Það hlýtur að vekja upp spurningar í hugum þeirra sem standa utan við hið kirkjulega (kristilega) samhengi hví hommarnir, því það eru jú hommarnir, skuli vekja upp svo sterk viðbrögð hjá þeim sem telja sig sannkristna á Íslandi (en ekki reyndar bara á Íslandi).
Það nefnilega er margt sem hefði getað kallað fram þessi viðbrögð en gerði það ekki.
Aðkoma einstakra presta að heilagsandavakningum, gestaprédikarar sem hafa kennt hvernig aga eigi börn til hlýðni með sleifum eða loddarar í Laugardalshöll sem hafa svikið og prettað veika og þurfandi hafa ekki vakið upp viðbrögð hjá þjóðkirkjunni þó eftir því hafi verið leitað. Sama má segja um þögn kirkjunnar og annarra sannkristinna varðandi umhverfisvernd (hvað varð um ráðsmennskuna) eða þátttöku okkar í stríði á síðustu árum. Allt virðist kúplað með þögninni.
En hommarnir, (ó)blessaðir hommarnir á þeim skal tekið. Eða öllu fremur á móti þeim skal ekki tekið.
Af hverju hommarnir? Það vita ALLIR að Biblíurökin halda ekki. Hvar voru enda Vörður, Teddi, Snorri, Jón Valur, Gunnar og félagar þeirra þegar baráttan stóð sem hæst fyrir Fagnaðarárinu 2000 (sbr. 3M 25) og uppgjöf skulda til handa þriðja heiminum. Hvar var heilsíðuauglýsingin þegar Björn Bjarnason stóð að nýjum lögum um innflytendur (2M 12.49, 2M 22.21, Jr 22.3, Kól 3.11)? Hvers vegna hafa orð Lögmálsbókanna svona mikið meira vægi í tengslum við samkynhneigð, sem er þó ekki víst að fjallað sé um, en um aðra þætti, svo sem framkomu við útlendinga. Nú eða fyrirgefningu skuldunauta sem er þó einnig að finna í orðum Krists.
Nei, ÖLLUM má vera ljóst að Biblíurökin eru EKKI uppspretta hommahatursins. Vissulega eru þau notuð til réttlætingar en uppspretta andúðarinnar er ekki þar.
Í hverju felst þá þessi andúð? Ekki skyldi vera að uppsprettan felist í hræðslu. Ekki þó hræðslunni við að detta kylliflatur úr skápnum heldur hræðslunni við að hommarnir grafi undan völdum áður nefndra félaga.
Ha, hvaða völdum kunna líklega flestir að segja. Það er ekki eins og þessir kauðar stjórni miklu. En er endilega allt sem sýnist?
Fyrir margt löngu mætti ég í brúðkaup, og brúðkaup mátti kalla það, hjá einum af ofangreindum. Hann sagði okkur frá því að í sínum söfnuði væri hjónunum kennt að vera hjón. Þannig lærðu karlarnir að bregðast við ef konan brenndi við grautinn og konurnar að óska eftir peningum til að kaupa sér skó. Þannig voru í huga prédikarans hlutverk kynjanna alveg skýr. Karlinn skaffar, konan þjónar (honum). Byggir ef til vill andúðin á hommunum á hræðslunni við að þessi hlutverk brenglist. Er það svo að samband sem byggir á jafngildum samskiptum, þar sem líffræðilegar aðstæður mynda ekki tækifæri til að búa til lóðrétt samskipti, sé ógn við hugarheim ofangreindra manna. Er óhugsandi í huga einhverra að jafnræði geti átt sér stað í nánum samskiptum og því sé samkynhneigð óguðleg? Þannig er sambúð tveggja karlmanna hreinlega ógnun við Guðsmynd sem byggir á því að Guð sé gamall hvítur karl sem öllu ráði og stjórni og eigi ekki í jafningjasamskiptum við einn né neinn (katólska kirkjan sá alla vega ástæðu til að bannfæra Leonardo Boff og þar með þrenningarskilning hans). Við sjáum líka að þar sem feðraveldið er sterkast, skaffararnir allir með utanáliggjandi kynfæri, þar er andúðin mest.
En ef til vill fer ég hér villur vegar. Ætli það sé svo að hér stjórni einfaldlega köld rökhyggja. Auðveldasta leiðin til að þjappa hóp saman og mynda sterka félagsvitund er að eiga skýran óvin. Við sjáum þetta hvar sem litið er. Samfylkingin lifir á því að til sé vondur sjálfstæðisflokkur., Framsóknarflokkurinn er vart á lífi. Demókratar í BNA vita að Bush er vondur, meðan þjóðin hér veit að múslímar eru óvinurinn. Fyrir litla kristilega hópa á Íslandi eru hommar tiltölulega þægilegir óvinir. Fórnarkostnaðurinn er lítill miðað við ávinninginn og óvinurinn er sæmilega sýnilegur.
Ég veit ekki, hugsanlega eru ástæðurnar allt aðrar. Kannski er það bara tilviljun að aðalbaráttumál kirkju.netsins eru baráttumál, sem snerta rétt homma (sem þeir eru ekki), barna (sem þeir eru ekki) og kvenna (sem þeir eru ekki).
Skrifað á Bexley Library, Ohio meðan glímt var við gerð fræðsluefnis fyrir börn og unglinga um bænina Faðir vor, sem Jesús kenndi lærisveinum sínum.
Frábær grein hjá þér Elli. Ég held að allt þetta geti átt við. Held reyndar að fólk óttist einnig eigin kynhneigð. Ég trúi því ekki að það sé til 100% gagnkynhneigð manneskja né 100% samkynhneigð. Það að samþykja samkynhneigð býður upp á það að líta í eigin barm og bera kennsl á eigin kenndir einnig.
Heimsmynd heittrúarsafnaða er yfirleitt nokkuð önnur en í hófstilltari kirkjum. Þetta er í rauninni menningarmunur sem mér finnst merkilegt að guðfræðingar hafi ekki tekið með inn í myndina í gagnrýni sinni á ósveigjanleika heittrúarsafnaða. Enn merkilegra finnst mér það vegna þess að víðast hvar er lögð áhersla á umburðarlyndi gagnvart öðrum trúarbrögðum en kristnum með áherslu á að skilja að heittrúarhópar annarra trúarbragða lifa við aðra heimsmynd en hinir hófstilltari. Þetta innsæi virðist ekki vera fyrir hendi innan kristninnar gagnvart sjálfri sér. Þetta er klárlega ein ástæðan fyrir átökum trúarhópa innan sömu trúarbragða, bæði kristinna og annarra. “Spyrjið um gömlu göturnar, hvar sé hamingjuleiðin…” er mottó sem heittrúarhópar hafa í hávegum. Skv. þeirra skilningi eru það svik við sjálfan guð að víkja frá gömlum viðmiðum og merki um fráfall. Það er síðan aftur enn meiri svik við guð.
Jú, það er örugglega ótti við samkynhneigð fyrir hendi. En það er ekki eina ástæðan fyrir sterkum viðbrögðum þessara hópa. Hér á landi eru þessi hópar í sterkum tengslum við erlenda söfnuði sem að mínu mati sjá þeim að mörgu leyti fyrir guðfræðinni. Kennivaldið kemur utan frá. Innri endurskoðun trúfræðinnar með rýni á aðstæður á sér ekki stað. Hóparnir þurfa að viðhalda sterkri aðgreiningu til að efla eigin samkennd. Þannig held ég að málefnið sjálft sé oft aukaatriði. Ég man t.d. eftir sterkri andstöðu við innleiðingu kreditkorta með skýrskotun til merkis dýrsins. Andstaðan við kreditkort hafði trúarlegar forsendur. Hins vegar eru til veigamikil rök gegn kreditkortanotkun frá fjármálaráðgjöfum og þurfa þeir ekki að undirbyggja sín rök með kennisetningum trúarinnar.
Enn merkilegra þykir mér að ýmsir guðfræðingar hér á landi sem agnúast hvað harðast út í heittrúarhópa eiga sjálfir sínar trúarlegu uppvaxtarrætur sínar þangað að rekja. Þeir ættu því að hafa eitthvert innsæi í heimsmynd hópanna en ég óttast að bjálkinn frá því tímabili sitji enn sem fastast í auga þeirra og varni þeim sýn á sjálfa sig. Það þarf að gangast við fortíð sinni í þessum hópum til að vera frjáls undan valdi hennar og viðkenna fyrir sjálfum sér þátt sinn í henni. Ég sé ekki betur en sumir þessara séu að endurtaka sama viðmótið og í gamla daga en bara úr annarra átt. Það er ekki nóg að skipta um málstað til að friðþægja fyrir brotin. Málstaðurinn helgar ekki málflutninginn.
Takk fyrir Ólöf D. Góður rökstuðningur.
Takk fyrir þetta Elli, snilldargrein. Niðurlag Ólafar skildi ég hins vegar ekki. Hverjir eru þessir guðfræðingar sem hún talar um og með hvaða hætti veikir það rökstudda gagnrýni þeirra þótt þeir séu sjálfir sprottnir úr þessu umhverfi?
Takk fyrir frábært innlegg Ólöf. Þú bendir á veigamikla þætti sem skipta miklu máli í afstöðu margra. Grein mín leitast einmitt við að benda á tvo þætti í menningarmun milli hófstilltari kirkna og heittrúarsafnaða. Annars vegar feðraveldið og hins vegar þörfina til að greina á milli okkar og hinna. Það er ekki skrítið að við sem höfum á yngri árum gælt við heittrúarhópanna og tilheyrum þeim í einhverjum skilningi enn höfum uppi harðari gagnrýni en aðrir. Við sjáum hvernig ýmislegt í okkar uppeldi innan hópanna hefur haft heftandi og skemmandi áhrif á samband okkar við Guð. Við þekkjum líka innri gerð hópanna og teljum okkur kölluð til að ráðast á það sem skaðar og heftir.
Ég hef tekið þátt í að boða feðraveldið, haft horn í síðu homma og ráðist að einstaklingum sem hafa ekki staðið undir “félagslegum normum”. Er það ekki frekar svo að vegna þess að ég veit, hef lært, prófað sjálfur og horfst í augu við sjálfan mig að ég leyfi mér meiri gagnrýni en sumir þeirra sem þekkja ástandið bara af afspurn.
Þetta er hins vegar auðskiljanlegt. Þegar nafn Jesú Krists, sem er frelsari minn og lausnari er misnotað til að ráðast að einstaklingum og hópum, er verið að vanhelga það sem mér er heilagast. Auðvitað bregst ég við því af hörku. Það að hópar misnoti nafn Allah kallar á mun hófstilltari viðbrögð, enda tengi ég mitt persónulega trúarlíf ekki við það á sama hátt.
Er það ekki tvískinnungur? Mega aðrir hópar nota nafn Guðs til að vanhelga það sem öðrum er heilagast bara af því að við flokkum þá sem annarrar trúar? Þetta kallar á verulega umhugsun: Hver/hvað er guð og komum við guði við? Auðvitað eigum við hafna ranglæti og verja lítilmagnann, í eigin röðum jafnt sem annarra.Sum viðhorf eru ólíðandi og gagnrýni á þau verður að vera málefnaleg og laus við persónurök og orðhengilshátt til að vera ekki á sama lága planinu. Það vill gleymast að stór hluti áhrifafólks í þjóðkirkjunni er sprottið upp úr heittrúarjarðvegi KFUM og K. Ég býst við að margir úr þeim hópi vilji ekki gangast við því að eiga eitthvað sameiginlegt með fríkirkjusöfnuðum annarra kirkjudeilda þó andrúmsloftið og gildin séu í raun þau sömu.
Vissulega felst í því tvískinnungur. Ég er alls ekki að mæla því bót. Hins vegar er auðskiljanlegt, svo ég noti það orð aftur, að svo sé. Ég samþykki ekki hegðun öfga-islama þó ég bregðist harðar við þegar trú mín og daglegur veruleiki sé undir árásum. Nú veit ég ekki hvað þú þekkir til mín, en ég er einn af KFUM og KFUK-kirkjumönnunum. Ég fullyrði að flestir lykilmenn innan KFUM&KFUK og núverandi áhrifamenn í kirkjunni eru meðvitaðir um þau einkenni sem KFUM og KFUK eiga sameiginleg með öðrum heittrúarhópum, ólíkt því sem þú býst við. Hins vegar er ég ekki viss um að allir gangist við þessum gildum eða samþykki þetta andrúmsloft. Enda er breiddin í KFUM og KFUK meiri en margir halda.
Er það rétt skilið hjá mér Ólöf að í þessum orðum felist helsta gagnrýni þín á færsluna mína. Þér finnst nálgun mín einfaldlega of galgopaleg og ekki sæmandi manni eins og mér?
Nei, Elli, alls ekki. Því þá hefði ég sagt það beint við þig. Mér finnst þetta fínar færslur hjá þér. Ég hafði allt önnur orð í huga sem féllu á öðrum stað. Yfir og út.
Ég sé tvennt kristallast út úr innsæi Ella og Ólafar hér, sem mig langar að dýpka örlítið. Fyrir það fyrsta það, að ólíkir menningar- og heimsmyndarheimar standa að frjálslyndum og bókstafstrúuðum. Það að við tilheyrum sama trúarbragðinu auðveldar ekki hlutina. Ég held að grunnafstaða okkar, traust á biblíu, bókstaf eða eins og Ólöf kallar það, gömlu leiðarnar kallast á við og þolir ekki grunnafstöðu okkar sem hafnar traustu leiðunum, frelsi frá bókstaf og gagrýni á biblíu- og hefð. Þetta held ég að hafi minna að gera með iðkun vísinda og meir með það að gera hvaðan við sækjum okkur vissu. Músliminn og hinn kristni bókstafstrúarmaður sækir grunn sinn til þeirrar vissu að biblían er óskeikult orð Guðs. Hinn frjálslyndi hafnar þessu en treystir á ákveðin grunngildi sem hann eða hún sækir til biblíunnar, hefðarinnar, það, hvað virðist vera kjarni trúarinnar. Annað virðist hafa gert skurðgoð úr orði Guðs, hitt virðist svífa í lausu lofti og gera eigin skilning að Guði.
Svo er það hræðslan við samkynhneigða. Hafið þið tekið eftir því að sjaldnar er talað um lesbíur en homma í þessu sambandi? Kristallast í þessu hræðsla karla við að missa kynbundin áhrif? Er hómófóbían (takið eftir því hvað orðið er karlmiðlægt) hræðsla karlsins við að missa guðsgefna stöðu yfir sköpunarverkinu og fjölskyldunni? Það, ásamt jafnrétti kvenna og viðurkenningu þess að við erum komin af öpum er nánast móðgun við orð Guðs um manninn í Guðsmynd.
“Músliminn og hinn kristni bókstafstrúarmaður” Ertu að segja að allir múslimar séu bókstafstrúarmenn? Svo vil ég benda á að múslimar trúa á sama Guð og kristnir og því er Allah ekki einhver annnar. Hins vegar trúa fæstir þeirra að Biblían sé óskeikult orð Guðs. Kóraninn er það hins vegar í augum margra, en stór hluti hans fjallar reyndar um það sama og Biblían.
Þakka þér Carlos, en ég held að málið sé ekki alveg svona einfalt. Því öll erum við háð túlkunum og áherslum hefðarinnar. Bókstafstrúarmaðurinn er allt eins jafn selectívur á texta og hefðir og sá frjálslyndi. Á þetta hafa t.d. R. Scott Appleby og Martin E. Marty bent í rannsókn sinni á heittrúarfólki í mismunandi trúarhefðum.
Þess vegna er femíniska gagnrýnin sem Carlos nefnir mun sennilegri til útskýringar á afstöðu, m.a. til homma eða sköpunarsögunnar en viðhorf til óskeikuleika trúarrita.
Þorkell, í augum langflestra múslíma er Kóraninn lesinn af Allah fyrir menn og því óskeikull. Það er væntanlega það sem Carlos vísar til. Hvað varðar samguðsskilninginn. Þá vísa ég í orðum mínum hér að ofan til hugtakanotkunar. Þ.e. ef nafn Jesú er misnotað stendur mér það nær en ef Allah er misnotað því það hugtak nota ég ekki um Guð. Hvort um sé að ræða sama guð er ekki til umræðu hér.
Ég lít svo á að einn af grundvallarmun islam og kristni felist í því að orð Guðs varð bók í islam en maðurinn Jesús Kristur, sem við játum son Guðs í kristni. Í grunninn þýðir það að kristnir eiga auðveldar að rýna í helgirit sín á grundvelli Jesú en múslimir, þar sem orðið varð áþreifanlegur hlutur sem er mitt á meðal okkar. Ég undirstrika orðið auðveldar, en það gerir ekki bókstafstrúarmenn úr öllum múslimum.
Ég held að þetta tvennt sem ég nefni til, viðhorfið til grunnsins og viðhorfið til mannsins sem kóróna sköpunar kallist á. Túlkunarlykillinn verður valdatæki, en líka hin hefðbundnu viðhorf til þess hvert sé hlutverk manna og kvenna í þessum heimi. Eitt dregur úr hinu eða eflir það. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta spurning um varnir sjálfsins, hvert við sækjum öryggi okkar. Einn í það að heimurinn er skv. ákveðinni reglu hinn að heimurinn skuli vera óheftur af fyrirframgefnum skorðum. Einföldun? Já, en ég er líka bara að viðra það sem mig grunar að sé málið.
Vel orðað hjá þér, Carlos, munurinn á orði Guðs í islam og kristni. Varðandi hvert við sækjum öryggi okkar, þá bendi ég á að ég tilheyri samkvæmt þessari nálgun þinni sama hóp og bókstafstrúarmennirnir, þ.e. ég trúi því að heimurinn sé skv. ákveðinni reglu. Hins vegar er ég ekki viss um að bókstafstrúarmenn taki allir undir það með þér að ég sé hluti af þeirra hópi.
Þakka hrósið, Elli, ég hefði e.t.v. átt að geta heimilda, það var Hans Küng sem orðaði þetta svona, munurinn á kjarna islam og kristni… Ég skal einnig játa það, að þessi flokkun í dilka tek ég ekki úr guðfræðinni heldur úr því sem ég þekki til sálgreiningar. Grunur minn er sá að því meir sem maður ver tiltekna reglu því óöruggari er maður um að allt muni að lokum fara vel … með það í huga horfi ég á harðneskjulegar og lítt skynsamlegar varnir harðra bókstafstrúarmanna og kvenna hvaðan úr trúarheimi sem þau koma. Með lítt skynsamlegar á ég m.a. við þá viðleitni að búa til gervivísindi til að verja það sem mestu skiptir, heilagar ritningar og kennisetningar.