Um helgina náði ég að ljúka við lestur bókarinnar um “Hálfhreinræktaða prinsinn” og var nokkuð skemmt. Greinilegt er að JK Rowling hefur náð að skapa verulega skemmtilegan raunveruleika, þar sem þræðir spinnast saman og rakna upp á fjölbreyttan hátt. Það er samt sem áður óhætt að segja að ferskleikinn í persónusköpun eða lýsingar á ástarmálum ungs fólks eru ekki sterka hlið Rowling, e.t.v. má líkja bókinni við StarWars myndirnar, þar sem leikur og samtöl skipta miklu mun minna máli en umgjörð eða umbúðir.
Hægt er að freistast til að gefa bókinni merkingu, þannig má leitast við að lesa textann með hliðsjón af baráttunni við hryðjuverk. Leggja má út frá því hvernig ráðuneytið telur nauðsynlegt að handtaka einstaklinga og halda í fangelsi, til að sýna fram á árangur í baráttunni við hið illa (lesist hryðjuverk), jafnvel þó augljóst sé að viðkomandi hafi ekkert með illskuna að gera. Slíkur lestur er hins vegar allt að því móðgun við höfundinn. Rowling virðist þegar betur er að gáð, hafa það markmið eitt að skemmta lesandanum meðan á lestri stendur, með glæsilegri umgjörð og vel skilgreindri og einhliða persónusköpun sem auðvelt er að taka afstöðu til. Sem dæmi má taka lýsingar á ævi Voldemort bæta engum víddum við illmennið, en styðja einvörðungu við þá mynd sem við höfðum áður. En burtséð frá því að innri merking sögunnar og dýpt virðist engin, persónusköpun einhliða og frasakennd þá er bókin þrælskemmtileg og ég á eflaust eftir að lesa hana oft. Enda alltaf gaman að fara í ferðalög í flotta skemmtigarða.