Enn á ný birtast á prenti hugmyndir staðarhaldara á Saurbæ um að breyta hluta sumarbúðanna í Vatnaskógi í frístundabyggð. Þessar hugmyndir komu fyrst fram á aðalskipulagi fyrir 2-3 árum og var strax mótmælt harðlega af Skógarmönnum KFUM. Nú eru hugmyndirnar faldar í texta um breytingar á skipulagi frá 2014. Þannig er jarðvegurinn undirbúin fyrir aðra atlögu að því starfi sem unnið er í Vatnaskógi.
Í huga margra Skógarmanna er hér um að ræða aðför Þjóðkirkjunnar sem slíkrar að starfinu í Vatnaskógi. Starfi sem hefur skilað kirkjunni mörgum frábærum starfsmönnum og verið mikilvægur þáttur í trúaruppeldi íslenskra pilta í 82 ár. Það er enda skiljanlegt að Skógarmönnum finnist þetta aðför þjóðkirkjunnar sem slíkrar. Staðarhaldari á Saurbæ er stjórnarmaður í Prestafélagi Íslands, á bak við hann stendur Prestsetrasjóður með aðsetur á Biskupsstofu og í stjórn Prestsetrasjóðs situr meðal annarra sóknarnefndarformaður stærstu þjóðkirkjusóknar landsins og Kirkjuþingsmaður. Ákvarðanir Prestsetrasjóðs, fjármál og skýrslur eru auk þess teknar til umræðu á Kirkjuþingi sem þannig ber ábyrgð á gjörðum sjóðsins.
Hér er um mikilvægt mál að ræða, leikmannahreyfing innan þjóðkirkjunnar stendur frammi fyrir beinum árásum frá vígðum þjónum hennar og einstökum einingum yfirstjórnar kirkjunnar. Nú er mál að linni, það er ólíðandi með öllu að einstaklingar sem gefa af tíma sínum og fjármunum til að byggja upp ríki Guðs, skuli fá slíkar kveðjur frá vígðum þjónum kirkjunnar.
Hér skortir djörfung til að gefa staðarhaldara á Saurbæ þau skilaboð að svona geri maður ekki. Það er nefnilega lítið gagn í stjórnendum sem geta skammast í samherjum, hrætt þá til hlýðni með hótunum og yfirgangi, en þora ekki að taka með hörku á niðurrifsstarfssemi, eins og þeirri sem á sér stað í Hvalfjarðarstrandarhreppi gagnvart Skógarmönnum KFUM.
Hver á Vatnaskóg?
Sumarbúðir KFUM í Vatnaskógi eru hluti af starfi KFUM og KFUK á Íslandi. Eignarhaldið á stærstum hluta landsins er í höndum Saurbæjarprestakalls, en um miðja síðustu öld var gerður varanlegur leigusamningur, fyrst milli Saurbæjarklerks og Skógræktarinnar og síðan milli Skógræktarinnar og Skógarmanna um afnot Skógarmanna KFUM af landinu til 99 ára gegn ákveðinni eingreiðslu. Núverandi staðarhaldari telur að þessir leigusamningar hafi ekki gildi og hefur af þeim sökum komið ákvæðum um frístundabyggð á hluta landsins í texta um aðalskipulag svæðisins.
Aðför þjóðkirkjunnar að KFUM? Ég veit ekki betur en að prestssetrasjóður hafi staðið gegn hugmyndum sr. Kristins í Saurbæ og að það megi vænta dómsmáls vegna þess. Sr. Kristinn virðist standa tiltölulega einn að hugmyndum sínum um sumarhúsabyggð í landi Vatnaskógs. Ég skil því ekki þessar upphrópanir, nema þá að ætlunin sé að skapa einhver illindi milli KFUM og þjóðkirkjunnar. Samband kirkju og KFUM hefur verið ágætt nú til margra ára, enda fjöldi presta í kirkjunni komin úr röðum KFUM og K. Er ætlunin með þessum skrifum að vekja upp gamlar illdeilur?
Nei, hugmyndin er að hvetja kirkjuyfirvöld til að taka á málinu af krafti og stöðva án tafar þessa vitleysu í sr. Kristni. Vandinn í þessu máli eins og öllum öðrum er að það virðist ganga illa að taka á vandræðaseggjum í prestastétt, sem hegða sér eins og litlir lénsherrar án tillits til þarfa kirkju Krists, án tillits til safnaðanna sem þeir eru kallaðir til að þjóna, en virðast hafa gengist mammon og/eða sjálfhverfunni á hönd. Ef Saurbæjarklerkur kemst upp með að setja þetta í aðalskipulag er það vissulega aðför að KFUM af hendi vígðs þjóns kirkjunnar. Í huga margra KFUM-ara er hegðun sr. Kristins tilraun til að sparka í KFUM og þeim er ómögulegt að skilja af hverju yfirstjórn kirkjunnar getur ekki tekið á málinu.
Hins vegar vissi ég ekki að Prestsetrasjóður hefði staðið gegn sr. Kristni, en það eru vissulega góðar fréttir. Síðast þegar ég vissi voru skilaboð Prestsetrasjóðs ekki mjög eindregin. En það er gott ef það hefur breyst.
Þið eruð nú svo heilagir í eigin augum að krafa um jafnvel eðlilega greiðsla fyrir afnot af stað eins og Vatnaskógi, verður að aðför gegn KFUM. Hvað borgið þið eiginlega fyrir afnotin af Skóginum? Ekkert?
Á sínum tíma sömdu Skógarmenn við þáverandi sóknarprests um eingreiðslu til prestakallsins vegna leigunnar. Sú eingreiðsla var greiðslan fyrir afnot til 99 ára. Skógarmenn hafa ekki tekið fyrir að endurskoða þann samning ef staðarhaldari á Saurbæ getur sýnt fram á ólögmæti upphaflega samningsins. Það hins vegar að reyna að láta breyta aðalskipulagi hreppsins til að ögra og ógna Skógarmönnum er aðför.
Já, þessi samningur sóknarprestsins í Saurbæ og KFUM á sínum tíma hlýtur að teljast vera hæpinn. Hann bindir hendur eftirkomenda sinna um langa frantíð auk þess sem mér skilst að presturinni hafi stungið upphæðinni í eigin vasa! Nú er allt aðrir tímar og komnar reglur um slíka samninga. Rekstur KFUM í Vatnaskógi er orðinn það umfangsmikill að eðlilegt er að taka samning sem þennan til endurskoðunar. Ég veit reyndar ekki um alla málavexti en mér virðist sem KFUM eigi stóra sök í þeirri stífni sem ríkir milli Skógarmanna og núverandi sóknarprests. Af hverju ekki að semja við Prestssetrasjóð og samþykkja eðlilega leigu af starfseminni? Gróðinn af Vatnaskógi ætti að vera það mikill að þið hljótið að geta borgað leigu fyrir aðstöðuna.
Reyndar var í samningnum tekið fram að leigugreiðslan rynni til uppbyggingar á landi prestsetursins en ekki í vasa fyrri prests. Hvað svo gerðist veit ég ekki. Hagnaður af starfsemi í Vatnaskógi undanfarin ár hefur verið lítill sem enginn. Þó mér finnist það ekki skipta neinu máli í þessari umræðu. Stífni milli Skógarmanna og núverandi sóknarprests á sér vissulega sögulegar skýringar og þar eiga Skógarmenn nokkra sök, hins vegar hefur staðarhaldari ekki leitast við að létta andrúmsloftið. En hvað um það, gagnrýni mín er sú að á málinu sé ekki tekið af hendi kirkjuyfirvalda og fært alfarið úr höndum staðarhaldara. Enda virðast hann og Skógarmenn óhæfir til að takast á við málið af sanngirni.