Formælandi

KEA auglýsir eftir nýjum framkvæmdastjóra um þessar mundir, eins og flestum er kunnugt. Það er gaman að segja frá því að eitt af verkefnum starfsmannsins nýja er að vera “formælandi félagsins út á við...”.

Ég þykist nú ekki vera mikill íslenskumaður en ég hefði haldið að formælandi væri einhver sem annaðist formælingar. Telur stjórn KEA virkilega að það sem þau skorti mest um þessar mundir séu enn frekari formælingar en hafa dunið á þeim síðustu vikur? Telur stjórnin að mælikvarði á árangur fyrirtækja felist í magni formælinga og ástæða sé til að halda áfram því starfi sem unnið hefur verið af stjórnarformanninum?

Það er erfitt að ráða í það hvað KEA leggst til, þegar það reynir að ráða til starfa sérfræðing í formælingum. Auðvitað er hugsanlegt að nú eigi að formæla fyrrum framkvæmdastjóra sem aldrei fyrr.

Óli Gneisti formælir formælendum á vefnum sínum fyrir nokkrum árum og heldur því fram að formælandi sé tæknihugtak og notað í stað orðsins talsmaður. Það á hins vegar ekki við í KEA auglýsingunni, þar sem skýrt kemur fram að nýr framkvæmdastjóri þurfi bæði að koma fram “sem talsmaður og formælandi félagsins.” Ljóst er því að hér er um flókið verkefni að ræða. Enda sé ég fyrir mér Kastljósþátt þar sem helsti formælandi KEA annars vegar og talsmaður KEA hins vegar eigast við um stefnu félagsins.