Tölfræði í tilefni jólanna

Ég hef í höndunum hefti frá Ensku Biskupakirkjunni með tölfræði sem getur verið gott að grípa til og minnir á hver raunveruleg staða kirkjunnar er.

Af tæplega 2 milljörðum kristinna manna í heiminum voru 94% skilgreindir í ákveðna kirkjudeild. Hins vegar mættu einvörðungu 1,36 milljarðar í messu einu sinni eða oftar á síðasta ári.

Í Bretlandi eru 35.000.000 kristinna. Af þeim eru rétt um 25 milljónir sem eru skírðir í Ensku Biskupakirkjuna sem börn en taka ekki virkan þátt í kirkjustarfi. Þá á það einnig við um nokkurn fjölda kaþólikka og annarra kirkjudeilda. Heildarfjöldi þeirra sem eru virkir í kirkjustarfi á Bretlandi eru 5.920.000 og fækkar um 270 manns á dag, eða um því sem næst 1,6% á ári. Þátttaka barna í sunnudagastarfi kirkjunnar minnkar jafnvel enn hraðar, en á árabilinu 1989-1998 fækkaði börnum í sunnudagastarfi að jafnaði um 1000 á viku.

Þrátt fyrir þessa litlu þátttöku skilgreina 31% Breta sig sem andlega þenkjandi (e. Spiritual) og önnur 27% sem trúarlega þenkjandi (e. Religious). Þetta er áhugavert t.d. í ljósi þess að 22% þeirra sem yfirgefa kirkjuna telja að hún sé ekki í tengslum við daglegt líf þeirra.

79% þeirra sem sækja kirkju reglulega í Bretlandi segjast (breytt, sjá athugasemd) hafa áhyggjur af fátækt í þriðja heiminum, en einvörðungu 51% þeirra sem ekki sækja kirkju reglulega (breytt, sjá athugasemd). Eins er þátttaka þeirra sem búa á vel stæðum svæðum (e. Highly prosperous) meiri í kirkjustarfi en þeirra sem búa á þeim svæðum sem verr eru stödd (e. Coalfields).

Í Bandaríkjunum er mesti fjöldi gyðinga í einu landi, 5,6 milljónir. Á eftir þeim kemur Ísrael en þar eru 4 milljónir gyðinga. Heildarfjöldi gyðinga í heiminum er um 14 milljónir, þannig að í BNA er 40% af öllum gyðingum í heiminum. Þá eru flestir kristnir í einu landi staðsettir í BNA, 236 milljónir eða tæplega 12% af öllum kristnum mönnum.

8 thoughts on “Tölfræði í tilefni jólanna”

  1. Smá athugasemd við orðalag (og þankagang)

    79% þeirra sem sækja kirkju reglulega í Bretlandi segjast hafa áhyggjur af fátækt í þriðja heiminum, en einvörðungu 51% þeirra sem ekki tilheyra kirkjunni.

    Ég tel að feitletraða orðið sem ég stakk þarna inn skipti höfuðmáli. Finnst nefnilega eins og ég hafi lesið um kannanir sem sýndu að trúlausir voru líklegri til að styrkja fátæka úr eigin vasa en trúaðir – en það gæti bara verið einhver óskhyggja í mér 😉

  2. Ég mótmæli ávirðingum Matta Á, um að athugasemd hans hafi eitthvað með þankagang minn að gera. Hins vegar er ábending hans góð og við yfirlestur tók ég einnig eftir að orðið “tilheyra kirkjunni” var sett inn í textann þar sem átti að standa “sækja kirkju reglulega”.

  3. Varðandi síðari ábendingu Matta Á, þá held ég að það blasi við að fólk sem tekur meðvitaða lífsafstöðu er líklegra til að vera félagslega virkt.

    79% þeirra sem sækja kirkju reglulega í Bretlandi segjast (breytt, sjá athugasemd) hafa áhyggjur af fátækt í þriðja heiminum, en einvörðungu 51% þeirra sem ekki sækja kirkju reglulega (breytt, sjá athugasemd).

    Þessari setningu er ætlað að varpa ljósi á þá staðreynd, ekki það að kristnir séu á einhvern hátt betri en aðrir. Upphaflega setningin fyrir breytingar var hins vegar meingölluð.

  4. Hér átti ég frekar við almennan þankagang heldur en þinn, gerði ráð fyrir að þú værir þarna að vitna í texta eftir aðra. Það er nefnilega afar algengur misskilningur að trúað og kirkjurækið fólk sé almennt “betra” en annað fólk.

  5. Bara til þess að flækja málin örlítið, er það ekki svo að fólk sem tekur þátt í skoðanakönnunum er líklegra til að segja ekki satt eða a.m.k. fegra sig á meðan að skoðankönnunin fer fram en fólk sem gerir það ekki? (Frjálsleg túlkun mín á aths. Douglas Adams í Salmon of Doubt.) Varðandi síðustu aths. Matta Á þá er velþekkt klisja í kirkjukreðsum svohljóðandi: Aumir þjónar erum vér.

  6. það ekki svo að fólk sem tekur þátt í skoðanakönnunum er líklegra til að segja ekki satt eða a.m.k. fegra sig á meðan að skoðankönnunin fer fram en fólk sem gerir það ekki

    Ég veit ekki um það, en ég man eftir að hafa lesið að kirkjusókn miðað við skoðanakannanir er miklu meiri en raunveruleg kirkjusókn, mun fleiri segjast fara í kirkju en raunverulega gera það.

  7. Ég held að það sé rétt Carlos, en það ætti að ganga jafnt yfir bæði kirkjugangara og hina. Báðir aðilar ættu að vilja fegra sinn hlut. Nema feluþörf sannkristinna sé meiri en annarra. ?? Varðandi aukna kirkjusókn í skoðanakönnunum þá segja þessi orð mikla sögu

    … Á hinn bóginn er svarhlutfall lágt. Hættan gæti verið á því að þeir sem eru jákvæðir gagnvart trú og trúmálum hafi fremur tekið þátt en hinir.

Comments are closed.