Sú stórundarlega ákvörðun Landssímans að fjárfesta í Skjá Einum, hlýtur að teljast enn merkilegri en ella, þar sem verið er að undirbúa sölu á Símanum sjálfum. Í stað þess að reyna að fækka óvissuþáttum og auka sýnileika vörunnar, er gengið í hina áttina. Þess utan er tekin óbærileg áhætta, sem tengist yfirvofandi lagasetningu um eignarhald á fjölmiðlum.
Ef stjórn Símans hefur sömu upplýsingar og ég um fyrirhugaða lagasetningu og sölu Símans, er ljóst að þau sem þar sitja eru óhæf, hafa ekki hagsmuni hluthafa í forgrunni og ættu með réttu að víkja sæti. Enda ekki ósennilegt að verðmæti fjölmiðlafyrirtækja dali nokkuð ef markaðsráðandi aðilar eiga ekki lengur kost á að kaupa þau.
Ef þau hins vegar búa yfir meiri upplýsingum en ég, sem er ekki ósennilegt. Þá liggur ljóst fyrir að þau búa yfir óopinberum innherjaupplýsingum annað hvort af þingi eða af fjármálamarkaði. Slíkar upplýsingum er þeim ekki siðferðislega stætt á að notfæra sér í þágu fyrirtækis síns. Hluthafar ættu því að láta slíka stjórnendur víkja án tafar, enda skaða slík misnotkun upplýsinga fyrirtækið til lengri tíma, þó skammtímahagnaður gæti orðið einhver.
Ef um er að ræða fjárfestingu til að styrkja stöðu Skjás Eins í samkeppni við Norðurljós án væntinga um fjárhagslegan ávinning Símans er um að ræða misnotkun á eignum hluthafa og þá ættu einnig stjórnendur að víkja.
Þannig að Sturla og Geir, ef þið lesið þetta, áminnið stjórnina harkalega. Finnið út hvað raunverulega liggur að baki þessara kaupa og bregðist við í samræmi við það. Stjórnarfólk Símans og stjórnendur fá háar launagreiðslur frá fyrirtækinu og full ástæða til að krefjast þess að allar ákvarðanir séu fyrir opnum tjöldum meðan ríkið á jafn stóran hlut og raun ber vitni.
E.s. Ég hef nokkra reynslu af rekstri semi-opinberra félaga og er á lausu í stjórn Símans.
Heldurðu ekki að kaupin geti greitt fyrir sölu Símans? Hin „óbærilega áhætta“ sem þú nefnir svo fjálglega er orðin býsna bærileg eftir vel heppnaða áróðursherferð Norðurljósa, sem fullkomnaðist með forsetasynjuninni. Símanum verður a.m.k. ekki kennt um að brjóta lög. Þetta er hægt. Hvaða upplýsingar hefur þú um „fyrirhugaða lagasetningu“ sem aðrir hafa ekki?
Það liggur ljóst fyrir að skipaður verður starfshópur til að vinna að nýjum lögum um eignarhald á fjölmiðlum. Það var tilkynnt í lok látanna í sumar. Áhættan er því verulega mikil á að eignarhaldi fjölmiðla verði settar skorður í nánustu framtíð.