En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera.
Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.
Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma.
En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum.
En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann.
Hann sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.
Það er auðvelt að missa sjónar á því hver maður er og horfa þess í stað á aðra. Við sjáum þetta í orðum fariseans í 18. kafla Lúkasarguðspjalls: „Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.“ Ég er réttlátur frammi fyrir Guði. Ég á eitthvað, hef eitthvað sem þetta fólk má aldrei fá/getur aldrei fengið, það er ekki þess verðugt.
Við þökkum Guði fyrir að við erum ekki eins og hinir. Ég er gagnkynhneigður, giftur, á tvö heilbrigð falleg börn, það eldra nýorðið 7 ára en strax búin að fá stimpilinn í skólakerfinu að sé duglegt, framúrskarandi námsmaður með mikla sköpunargáfu. Þökkum Guði fyrir að ég er ekki eins og hinir, ég er með milljónir inn á bankabók, get leyft mér að fara með konunni í nám til BNA, án þess að hafa áhyggjur af peningum.
Þökkum Guði fyrir hina. Þá sem minna mig á hvað ég hef það gott, þá sem geta ekki höndlað fjármuni og minna mig á að fara varlega, þá sem glíma við sjúkdóma. Þökk fyrir fátæka fólkið hér í BNA, því það gefur okkur hinum kost á að sýna hversu kærleiksrík við erum, þar sem við stöndum í súpueldhúsinu og skenkjum aspassúpu á disk heimilisleysingjanna. Þökk fyrir þá samkynhneigðu sem minna mig á hvað hjónabandið mitt er frábært, því það er eitthvað sem þeim er ekki ætlað.
En sagan um Týnda soninn snýr þessu öllu við.
Okkur ber að gleðjast með hinum, veita þeim hlutdeild í því sem við eigum. Leitast við að gefa af okkur þann kærleik sem við segjumst hafa öðlast, ekki bara í súpueldhúsinu á miðvikudögum. Tilraunir til að meina öðrum um þær gjafir sem okkur eru gefnar, minna okkur á fýlukast eldri sonarins. Fullyrðingar um að það sem við eigum standi ekki öðrum til boða minna á fariseann í musterinu. Guð forði kirkjunni sem við tilheyrum frá því að hverfa inn í sjálfa sig og ganga synd sjálfhverfunnar á hönd. Guð forði okkur frá því að verða eins og eldri sonurinn sem fer burt í reiði þegar bróðir okkar er tekinn í sátt.
Wow, Elli. Flottur pistill.
“Þökk fyrir þá samkynhneigðu sem minna mig á hvað hjónabandið mitt er frábært, því það er eitthvað sem þeim er ekki ætlað.” Mætti halda að þú hafir komist í þessa predikun áður en presturinn flutti hana, þessa afar “frumlegu” predikun: “Hjónabandið er ekki á allra færi heldur aðeins þeirra sem það er gefið frá Guði. Hverjir eru vanhæfir til hjúskapar frá fæðingu? Getur verið að þar eigi Jesú við þá sem fæðast samkynhneigðir?”
Því miður er það svo að þær hugmyndir og sú framsetning sem ég legg upp með í upphafi textans eru raunverulegar. Það er einmitt þess vegna sem skilaboðin sem Jesú flytur í sögunni um týnda soninn og með umfjölluninni um fariseann og tollheimtumanninn í musterinu eru svo mikilvæg.
Góður pistill, Elli, og gaman að heyra að ykkur líði vel í USA. “Vanhæfur til hjúskapar” úr Mt 19 merkir ófrjór eða sá sem ekki vill eignast börn og fjölskyldu. Engin dæmi eru upp á að gríska orðið geldingur hafi verið notað yfir homma. Eða hvernig ættum við þá að skilja orðin “þeir sem hafa gert sig vanhæfa til hjúskapar vegna himnaríkis?” Ef orðskýring Hjalta væri rétt þá hlyti þetta að merkja “þeir sem hafa komið út úr skápnum vegna himnaríkis”.
Magnús: Þetta er ekki mín orðskýring, ég er ekki með svona fjörugt ímyndunarafl. Þetta eru orð séra Þorvaldar Víðissonar í predikuninni sem ég benti á.