Áhugaverður skortur á áhuga [breytt og bætt]

Í umræðum um stöðu íslensku krónunnar, illsku norðmanna og svo sem flestra annarra útlendinga hefur ekkert verið fjallað um þau orð eins bankastjóra íslensku bankanna að þeir hafi séð fyrir lækkun krónunnar og tekið stöðu með öðrum gjaldmiðlum fyrir síðustu áramót.

Sú ákvörðun og hugsanlega hinna bankanna tveggja að selja krónurnar sínar fyrir fjórum mánuðum og taka stöðu annars staðar er hvergi gagnrýnd. Samt sem áður er ekki ósennilegt að aðgerðir íslensku bankanna og hræðsla þeirra við íslensku krónuna hafi átt einhvern þátt í ákvörðunum yfirmanna norrænu fjármálastofnanna. Enda ljóst að ef heimamennirnir og aðalleikmennirnir á markaði flýja af hólmi er ekki gott fyrir aðra að sitja eftir.

Reyndar benti Agnes Bragadóttir á þetta í grein á forsíðu Morgunblaðsins 16. mars, en því virtist ekki fylgt eftir þar sem ofar á forsíðunni var frétt um þá nýtilkynntan flutning bandaríska hersins frá landinu og þessi frétt virðist hafa gleymst.

Krónan hefur veikst um 12,3% frá áramótum. Það hefur verið hluti af áhættustýringu KB banka að byggja upp gjaldeyrissjóð á undanförnum mánuðum og eins og fram kemur í ársskýrslu okkar, þá voru eignir bankans í erlendri mynt umfram skuldir um 45 milljarðar króna í árslok 2005, sagði Hreiðar Már.
Hreiðar Már sagði að þessi kaup bankans á erlendum gjaldmiðlum væru gerð til þess að verja kaupmátt eiginfjárins ef krónan félli.
Við sáum á síðasta ári, að erlendir aðilar keyptu mjög mikið af krónum og krónan styrktist mjög í kjölfar þess. Við töldum að í þessu væri fólgin ákveðin áhætta og að gengi krónunnar myndi lækka. Þess vegna gripum við til þessara ráðstafana.
Spurður hvort KB banki og aðrir stórir kaupendur erlendra gjaldmiðla væru með þessu að taka stöðu gegn íslensku krónunni og þar með gegn hagsmunum eigin viðskiptamanna hér á Íslandi, sagði Hreiðar Már: Nei, alls ekki…

Um miðjan mars höfðu svo bankarnir þrír keypt til viðbótar 80 milljarða frá áramótum skv. frétt Agnesar og var heildareign bankana í erlendum gjaldeyri umfram erlendar skuldir þá um 140 milljarðar króna. Hagnaður bankanna á þessari stöðutöku gegn íslensku krónunni nemur í dag allt að 21 milljarði íslenskra króna. Þetta er verulega meiri hagnaður en t.d. hin umdeildi olíusjóður hagnaðist á skortsölu sinni á hlutabréfum bankanna.

10 thoughts on “Áhugaverður skortur á áhuga [breytt og bætt]”

  1. Góður púnktur þetta Elli! Af hverju ekki að senda þetta í Moggann eða Fréttblaðið, svona til að draga úr hræsni forsætisráðherrans í þessu máli? Það má meira að segja benda á að Össur Skarpi býsnaðist yfir hinu sama, en hann er nú pólitískt viðrinni og ætti að hætta í pólitík hið fyrsta.

  2. Einhvern tímann var sagt við mig: Ef Torfi hrósar þér, þá ertu að gera eitthvað rangt. En svona er lífið. Annars er elli.annall.is minn miðill þegar kemur að greinarskrifum, ég hef mikla ímugust á Fréttablaðinu og ekki minnkaði það þegar þeir tóku skrif af annálnum mínum og birtu sem bréf til blaðsins. Ég hef einu sinni því sem næst orðið atvinnulaus eftir að hafa skrifað grein í Moggann, þar sem einhverjum líkuðu ekki skrif mín, svo ég læt það vera einnig.

  3. Mikið er ég sammála þér Elli. Veit ekki hvort það séu meðmæli eða vísbending um að þú sért á villigötum. 🙂 Ljótt að heyra þeitta með Fréttablaðið. Fórstu ekki fram á greiðslu?

  4. Sammála hverju Keli? Að Fréttablaðið sé skítasnepill eða að það viti ekki á gott að ég hrósi mönnum? Ef það síðara er rétt þá spyr ég eins og fávísa konan forðum: hvað er eiginlega á milli okkar?

  5. Sammála Ella og þér um málefni færslunnar. Þetta var ekki meint sem skot á þig Torfi minn. Það vill svo til að ég er oft mjög sammála þér og er þetta mál þar engin sérstæða 🙂

  6. Takk elskan. Ég set prís á (svo maður sletti skandinavísku) að það sé gott á milli okkar!

  7. Þetta er nú ekki svona einfallt! Á móti þessum milljörðum sem bankarnir græddu með því að “taka stöðu með erlendum gjaldmiðlum” töpuðu þeir a.m.k. jafn miklu á því sem þeir skulda í erlendum myntum. Þetta eru einfaldlega eðlilegar áhættuvarnir bankanna.

  8. Það er einfaldlega rangt Bjartur. Hér er um að ræða kaup á erlendum gjaldeyri umfram skuldir bankanna í erlendum myntum. Vissulega hafa þeir varnir fyrir erlendum skuldum og það er eðlilegt, það sem um er að ræða hér er hins vegar hrein stöðutaka.

Comments are closed.