistúlkaður er vel þekktur. Hvað varðar hinn þáttinn, þá geri ég ráð fyrir að biskupi sé kunnugt um “innanhús” athugasemdir kirkjunnar, þannig að það er í sjálfu sér ekki vandinn. Hins vegar sé ég ekki hverju það myndi skila að hrópa og kalla í stað þess að takast á við vandann innanhús. Ég persónulega tel að fagleg guðfræðileg innanhúsumræða sé betri leið fyrir kirkjuna til að glíma við málið, en fyrirsögn í fréttablaðinu um að “einum starfsmanni kirkjunnar finnst annar asni”. Ég sé t.d. ekki að “galgopalegar” yfirlýsingar einstakra presta í von um stundarvinsældir hafi skilað kirkjunni sem heild neitt áfram í ýmsum álitamálum.

  13. Ég skil að gagnrýni þessa fólk sé af öðru tagi en gagnrýni Siðmenntar. En eru virkilega ekki einstaklingar innan kirkjunnar sem taka undir gagnrýni Siðmenntar og málstað þess félags? Þ.e.a.s. eru mótfallnir þessu á sömu forsemdum og hið afar hófsama félag, Siðmennt? Nú er í gangi umræða um vinaleið í Garðabæ, umræða sem nær út fyrir kirkjuna (sjá t.d. hér). Myndi það ekki hugsanlega hafa einhver áhrif á þetta mál ef í ljós kæmi að ýmsir kirkjunnar menn taka undir með þeim sem andmæla vinaleið, svo dæmi sé tekið. Er fólki þá siðferðilega stætt á því að þegja? Eða þarf þetta mál virkilega að enda í dómssölum og fyrir evrópudómsstól áður en einhverjir kirkjunnar menn geta komið úr skápnum og sagt “tja, ég hef alltaf verið á móti þessu” ?

  14. Í ummælum á Vantrú þá fagna ég athugasemdum Siðmenntar. Ég tel innlegg þeirra mikilvægt. Hins vegar er ég ekki sammála forsendum þeirra. Ég get ekki svarað fyrir aðra kirkjunnar menn. Ég er ekki viss um að sú umræða innan kirkjunnar sem ég hef heyrt breyti neinu um þá umræðu sem á sér stað núna. Ég tel rétt hjá þér að það fólk innan kirkjunnar sem telur Vinaleiðina illfæra, eigi að láta þá skoðun í ljós. Vantrú.is, Kastljósið eða Fréttablaðið eru að mínu ekki réttur farvegur fyrir þá skoðun. Það er rétt hjá þér að ef málið tapast fyrir dómstólum, munu margir koma fram og reyna að þvo hendur sínar af því. Ég hugsa að gagnrýnendurnir innan kirkjunnar berji sér ekki á brjóst ef málið tapast. Þeir muni fyrst og fremst gráta af sorg yfir kirkjunni sem þekkir ekki samtíð sína. Og þeir munu leita leiða til að hjálpa kirkjunni til að takast á við vandamálin sem munu fylgja í kjölfarið.

Comments are closed.