Ég hef á stundum heyrt/lesið gagnrýni á RÚV fyrir að útvarpa trúarlegu efni, s.s. morgunbænum, orði kvöldsins og síðast en ekki síst guðsþjónustum á sunnudögum. Reyndar hélt ég að þetta væri ekki raunverulegt vandamál því enginn hlustaði en ég hef heldur betur kynnst því síðustu daga að alla vega einhverjir hlusta.
Þannig er að undanfarna daga hefur hvers kyns fólk, aðallega þó yfir fimmtugu gengið að mér og þakkað fyrir orð mín kvöldið áður. Þetta á við um kvenfélagskonur, vélstjóra á eftirlaunum, fyrrum bankastjóra og sendiherra svo einhverjir séu nefndir. Það sem meira er, þá virðist þetta fólk setja sig niður við útvarpið fyrir svefninn til að hlusta. Það hefur skoðanir á því sem lesið var og getur rætt textann daginn eftir.
Með öðrum orðum, þessi dagskrá sem er í nánum tengslum við húslestra og hefur augljóslega menningarlega tilvísun, virðist líka virka sem áhugaverður dagskrárliður sem fólk leitast við að hlusta á. Út frá sjónarmiði markaðsfræðinnar og hlustunarþarfar útvarpsstöðva á þessi dagskrárliður augljóslega tilverurétt.
Reyndar er sá fyrirvari á markaðslögmálunum að fólkið sem hlustar, eru ekki mjög virkir neytendur og því e.t.v. ekki fjárhagsforsendur til að þjónusta hann.
Mér finnst nú lágmark að opinberir sjóðir séu ekki notaðir til þess að mæra hatursrit, þó svo að það sé reynt að einblína á góðu kaflana. Einfaldara væri að slepapa því að tala um bókina og tala um góðu hlutina út frá veraldlegu sjónarhorni (líka þekkt sem raunveruleikinn). Það eru td einhverjir nasistar á Íslandi sem að hefðu vafalaust gaman af því að hlusta á útleggingar á Main Kampf en varla ætti RÚV að halda þannig þætti út.
Það er sama hvernig við lítum á kristindóminn hann er mótandi þáttur í íslenskri menningu allt til þessa tíma. Einhverjum hluta almennings finnst mikilvægt að hlusta á boðskap kirkjunnar bæði af menningarlegum ástæðum og hugsanlega trúarlegum. Það er eðlilegt. Ég veit ekki betur en að ýmsar kenningar og skoðanir séu kynntar í Ríkisútvarpinu og ekkert að því. Hvers kyns skoðanir eiga einmitt rétt á sér í Ríkisútvarpinu vegna þess að það er fjármagnað af opinberum sjóðum. Hvort sem það er messuhald, bænakall múslima, umfjöllun um kenningar Hitlers, Nietsche, Plató, Machiavelli eða hvers annars sem er. Um leið og hópur besservessera birtist og fer að ritskoða hvað er eðlilegt og hvað ekki, þá endum við í fasistaríkinu sem Hitler boðaði. Hættan felst ekki í að skoðanir séu kynntar, ræddar og boðaðar, heldur að skoðanir séu bannaðar.
“Það er eðlilegt.” Hvað er eðlilegt? Það er enginn að tala um að banna skoðanir eða umræður um ýmis málefni á RÚV. En það er himinn og haf á milli þessa hérna:”morgunbænum, orði kvöldsins og síðast en ekki síst guðsþjónustum á sunnudögum.” og vitrænni umræðu eða “kynningu á skoðunum”. Vonandi sérðu muninn. ps. stafsetningarvilla, átti að vera Mein Kampf
Er þá ekki kominn tími til að því linni? Eða ætlarðu að beita hefðarrökunum til að réttlæta áframhaldandi forheimskun? Það er tvennt ólíkt að kynna skoðanir og heimsmyndir í útvarpi eða boða þetta sama. Stór munur. Sjálfur talarðu um umfjöllun um kenningar Hitlers en ekki að hugmyndir hans séu boðaðar. Sérð virkilega ekki muninn?
Ég sé mun á umfjöllun, kynningu og boðun. Ég tel hins vegar að allar kenningar sem ekki stríða gegn almannahagsmunum megi boða í ríkisútvarpi sé til staðar fólk sem vill boða þær kenningar. Reyndar tel ég að útleggingar á Mein Kampf séu vel innan þess ramma. Ég er hins vegar ósammála að hefðarrökin séu neikvæð, þó ég geti tekið undir að þau standa vart ein og sér. Með öðrum orðum ef hefðir hafa jákvæða þætti í för með sér, almenna vellíðan fólks, öryggi í ótraustum heimi eða taka þátt í að auka kærleik milli fólks, þá eru þær hefðir til góðs. Þessa þætti tel ég að kristin trú innihaldi.
Ég er að sjálfsögðu ekki sammála því, eins og sést á grein minni Hefðarökvillan:
Það má sem sagt boða skoðanir í útvarpinu án nokkurrar gagnrýni. Þá hefurðu líklega ekkert við það að athuga ef að RÚV hefði þætti eins og “Ávarp formanns Nasistafélags Íslands” og “Sannleikur Nasismans” á dagskrá. Nema þá að þú viljir banna boðun þessara skoðunar.
Stríðir boðun þessara manna gegn alsherjarreglu þeirri sem haldið er á lofti í stjórnarskránni?
Mér er skapi næst að stofna pseudo-nazistaflokk og gera kröfum um að fá nokkra klukkutíma í viku á RÚV til að flytja nazísk ávörp og erindi um „dýrð“ þessa hugmyndakerfis. Heldurðu í alvöru að útvarpsráð myndi samþykkja það? Heldurðu í alvöru að þjóðin myndi sitja þegjandi yfir því? Útvarpsmessur og orð kvöldsins er af nákvæmlega sama toga. Fyrir marga þá sem ekki eru kristnir hljómar þetta dót jafnvel meiðandi, svo afkáralegt og forheimskandi sem þetta nú er. Allt öðru máli myndi gegna um málefnalega kynningu og umræðu um þetta hugmyndakerfi. „Við nazistar teljum að…“ er allt annar hlutur en „Heil Hitler”“
Ég er þó viss um að ef ég flytti þrumandi nazíska ræðu í útvarpið, þar sem ég hvetti til útskúfunar Gyðinga, kæmu örugglega einhverjir, sennilega yfir áttræðu, til mín og þökkuðu mér fyrir. Það kæmu kvenfélagskonur, vélstjórar og jafnvel fyrrum bankastjórar. Myndi það réttlæta áróðurinn?
Birgir, og þá gerir þú það. Ekki skal ég stöðva þig. Í því felst frelsið til að aðhyllast hugmyndafræði og trú hér á þessu landi. Þú mátt stofna félög svo lengi sem þau stríða ekki gegn alsherjarreglu. Ég ræð engu á RúV þannig að þú átt það við þá.
Ég var ekkert að tala um að banna mönnum að stofna félög. Við erum hér hins vegar að ræða svokallað neikvætt trúfrelsi, að menn hafi rétt til að vera í friði fyrir boðunaráreiti, nema þeir leggi sig sjálfir eftir því. Það eru til tvær aðferðir handa þeim sem vilja boða kristna trú. Önur er málefnaleg (kynning) en hin ekki (boðun). Til þess að hafa rétt til að boða eitthvað sem sannleika á almennum vettvangi ættu menn að þurfa að geta sýnt fram á virkni og réttmæti þess sem þeir boða. Að öðrum kosti ætti að líta á það sem bábiljur og koma í veg fyrir að saklaust fólk þurfi að verða fyrir áreitinu án þess að það hafi beðið um það. Haldið kynningarfundi, ræðið trúmál málefnalega í útvarpinu eða stofnið eigin boðunarútvarpsstöð. Bara svo lengi sem þið haldið boðuninni aðeins að þeim sem súpa vilja sjálfviljugir upp úr þeim brunni.
Hér er hins vegar ekki aðeins einfaldlega um boðun að ræða. Útvarpsefnið sem um ræður hefur jafnframt sögulegt og menningarlegt gildi. Eins er ljóst að boðun hugmyndakerfa er ekki einvörðungu fólgið í fyrirfram skipulögðum þáttum. Telur þú Birgir, að ríkisútvarpið ætti að banna flutning á lögum eins og Deus lagi Sykurmolanna, stórum hluta tónsmíða Marylin Manson og hugsanlega Heiðu og Heiðingjanna þar sem í tónlist þeirra og/eða nöfnum tónflytjenda felst ákveðin afstaða/ákveðin boðun sem gæti stuðað nánasta umhverfi sitt.
Hehe, já það kæmi alveg til greina að banna þetta dót, ef menn geta ekki sýnt fram á réttmæti þess sem þeir boða. Því miður fyrir þig þá eru reyndar ótal rök fyrir því að fullyrðing Sykurmolana sé rétt, öfugt við það sem þið boðið í Þjóðkirkjunni 🙂
Koma nú fjárans hefðarökin aftur. Sjáðu til: Þegar kirkjan hætti að brenna fólk á báli hefðu eflaust einhverjir geta mótmælt því á þeim forsendum að brennurnar hefðu sögulegt og menningarlegt gildi. Í dag erum við hins vegar sammála um að þetta skref kirkjunnar hafi verið framfaraskref. Og eftir kannski 50 ár verða menn búnir að sammælast um að það hafi verið framfaraskref þegar kirkjan hætti að þröngva afkáralegum hindurvitnum upp á saklaust fólk í Ríkisútvarpinu. Kannski mun það þykja fáheyrt eftir nokkur ár að slíkt hafi tíðkast, hvað þá að farið hefði fram trúboð inni í opinberum skólum og leikskólum. Horfðu á hið víða samhengi, Halldór. Kirkjan hefur ekki það sem sannara reynist, heldur það sem henni finnst hljóma betur. Að halda því síðan að alþýðu manna sem sannleikur væri er í raun tilræði við skynsemi og þekkingu þá sem við þó höfum öðlast. Þetta eru menningarleg hryðjuverk.
En svo er annar flötur á þessu. Í orði kveðnu er nefnilega fallegast ef algert tjáningarfrelsi myndi ríkja og allir geti boðað hugsjónir sínar. Með ágætum rökum má halda því fram að málflutningurinn dæmi sig sjálfur og betra sé að hafa hann uppi á borðum en ekki, handa fólki að meta hann. En það gengur þó ekki upp nema frjáls málefnaleg umræða geti farið fram í hvert einasta skipti sem eitthvað er boðað. Slíkt er ekki raunin þegar þjóðkirkjan á í hlut, þar ríkir einhliða innræting í flestum tilfellum. Gætirðu hugsað þér að viðstaddir hefðu skýlausan andmælarétt í hvert sinn sem prestur hefur upp raust sína í kirkju? Og myndirðu fallast á það líka að ekki gangi að boða eitt né neitt fólki undir lögaldri, því það hafi ekki vitrænar forsendur til skoðanaskipta um nokkurt mál? Ég gæti fallist á slíkt fyrirkomuleg. Að ekki megi boða neinum undir 18 ára neitt og að andmælarétturinn sé ætíð virtur.