Arnold bendir á í ummælum við Trúarjátningarprófið á Vantrú að e.t.v. sé bilið milli guðfræðinnar og almennings (jafnvel kirkjunnar) of breytt. Þannig hafi hugtök í trúarjátningunni aðra merkingu í dag, en þegar hún var rituð s.s. heilagur. Þannig sé játningin heilög almenn kirkja í engu samræmi við hugmyndir höfunda játningarinnar og þann kirkjuskilning sem lútherska kirkjan aðhyllist. Heilagur sem einhvers konar fullkomlega góður, sem virðist vera skilningur margra á orðinu (sbr. prédikun Hildar Eir um Kárahnjúka) gerir kirkjuna í játningunni að einhverju allt öðru en hún er.
Þetta bil hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir kirkjuna, og reyndar er svo komið að í t.d. Gamla testamentisfræðum sem ég sit í hér í BNA, þá er oft talað um vandann við að reyna að koma sannleikanum til skila án þess að kljúfa söfnuðina í herðar niður.
15 thoughts on “Vandi kirkjunnar”
Comments are closed.
Já, hvernig væri að semja nýja trúarjátningu fyrir Þjóðkirkjuna svo fólk geti komist að því hverju í ósköpunum þið trúiðr?
Það eru reglulega skrifaðar trúarjátningar sem tjá veruleika trúaðra með ýmsu móti, mín játning er t.d. hér. Kosturinn við Postulegu trúarjátninguna er að hún er almennt samþykkt af kristinni kirkju. Hins vegar kallar það alltaf á ögranir þegar hugtök breyta um merkingu, þar sem tungumál eru dýnamísk. Það þarf ekki að kalla á nýja trúarjátningu heldur annað tveggja að endurorða merkinguna, sbr. mannsins í stað holdsins eða rembast við að kalla aftur á “set apart” skilninginn á heilagleikahugtakinu, sem er líklega vonlaust.
Ég var að lesa í riti Lúthers Deutsche Messe frá 1526 í kvöld. Þar kemur hann inn á um þörfina fyrir uppfræðslu í kristinni trú (það sem við höfum stundum kallað skírnarfræðslu) og nefnir meðal annars í því sambandi mikilvægi þess að skýra postullegu trúarjátninguna – svona svipað og er gert í Fræðunum minni. Menn hafa því lengi verið sér meðvitaður um nauðsyn þess að skýra út þessa játningu og heimfæra hana upp á samtíma sinn. Annars bendir þú einmitt á lykilatriði Elli sem er það að þetta er ein af samkirkjulegu játningunum, sem eru sameiginlegar kristnum kirkjum um veröld víða.
Halldór, ég var að tala um að búa til trúarjátningu fyrir Þjóðkirkjuna sjálfa, svo fólk viti hverju Þjóðkirkjan trúir.
Hjalti, þú misskilur tilgang trúarjátninga. Þær fjalla nákvæmlega um það hvað kirkja, n.t.t. Þjóðkirkjan í þessu tilviki trúir (sbr. “Kirkjan játar e. Einar Sigurbjörnsson). Kirkjan fer með þær játningar í helgihaldinu og játar með því trú sína, þ.e. hvaða kirkju það tilheyrir. Síðan koma einstaklingsjátningar eins og sú sem Halldór vitnar til. Þótt hann hafi væntanlega svipaðan skilning á trúarjátningum kirkjunnar og ég hef, þá er ekki þar með sagt að trú okkar sé eins, mjög ólíklegt að svo er. Trúarjátningin er að þessu leyti límið sem heldur okkur saman, eins og “nallinn” hélt alþjóðahreyfingu Kommúnista saman. Nema hvað okkar nær aftur um 1900 aldir.
Ef þjóðkirkjan ætti að semja nýja trúarjátningu, sem er í einhverjum grundvallaratriðum frábrugðin sameiginlegu játinunum, hætti hún að vera hluti þeirra fjölskyldu kirkna sem hún tilheyrir nú. Að þessu leyti er játningin akkerisfesti kirkjunnar. Ákveðið svigrúm er gefið, en ekki meira en það sem játningarnar leyfa. Hverjir gætu samið nýja játningu? Prestastefna (undir forsæti biskups) og kirkjuþing (hvar í sitja leikir og lærðir) yrðu að samþykkja þær.
En er þetta ekki eitthvað sem þarf að fara að gerast? Nú þekki ég dæmi þess að prestar innan Þjóðkirkjunnar trúi ekki á allt það sem þeir hafa yfir í trúarjátningunni í guðsþjónustum sínum. Hvort er betra að þeir hætti störfum (og að hræsna) eða að kirkjan semji sig að nútímahugmyndum guðfræðinga? Í mínum huga er ekki spurning um hvort væri heiðarlegra.
Jú, auðvitað þarf sífellt að vera í gangi vinna með trúarjátningu sem er í takti við samtímann hverju sinni. Þetta hafa Svíar gert og gefið út nokkrar bækur með “nýjum” trúarjátningum, unnum á hinum gamla grunni. Slík vinna hefur þó ekki orðið til þess að gömlu messu- og skírnarjátningunum væri breytt heldur halda þær sér sem hluti af tilbeiðsluformi kirkjunnar. Hins vegar má vel hugsa sér að breyta þeim einnig, amk bjóða upp á annars konar messuform þar sem hægt er að skipta út gömlu trúarjátningunum. Ég held að flestir séu að verða ansi þreyttir á steinrunnu messuformi íslesku þjóðkirkjunnar.
Carlos: Ég á bágt með að skilja að hvaða leyti trúarjátningarnar fjalla um það hvað kirkjan trúir. Trúir Þjóðkirkjan til dæmis því að guðlausir menn muni kveljast að eilífu? Að sá sem trúir ekki í samræmi við Aþaníusarjátninguna muni “án efa glatast að eilífu”? Að eiginkonur eigi að vera undirgefnar eiginmönnum sínum?
Augljóslega hlýtur hún að trúa þessu, þetta stendur í játningum hennar. Mikilvægara er að fá að vita af hverju er gert svona lítið með þetta í nútímanum.
Hvernig væri að fletta upp í bókinni “Kirkjan játar” sem þú hefur vitnað til annarsstaðar, Hjalti, og gá hvað hin opinbera lína (í kringum 1980) var? Síðan má alltaf gá að því hvað Biskupinn hefur að segja um málið, hér. Þegar þangað er komið má skoða spurningu þína aftur og spurja sig, hver er munurinn á kirkjunni og einstaklingunum sem trúa. Því hef ég þegar gert grein fyrir í ummælum mínum hér fyrir ofan. Birgir, finnst þér heiðarlegra að guðfræðingar og prestar sem “trúi ekki á allt sem þeir hafi yfir” í guðsþjónustunni segi af sér, frekar en að reyna að breyta kirkjunni? Eða finnst þér heiðarlegra að kirkjan hlusti á umbótarmennina?
Ég skal segja þér hvað kirkjan hefur gert frá fyrstu kynslóð: Hún hefur leitast við að skilja hvað “Jesúsatburðurinn” fól í sér og setja hann fram þannig að menn geti skilið og trúað. Augljóslega er skilningur fyrstu og tuttugustu og fyrstu aldar ekki hinn sami. Kirkjan er ekki steingerfingur heldur samfélag fólks, sem hefur gengið tiltekna leið í gegnum aldirnar og leyft reynslu sinni og lífi að hafa áhrif á það hvernig það trúir. Hvort er gert mikið eða lítið með þær “í nútímanum”? Þær eru mikið notaðar þar sem mikið er um samtal og ólík viðhorf mætast. Lítið þar sem samfélagið er einsleitt. Játningarnar eru og verða áfangar á leiðinni. Meira um þær hér.
hér.
Mér finnst spurning Birgis um hvort sé heiðarlegra, að vera kjurr og játa með stöðluðu málfari eða að leggja sitt á vogaskálarnar til að dagrétta trúna bjóða upp á falskar andstæður, false dilemma. Að trúa eins og kirkjan trúir er að játa það að maður er ekki upphaf og endir allra hluta, með skynsemi sinni, heldur hluti af heild sem veltir hinu mikilvægasta fyrir sér og tekur afleiðingum af því. Heildin felur í sér 1. játningar sem gefa rammann (biblían hluti játninganna) 2. hefðir og þekking sem gefa hugmynd um hvernig málin hafa verið tækluð til þessa 3. yfirvald sem sker úr um álitamál 4. ferli sem halda öllu saman 5. einstaklinga sem hafa leyfi til að hugsa upphátt og prófa nýjar leiðir Kirkjan er í raun Hegelsk stofnun, þar sem tesa – antitesa – syntesa er höfð í heiðri. Tilraunir til að fastnegla ferlið einhversstaðar, meitla það í stein enda í klofningi eða dauða stofnunarinnar.
Ég kíkti í hana á bókasafninu og sá ekki að því væri neitað að um eilífa kvöl væri ekki að ræða og ekkert um að aþaníusarjátningin væri ekki í gildi. En hafa þessir bræður úrskurðarvald um það hverju kirkjan trúir? Ég sem hélt að kirkjan trúði því sem stæði í játningunum en ekki því sem biskupinn eða bróðir hans trúfræðiprófessorinn segja um þær. Málið er afskaplega einfalt. Þú segir að trúarjátningarnar “fjalla nákvæmlega um það hvað kirkja, n.t.t. Þjóðkirkjan í þessu tilviki trúir”, en samt þegar ég spyr þig um atriði sem trúarjátningarnar kenna augljóslega þá vísarðu bara á einhverja aðra.