Um réttan farveg

Það vakti undrun mína og leiða að deilurnar í Garðabæ skyldu skjóta upp kollinum í fjölmiðlum í vikunni. Í stað þess að leyfa málinu að fara lögformlega leið, kaus sr. Hans Markús að lýsa því yfir að honum væri sama hver niðurstaðan yrði, hann hyggðist ekki hlíta henni. En af hverju þessi læti núna?

i. Það var sr. Hans Markús sjálfur sem valdi að fara leið úrskurðarnefndar, hann kaus að leita eftir bindandi úrskurði og kærði málið þangað.

ii. Það var sr. Hans Markús sjálfur sem valdi að áfrýja málinu til áfrýjunarnefndar. Hvers vegna í ósköpunum valdi hann þessa leið ef hann telur að hún sé ekki lögmæt?

Ég hef heyrt að sr. Hans Markús sé lagður í einelti, einhverjir tala um að sóknarprestar liggi vel við höggi og það er fullyrt að Biskupsstofa sé uppfull af vondu fólki sem hafi ánægju af að meiða sr. Hans. Ég á erfitt með að taka afstöðu til þess því ég þekki ekki hvernig ráðist hefur verið á hann, ég reyndar á líka erfitt með að skilja hvers vegna það ætti að vera.

Hitt er hins vegar ljóst að það var mjög óheppilegt að Fréttablaðið skyldi hafa það eftir sóknarnefndarformanninum í Garðasókn, að þau þyrftu ekki að útvega sóknarprestinum aðstöðu, ef hann yrði rekinn. Auðvitað átti sóknarnefndarmaðurinn að þegja og bíða átekta. Mér skyldist að hann hefði enda dregið mjög úr orðum sínum strax í hádegisfréttum á RÚV sama dag.

Hvað varðar seinkun aðalsafnaðarfundar, þá má vera ljóst að aðalmál þessa fundar verður staða sóknarprestsins. Ályktanir eða niðurstaða aðalsafnaðarfundar breyta hins vegar ekki á neinn hátt vinnu áfrýjunarnefndar sem sr. Hans Markús vísaði málinu til. Það er því eðlilegt að fundinum sé seinkað svo niðurstaða fáist frá áfrýjunarnefnd sem er að fjalla um málið og aðalsafnaðarfundurinn geti tekið á þeirri stöðu sem myndast þegar áfrýjunarnefnd hefur lokið störfum. Þá gefst tækifæri á fundinum til að ákveða viðbrögð við niðurstöðu nefndarinnar.

Allt þetta mál er sorglegt, bréfaskriftir Sveins Andra Sveinssonar síðustu daga og yfirlýsingar í fjölmiðlum eru til þess gerðar að skaða kirkju Krists, valda vanlíðan og kvíða. Þeim er ekki ætlað að hugga, hughreysta eða reisa upp einn eða neinn. Skaðinn er skeður, sr. Hans Markús lagði verk sín í dóm úrskurðarnefndar og síðar áfrýjunarnefndar og treysti þeim til að ljúka málinu og þeirra niðurstaða er ekki komin.

Að rífa í sárin á þann hátt sem nýr lögmaður sr. Hans Markúsar gerir er sorglegt og óhugnanlegt. Vissulega þarf oft að gera erfiða hluti, en þessar yfirlýsingar voru einstaklega ótímabærar. Líkt og fréttin frá sóknarnefndarformanni um skráarskipti.

Hitt vekur athygli mína. Hvers vegna birtir Biskupsstofa ekki á vef sínum ályktanir og fréttatilkynningar um vandræðaleg mál. Að sjálfsögðu á kirkjan.is að vera sá miðill sem fyrstur birtir fréttir frá kirkjustjórninni, en ekki bara sætar og settlegar fréttatilkynningar um daglegt starf.

One thought on “Um réttan farveg”

  1. Það er nú margt við þetta innlegg þitt að athuga Halldór sæll. Fryir það fyrsta virðist Hans Markús ekki hafa staðið fyrir þessum yfirlýsingum heldur auglýsingaglaður lögmaður hans, sjálfstæðismaður og Frammari með meiru! Þá ertu í mótsögn við sjálfan þig þegar þú skrifar um aðalsafnaðarfund. Fyrst það skiptir ekki máli varðandi fundinn hvernig niðurstaða áfrýjunarnefndar verður, því þá ekki að halda hann á réttum tíma? Þessi frestun sóknarnefndar á fundinum bendir til þess að hún sé hrædd um að vera felld á aðalfundi og að málið falli þá um sjálft sig. Í svona viðkvæmu máli á biskupsstofa auðvitað að knýja á um að farið sé að lögum og því skipa sóknarnefndinni að halda aðalsafnaðarfund. Þá skil ég ekki að lögmaðurinn sé að rífa í einhver sár. Hann er m.a. að gagnrýna biskupsstofu. Er kominn tími á að hún fái ofanígjöf fyrir ófaglega framkomu í þessu máli, sem reyndar er ekki eina málið sem hún hefur komið óeðlilega að …

Comments are closed.