Ég tók ákveðið til orða í máli mínu um ráðstefnu Glímunnar og fleiri um viðskiptasiðferði. Ég gaf mér tíma í gærkvöldi til að lesa innlegg Halldórs Reynissonar og Gylfa Magnússonar. Þriðja innleggið eftir Þröst Ólaf Sigurjónsson er hins vegar ekki þess virði að vísað sé á það á annálnum mínum.
Þegar ég les innlegginn þá verður að viðurkennast að þau eru mikið mun betri en framsögurnar á ráðstefnunni. Hvort síðan pallborðið verður betra við að komast á netið verður hins vegar tíminn að leiða í ljós.
Bæði Halldór og Gylfi fara þá leið að fjalla á jákvæðan hátt um þá þróun sem orðið hefur, Halldór leggur reyndar áherslu á mikilvægi eftirlitsstofnanna en með því fororði að betra væri að fyrirtækin finndu hjá sjálfu sér að leggja sér lífsreglur:
Samt held ég að hin eina rétta siðferðilega afstaða þeirra sem í fyrirtækjarekstri standa sé það sem ég vil nefna siðferðilegur sjálfsagi. Að setja fram með jákvæðum hætti þau siðferðisgildi og siðareglur sem hluthafar vilja að fyrirtæki sín standi fyrir, sitt „Credo“ í siðferðisefnum, eins og sum fyrirtæki hafa reyndar gert. Það hlýtur að vera betra siðferði að leita sjálfur hins góða en vera ekki tilneyddur til þess af varðhundi sem passar að maður fremji ekki fólskuverk.Samt held ég að hin eina rétta siðferðilega afstaða þeirra sem í fyrirtækjarekstri standa sé það sem ég vil nefna siðferðilegur sjálfsagi. Að setja fram með jákvæðum hætti þau siðferðisgildi og siðareglur sem hluthafar vilja að fyrirtæki sín standi fyrir, sitt „Credo“ í siðferðisefnum, eins og sum fyrirtæki hafa reyndar gert. Það hlýtur að vera betra siðferði að leita sjálfur hins góða en vera ekki tilneyddur til þess af varðhundi sem passar að maður fremji ekki fólskuverk.
Þessar hugmyndir um sjálfseftirlit hafa verið áberandi í málflutningi hægri manna um langt skeið. Hér hefði verið spennandi fyrir guðfræðing/siðfræðing að velta upp spurningum um raunverulega getu fyrirtækja til að hegða sér móralskt. Spurningum sem er velt upp og svarað neikvætt í heimildarmyndinni Corporations.
Meðan Gylfi leggur áherslu á einhliða jákvæða þróun, vísar til erlendra rannsókna og veltir upp hvort þátttaka í stjórnmálaflokkum sé e.t.v. einn helsti dragbítur á gott siðferði í viðskiptum, þá bendir Halldór á fleiri varnagla:
Svo virðist sem þessi ummæli [Páls Pálssonar forstjóra Fjármálaeftirlitsins] sýni að það markmið að skapa hér gagnsæjan hlutafjármarkað með aðild almennings hafi að einhverju leyti mistekist og í staðinn hafi orðið hér til tiltölulega fámennar eignablokkir sem leitist við að fela slóð sína.
Eins varpar Halldór fram gagnrýni á litla félagslega ábyrgð fyrirtækja sem reyndar má velta fyrir sér hvort eigi við rök að styðjast, enda hefur þátttaka fyrirtækja í ýmsum samfélagslegum verkefnum aukist mjög undanfarin ár, þó eflaust megi gera betur.
Í máli Gylfa er megináhersla lögð á mikilvægi trausts í viðskiptum milli manna, hann kemst að þeirri niðurstöðu að traustið sé grundvöllur góðra viðskipta og hlutverk samfélagsins sé að mynda umgjörð þar sem ríkir traust milli viðskiptaaðila. Félagsauður samfélagsins felist e.t.v. hvað helst í því að þar séu stofnanir sem tryggi heiðarleika í viðskiptum og auki þannig traust milli manna. Hér sakna ég þess að rætt sé um þriðja aðilann í viðskiptunum. Þann sem viðskiptin hafa áhrif á, þó hann eigi ekki þátt í þeim. Hér hefði verið áhugavert að ræða um hvort traust í viðskiptum þurfi að ná víðar en til þeirra sem handsala “bisnessinn”.
Aðrir áhugaverðir fletir á umræðu um viðskiptasiðferði sem ekki voru ræddir hefðu getað legið í heimildum ráðandi eigenda í fyrirtækjum til að styrkja góðverk/gæluverkefni með peningum fyrirtækisins. Sér í lagi er þessi spurning spennandi ef öðrum eigendum er erfitt um vik að losa sig út úr fyrirtækinu vegna þess að ráðandi atferli ráðandi eigenda hefur gjaldfellt fyrirtækið.
Það hefði verið áhugavert að ræða um vandann sem felst í því að hagsmunir stjórnenda fyrirtækja annars vegar og eigenda hins vegar fara sjaldan saman hvað varðar tíma-ás. Þetta er sér í lagi spennandi í ljósi orða Halldórs um að ef hugsað er til skamms tíma borgi sig e.t.v. ekki að vera heiðarlegur, en það borgi sig líklega til langs tíma. Þegar um er að ræða árangurstengda bónusa hjá stjórnendum er viss hvati hjá þeim að hugsa fyrst og fremst til skammtímahagnaðar (5-7 ára), meðan að fjárfestar hugsa oftast nær til lengri tíma. Myndast e.t.v. gap hvað varðar hugmyndir stjórnenda og eigenda um hvernig eðlilegt sé að fyrirtæki hegði sér?
Í bók sinni Moral Man and Immoral Society veltir Reinhold Niebuhr upp þeirri hugmynd að náð sé ónothæft hugtak til að nota um atferli samfélaga, einungis sé hægt að óska eftir réttlæti. Enginn stjórnandi samfélags hafi heimild til að bjóða fram náð í nafni annarra. Ef við tökum þessa hugmynd áfram í umfjöllun um fyrirtæki þá virðist vera ljóst að náðin á alls ekki við, réttlætið virðist í andstöðu við kröfuna um optimum arðsemi, alla vega sú hugmynd sem ég hef um réttlæti, svo eftir stendur spurningin um hvaða siðferðislegu hugtök/mælikvarða má kalla eftir hjá fyrirtækjum. Það er eiginlega sú spurning sem ég hefði viljað sjá kappana á Grand Hótel glíma við.
Spurningar um viðskiptasiðferði eru margar og spennandi. Því miður er oft auðveldara að tala um breytingar og þróun á liðnum árum, en að glíma við raunverulegar gátur. Vonandi að glíman við gáturnar komi í kjölfar þróunarumræðunnar.
(Hér er leitast ég við að varpa fram þönkum mínum í kjölfar ráðstefnu/málþings um viðskiptasiðferði. Ég áskil mér rétt til að eyða öllum ummælum sem ég tel að sé ekki ætlað að halda þönkum mínum áfram, bregðast við þeim eða gagnrýna innihald þeirra.)
Takk fyrir þennan pistil. Hann vekur upp spurningar. Sérstaklega um hagsmuni eiganda – stjórnanda – starfsmanns – síðast en ekki síst kúnnans! Sumir segja að það sé í lagi að svindla á ríkinu, en um leið og fólk og fyritæki eru farin að svindla á hvert öðru eða “jafningjum” þá sé farið yfir línuna…