Bróðir Roger fallinn frá

Bróðir Roger, upphafsmaður Taize-reglunnar í Frakklandi er látinn. Óhætt er að segja að líf og starf hans og félaga í Taize reglunni sé eitt af stórvirkjum kirkjusögunnar á 20. öld. Það sameinandi afl sem fólst í lofgjörð og tónlist Taizereglunnar hefur á undanförnum áratugum haft gífurleg áhrif í kirkjustarfi, sér í lagi hjá ungu fólki í Evrópu.

Andlát Bróður Roger bar að með sorglegum hætti, en á kyrrðarstund á þriðjudagskvöld, réðst að honum einstaklingur og stakk hann ítrekað með hníf. Hann lést fáum andartökum síðar. Það er sérkennilegt að hugsa til þess að andlát hans beri að með þessum hætti. Upphaf Taizereglunnar og æviverk Bróður Roger byggði á því að vinna að sáttargjörð og friði milli allra manna. Upphaf starfsins mótaðist af styrjaldarátökum seinni heimstyrjaldarinnar og klaustrið hóf starf sitt sem miðstöð sáttargjörðar milli einstaklinga að loknu stríði. Því má segja að alla tíð hafi Taize-klaustrið verið vettvangur friðar og sáttar.

Við svona fréttir rifjast upp dvöl mín í klaustrinu fyrir rúmum fimm árum, en ég og Þorsteinn Arnórsson störfuðum í eldhúsi klaustursins í tæpa viku og elduðum þar hádegismat fyrir allt að 2400 manns í góðri samvinnu við pólskan katólskan tannlækni og félaga hans, fermingarstúlkur frá Svíþjóð og þýska stúlku sem stýrði verkum í eldhúsinu. Það rifjast líka upp Biblíulestrar með spænskum trúlausum gítarista, þýskum píetista og strákunum úr bresku hvítasunnukirkjunni, sem deildu því með okkur eitt kvöldið að það væru nú ekki margir í kirkjunni þeirra heima sem vildu syngja einhverja munkatónlist, þegar þeir reyndu að færa kyrrðina úr Taize heim í söfnuðinn sinn. Ég man eftir hindúa sem var að reyna að öðlast skilning á kyrrð kristinna manna og portúgalska taizemunkinum sem svaraði að bragði þegar beðið var um óskalag á kyrrðarstund, að hann væri ekki einhver DJ.

Það er ljóst að andlát bróður Roger er sorgarfrétt fyrir stóran hluta hins kristna heims á sama hátt og dauði Móður Theresu og Jóhannesar Páls páfa II. Bróðir Roger hafði með starfi sínu mótandi áhrif á fjölmarga leiðtoga kirkjunnar á síðustu öld og fram á þessa.

Á vefsíðu bræðrasamfélagsins er þessi bæn:

“Christ of compassion, you enable us to be in communion with those who have gone before us, and who can remain so close to us. We confide into your hands our Brother Roger. He already contemplates the invisible. In his footsteps, you are preparing us to welcome a radiance of your brightness.”

Guð blessi minningu bróður Roger, baráttumanns fyrir betri heimi.