Sum verkefni vekja hjá mér aðdáun og stolt yfir því fólki sem ég mæti í hverdeginum. Þar má nefna umboðsmenn jólasveinanna hjá Skyrgámi. Í dag barst Grensáskirkju bréf frá Hjálparstarfinu þar sem fram kom að þeir félagar afhentu 421.800 krónur til Hjálparstarfs á liðnu ári. Ég man þegar þeir byrjuðu í bransanum og mér fannst hugmynd þeirra um 20% af innkomu til Hjálparstarfs svolítið krútleg. En þegar upphæðin er orðin 421.800 krónur á ári, þá er einfaldlega um alvöruframlag að ræða. Tenging jólasveinaþjónustu Skyrgáms og Hjálparstarfs kirkjunnar er frábær framkvæmd og að 18-19 ára strákar hafi haft frumkvæði að þessari nálgun er dæmi um ferskleika ungs fólks sem er uppbyggjandi og gefandi.
Annað verkefni er Jól í skókassa. Einfalt hjálparstarf, sem kallar á jákvæða þátttöku barna og unglinga, skilgreint verkefni og sjáanlegur árangur eru lykilhugtök. Ungt fólk sem gefur af orku sinni og tíma til að kveikja lítið gleðiljós. Hér er ekki reynt að bjarga heiminum, aðeins að gera hann svolítið betri stað. Ég er glaður yfir að þekkja fólk sem gefur af sér á þennan hátt.
Ferð Dags og Brynjólfs læknanema til Indlands er annað dæmi. Ég þekki þá reyndar ekki, jú og þó, Dagur var í Vatnaskógi hjá mér sem barn og aðstoðaði við að koma Tómasi Inga syni mínum í heiminn. En þarna má sjá annan flöt á frumkvæði ungs fólks og löngun þess til að gera heiminn að betri stað.
Vonandi rekst ég á fleiri frábær dæmi um kraft ungs fólks öðrum til handa á aðventunni.
Ég tek undir þetta. Framtak og frumkvæði er gott og til fyrirmyndar! Flott hjá þér að vekja athygli á þessu.