Það er magnað að sjá lóðaklúðrið í Reykjavík. Ítrekað tekst Borgaryfirvöldum að klúðra úthlutun með lélegum vinnubrögðum. Í Morgunblaðinu talar Alfreð Þorsteinsson um að aðferðir Reykjavíkurborgar séu þó betri en Kópavogsbæjar, en er það endilega svo. Í Kópavogi hefur alltaf legið fyrir hvernig lóðunum er úthlutað, reglurnar eru einfaldar og sýnilegar. Ef þú átt vin í bæjarstjórn, nú eða situr þar sjálfur, færðu líklega lóð. Ef bæjarstjórnin telur að bæjarfélagið hafi hag af að þú byggir þar, þá færðu lóð.
Aðferðafræði Reykjavíkurborgar er ekki svona. Fyrst skal telja úthlutun á lóðum í dolluhappdrættinu. Eins og Steini Arnalds hefur bent á var framkvæmdin þar með ólíkindum. Hverri fjölskyldu var bannað að senda nema eina umsókn, en ekki var fylgst með því, nema ef sama fjölskylda væri dregin oft. Dreifing númera var mjög undarleg og svo mætti lengi telja. Umfjöllun Steina er hér. Aðferðafræðin í dolluhappdrættinu byggði á þeirri pólítísku hugmynd að allir hafi rétt á lóð fyrir húsnæði sitt. Jafnaðarmennska af bestu sort, en kallar um leið á fagleg vinnubrögð við útdrátt og framkvæmd svo jafnræði þegnanna sé tryggt. Ef vinnubrögðin eru af þeirri tegund sem stuðst var við á sínum tíma er nefnilega jafnaðarmennskan fyrir borð borinn.
Kapítalisminn í útboðsleiðinni er mér minna að skapi, en er auðvitað fær leið. Aðeins þeir sem geta lagt út fyrir lóð, hafa möguleika á að byggja eigið hús. Segja má að þessi leið sé þveröfug við leið happdrættisins, jafnaðarhugsjóninni er hafnað fyrir vald peninganna. Reyndar er hægt að setja skilyrði til að minnka líkur á að lóðirnar safnist á mjög fáar hendur og segjast Borgaryfirvöld hafa reynt að gera það. Framkvæmdin mistókst hins vegar alveg ef litið er til markmiða um jöfnuð. Jafnaðarfólkið í Reykjavík gekk leið kapítalismans á þann hátt sem mér er til efs að Sjálfstæðismenn hefðu haft kjark til að ganga.
Með öðrum orðum hringlandaháttur og stefnuleysi borgaryfirvalda er með ólíkindum. Leiðir til að deila út þeim fáu lóðum sem virðist hægt að bjóða í Reykjavík eru nokkrar. Ákvörðunin um hvaða leið er farin er pólítísk. Útfærslan er tæknileg. Á báðum vígstöðvum hafa borgaryfirvöld tapað.
Já þetta er enn eitt klúðrið sem meirihlutinn í borgarstjórn lætur ganga yfir reykvíkinga. Með lóðaskortastefnu sinni hafa borgaryfirvöld keyrt upp íbúðaverðið og með fáránlegum útboðum hafa þeir aukið en við hátt íbúðaverð. Gamla R – listanum er þó vorkunn þeir eru náttúrlega búnir að klúðra fjármálum borgarinnar svo illilega að eina leiðin til þess að eiga fyrir hratt vaxandi skuldum borgarinnar. Blessunarlega verðum við laus undan Degi og félögum í vor….;-)
Ég hreinlega skil ekki afhverju þetta er svona mikið mál í Reykjavík – svipuð útboð stunda fjölmörg önnur sveitarfélög án þess að ósáttir umsækjendur komi fram í sjónvarpi og tjái skoðanir sínar. Auk þess varðar þetta einungis sárafáa tekjuháa einstaklinga, sem ganga með þann séríslenska draum í maganum að byggja einbýlishús. Týpískt fyrir íhaldið að taka upp hanskan fyrir þessa sárufáu og gera R-listann að einhverjum blóraböggli. Auðvitað kostar það peninga að byggja sér hús og auðvitað er það háð framboði og eftirspurn og þeim verðviðmiðunum sem ríkja á markaðinum. Sömu lögmál gilda um þá sem kaupa sér íbúðarhúsnæði. Og það er nú þvílík einfeldni að halda því fram að útboð lóða hafi áhrif á húsnæðisverð. Að sjálfsögðu á borgin að njóta hags af háu íbúðarverði og mikilli eftirspurn – eða finnst ykkur eðililegt að fólk út í bæ vinni stærsta vinningin í einhverju lóðahappadrætti?
Það segir sig sjálft að þegar það er útboð þá er það hæstbjóðandi sem hreppir hnossið eins og í tilfelli þessara 39 einbýlishúsalóða þar sem að hver lóð fór á um 20 milljónir. Sem er töluvert hærra en það lágmarksverð sem miðað var við og auðvitað skilar þetta sér út í verðlagið. Ég held að það sé ólíklegt að verktakinn taki þennan auka kostnað á sig?
Lóðaskortsstefna? Ég hélt að flestir væru sammála um það að auðveld lántaka væri aðal ástæðan fyrir þessu himinháa verði á lóðum. Alla þensluna má jú rekja til vaxta- og bankastefnu ríkisstjórnarinnar og ábyrgðarleysi bankanna sjálfra. Það er ljóst að offramboð er að verða á lóða- og nýbyggingamarkaðinum. Menn segja að þetta hverfi við Úlfarsá muni aldrei fyllast. Svo eru nú fleiri ósáttir en Reykvíkingar, svo sem Kópavogsbúar vegna klíkuúthlutunarinnar þar. En sem getur fer er íhaldið ekki enn komið með meirihluta í Rvík. Þá yrði klíkustarfsemin og lóðabraskið látið átölulaust – enda þeir sem líklegir eru til að stunda slíkt fastir greiðendur í kosningarsjóði íhaldsins!
Nákvæmlega – verktakin væri ekki að greiða svona hátt gjald fyrir lóðina nema vegna þess að hann telur að hann komi vel út úr þessu! Þegar hann kemur til með að selja eignina, þá er það ekki kostnaðurinn við bygginguna sem ræður verðinu heldur lögmál markaðarins um framboð og eftirspun og ekki síst væntingar markaðarins.
Það er alveg rétt athugað að ef markmiðið væri það eitt að hámarka hagnað sveitarfélagsins þá er útboðsleiðin mjög góð. Í þessu tilfelli voru markmið Reykjavíkurborgar hins vegar fjölþættari, m.a. um jöfnuð. Núverandi borgaryfirvöld hafa auk þess til þessa gagnrýnt útboðsleiðina sjálf, leitast við að fara aðrar leiðir t.d. í Lambaseli. Gagnrýni mín er þannig ekki á útboðsleiðina sem slíka heldur framkvæmd borgaryfirvalda sama hvaða leið er farin og ekki síst pólítiskt stefnuleysi í lóðaúthlutunum.
Eins og ég sagði áður þá er vaxta- og bankastefna ríkisstjórnarinnar orsök alls ills á fjármagnsmarkaðinum. Bankarnir fá að leika lausum hala, lána eins og þeim sýnist í útlöndum og koma þeim peningum í umferð hér á landi. Þetta hefur nú loksins leitt til þess að lánshæfi Íslendinga hefur fallið erlendis (skrýtið hvað þeir þarna úti eru seinir að taka við sér. Við erum búin að lána langt um efni fram nú um alllangt skeið). Nú sjáum við afleiðingarnar af sölu ríkisbankanna og afskiptaleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart bönkunun. Eða má kannski ekki setja þeim neinar skorður? Eru þetta skrímsli sem eru að vaxa okkur upp yfir höfuð og við getum ekkert bert? Já, blessuð frjálshyggjan á eftir að rústa þessi samfélagi.
“gert”, ekki “bert”, á þetta að vera elskurnar mínar. Og að lokum þetta. Þegar fjármagnsmarkaðurinn er hrunin hjá okkur þá eru helstu frjálshyggjukapparnir búnir að forða sér úr landi með allan gróðann og við hin sitjum uppi með gjaldþrotið.