Umræðan um aðkomu kirkjunnar að opinberum grunnskólum hefur nú um skeið verið leidd af vantrúarmönnum hér á vefnum sem hafa gagnrýnt þá aðkomu harkalega eins og vænta má. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort ekki sé nauðsynlegt að taka umræðuna alvarlega upp innan kirkjunnar. Það þarf að svara hvað felst í hugmyndum um nánara samstarf og leitast við að fylgja eftir þeim samþykktum sem gerðar hafa verið.
Skýrsla starfshóps um kirkju og skóla hlýtur að vera það plagg sem unnið er eftir meðan frekari umræða hefur ekki átt sér stað. Þar stendur m.a.
- Skólinn fræðir um kristna trú og önnur trúarbrögð. Slík fræðsla verður mikilvægari eftir því sem íslenskt þjóðfélag verður fjölbreyttara í trú og lífsskoðun. Mikilvægt er að takast á við slík viðfangsefni í skólanum sem nær til allra.
- Tileinkun trúar eða lífsskoðunar fer fram á heimilum, í kirkjum eða trúfélögum.
- Þjóðkirkjan er reiðubúin að veita heimilum og skóla þjónustu í tengslum við trúarfræðslu. Sú þjónusta sem veitt er skólanum verður þó alltaf að vera á forsendum hans.
Í samhengi við þessa skiptingu og sér í lagi lokasetninguna í þriðja lið, hljóta að vakna alvarlegar spurningar um þær hugmyndir að ráða vígt starfsfólk til starfa í leik- og grunnskólum, enda hljóta vígðir starfsmenn að lúta vilja kirkjunnar fyrst og fremst. Sér í lagi ef hagsmunir kirkju og skóla fara ekki saman. Þá verður að vanda mjög til allra fastra heimsókna. Um leið hljótum við spyrja okkur um hvaða hugmyndir ráða aðferðum okkar og áherslum.
Upp vakna spurningar um samspil kristniboðsskipunar Krists annars vegar og kærleikshugtakið hins vegar. Hvernig getum við sýnt minnihlutahópum virðingu á sama tíma og við látum alla taka þátt í bænastundum í grunnskóla? Hér er auðvitað líka mikilvægt að muna að réttur einstaklinga til trúarlífs verður að vera virtur. Þannig má ekki stöðva farveg fyrir trúariðkun þeirra sem það kjósa.
Hér er mikilvægt að kirkjan geri upp við sig hvort hún lítur á sig sem mótandi trúarafl í samfélaginu eða hvort hún telur sig í stöðugri varnarbaráttu sem sé við það að tapast og því megi ekkert gefa eftir. En slíkt varnarviðhorf virðist ríkjandi t.d. í nýlegu viðtali í tímaritinu Skýi.
Þessi umræða er ekki einföld, sleggjudómar og þekkingarleysi á eðli trúariðkunar hjálpa ekki til, ekki frekar en hroki og yfirgangur meirihlutans. Þessari færslu er ætlað að vera undanfari að frekari vangaveltum mínum, en þó er alsendis óvíst að þær vangaveltur birtist í bráð.
Ég sé ekki hvernig vígsla á að hindra það að starfsmaður starfi á forsendum vinnustaðarins. Fólk hlýtur að skilgreina samstarf skóla við trúfélög og einstaka vígða starfsmenn með samningum og kynningum sem halda og gera væntingar, skyldur og réttindi ljós.
Þarna er ég að vísa til þeirra aðstæðna þegar starfsmaður er vígður af biskup til þjónustu við ákveðin/ákveðna skóla. Þar er ráðningin og köllunin í einhverjum skilningi aðskilin og það gæti valdið vandkvæðum.
Og þessvegna þarf að vera til staðar starfslýsing og hverjar forsendur skólans, sem urðu til þess að ráða vígðan þjón kirkjunnar. Í þýsku kirkjunum og skólakerfinu er ljóst að trúarfræðsla, trúarbragðafræðslan er í höndunum á fólki sem tók próf frá tiltekinni kirkju, kennararnir hafa umboð kirkjunnar til að kenna þessi fræði. Undir liðnum skólamiðað unglingastarf (Schulbezogene Jugendarbeit) er að birtast meira og meira efni á vefjum þýsku kirknanna, þar sem reynt er að koma til móts við þann veruleika, að sunnudagurinn endist ekki til helgihalds þegar fjölskyldurnar eru jafn sundraðar og þær eru í nútíma samfélagi og skólinn hefur tekið á sig hlutverk sem fjölskyldan sinnti áður. Það er algerlega ljóst að í fjölmenningarlegu samfélagi þarf svoleiðis að vera markað vönduðum starfsaðferðum, sem hafa trú- og skoðanafrelsisákvæði laga og sáttmála að leiðarljósi.
Þessi umræða er mjög hæpin að mínu mati og jafnvel hættuleg. Orð Ella um mikilvægi þess að “muna að réttur einstaklinga til trúarlífs verður að vera virtur” og að ekki megi “stöðva farveg fyrir trúariðkun þeirra sem það kjósa” sýnir það glöggt. Ég spyr: hvaða “rétt” hefur einstaklingur til að iðka trú sína í skólum? Engann auðvitað. Trúariðkun á að fara fram á þar til gerðum stöðum (t.d. kirkju) eða á heimilum en alls ekki í skólum. Ef slíkt yrði tekið upp hér á landi er verið að fara marga áratugi aftur í tímann.
Varðandi þau orð sem Torfi gagnrýnir er ég ekki síst að vísa til mikilvægi þess að virða ólíkar trúarhefðir, sbr. svínakjöt í skólamáltíðum eða hafa rými fyrir bænastundir þeirra barna sem telja sig þurfa að biðja með reglubundnu millibili yfir daginn. Ég hef efasemdir um aðkomu kirkjunnar að skólum eins og Carlos lýsir þar sem skólar koma í stað sunnudagshelgihalds safnaðar, enda tel ég að helgihald eigi heima líkt og Torfi bendir á þar til gerðum stöðum eða á heimilum. Einhvers konar opinber trúarinnræting í skólakerfi getur ekki verið vænleg fyrir safnaðarstarf eða kirkjuuppbyggingu ef kirkjan á að vera virkt afl í samfélaginu, sem berst “trúarinnar góðu baráttu”.
Úff, eruð þið virkilega búin að skemma einhver börn svona mikið með þessari „beinasleggju“ ykkar að þau þurfi að biðjast fyrir mörgum sinnun á dag? Þessi börn eiga sér ekkert líf eftir meðferðina hjá ykkur. Þetta ætti að varða við barnaverndarlög.
Var ég að mæla fyrir opinberri trúarinnrætingu, Halldór? Ég minnist þess ekki, benti hinsvegar á fyrirmyndir um það hvernig kirkja/trúfélag og skóli geta unnið saman í fjölmenningarsamfélagi eins og Þýskaland er orðið. Bendi einnig á að vísir að skóla/heilsdagsskólamiðuðu barna og unglingastarfi er farinn að gera vart við sig hér á landi, íþróttafélög, skátar, kirkjur eru farin að nota þennan tíma sem börnin eru í gæslunni.
Hættuleg umræða er umræða sem ekki leyfir að menn viðri skoðanir og lagi þær áður en þær koma til framkvæmda, eða hvað?
Svíar leysa þetta mál með trúariðkun, með því að leyfa ólíkum trúarhópum að reka einkaskóla. Þar er sama skyldunámsefni og í opinberum skólum en í viðbót er trúfræðsla og trúaruppeldi stunduð. Ég myndi mæla með þeirri leið, þó hún hafi að vísu ekkert reynst nógu vel ytra, frekar en að leyfa trúariðkun í ríkisreknum skólum. En það er rétt hjá Carlosi að það sé of mikið sagt að umræðan sé hættuleg, hún er frekar varasöm, enda verður hún eflaust fyrst og fremst til þess að hinir vantrúuðu fái vind í seglin (sbr. innlegg Birgis hér að ofan).
Hvað er að því að guðlausir trúmenn fái að taka þátt í umræðu sem varðar þá?
Ertu að reyna að vera sniðugur?
Nei (sbr. næstsíðasta paragraf), eða hvað heldur þú, Matti?
Ég held að þú hafir vondan málstað að verja og vitir það.
gengur í báðar áttir, Matti, og það veistu líka, að ég held.
Nei, málstaður minn er góður. Trúboð á ekki heima í opinberum skólum. Skólar skulu vera hlutlausar stofnanir. Trúmenn geta iðkað trú sína utan skóla, hvernig sem þeim hentar. Í skóla skal kenna um trúarbrögð á hlutlausan máta, þó eðlilegt að sé að kristni fái mest rými í þeirri kennslu sökum sögu tengsla þeirra trúarbragða þjóðarinnar. Þó er nauðsynlegt að kennsluefni í kristnifræði sé endurskoðað því það efni sem nú er notað er alltof einhliða enda skrifað af prestum þjóðkirkjunnar. Ég hef afar góðan málstað að verja.
Ég hef hugsanlega misskilið Carlos og þýska módelið. En ég sé fyrir mér möguleika í aðkomu kirkjunnar að frístundaheimilum, þar sem frístundaheimilin eru einhvers konar miðja þaðan sem börnum býðst að taka þátt í margvíslegu starfi á vettvangi frítímans. Einhver velja sér karate, dans eða kirkju og fara frá frístundaheimilinu í slíka dagskrá. Slíkt módel ætti að virða valfrelsi einstaklinga og mætir um leið væntingum fjölskyldna um fjölþætt starf fyrir börn og unglinga. Mér sýnist hins vegar á öllu að kirkjan vilji meira en slíkt samstarf og vilji aðgang að öllum börnum í opinbera kerfinu, ég velti fyrir mér hvort það sé æskilegt.
Eins og ég hef bent á hjá Matta þá er raunveruleikinn sá að kirkjan er að leita fyrir sér að breyttum breytanda í samskiptum kirkju og skóla undanfarin ár. Sumir óska að kirkjan láti skólann afskiptalausan, sem er hámarkskrafa, að sama skapi væri trúboð og bænahald hámarkskrafa. Hvorugt held ég að sé raunhæft. Þá er eftir einhver millileið, eins og sú sem Þjóðverjar eru að þróa. Kaþólskt dæmi, evangelískt tilboð, hugmyndavinna í Kurhessen-Waldeck. Því miður allt á þýsku. Hvað sem allri módelsmíð líður, þá skiptir mestu í mínum huga að horfa á innihald þess sem er í boði, að námsskrá sé haldin og að fagfólk standi að fræðslu, sálgæslu og frístundastarfinu
Rangfærslur og útúrsnúningur bera ekki vott um góða samvisku, Matti.
Þetta skaltu annað hvort rökstyðja almennilega eða taka til baka Carlos.
Það er ekkert að umræðu við fólk með aðrar skoðanir, t.d. við þá vantrúuðu. En það er því miður svo að þú, Carlos, og fleiri kunnið ekki að rökræða – og ættuð því að láta það vera. T.d. tek ég undir með Matta um að þú ætti að taka til baka fullyrðinguna um “rangfærslur og útúrsnúninga” hans. Það var ekkert slíkt í skrifum hans.
Ég viðurkenni að færsla mín kl. 23.58 í gær snéri að persónu Matta og hefur ekkert erindi á þessum stað, hvorki rökstudd né órökstudd. Biðst afsökunar á því að hafa látið hana falla, Matti og Elli.
Þessi prestur hefur manndóm til að játa mistök sín. Fallegt og eftirbreytnivert. Carlos, þú ert maður að meiri fyrir vikið.