Hafa játningar þýðingu í dag?

Það er áhugaverð spurningin sem vaknar við mál Thorkild Grosbøll “fyrrum” sóknarprests í Taarbæk.

Í þjóðkirkju sem er ætlað að :

  • vera kröftug og lifandi hreyfing fólks sem á samleið í trúnni á Jesú Krist.
  • vera sýnilegt, litríkt og vaxandi samfélag sem vekur og nærir kristna trúariðkun og andlegt líf.
  • mæta sérhverri manneskju þar sem hún er stödd á lífsleiðinni, veitir liðsinni og skjól.
  • vera vettvangur samtals í þjóðfélaginu um þýðingarmikil málefni í ljósi kristinnar trúar og siðferðis.
  • virkja fólk í starfi sínu og eflir það til þjónustu við Guð og náungann.

Hafa þá skilgreindar trúarjátningar eitthvert gildi? Er slík kirkja ekki opin fyrir hvers kyns jaðartúlkunum? Er ekki rúm fyrir trúað- og trúlaust starfsfólk, eða alla vega guðlaust starfsfólk? M.ö.o. ef kirkjunni er ætlað að vera vettvangur kyrrðar og friðar skiptir þá máli hvað er boðað þar, svo lengi sem það inniheldur kyrrð og frið.

Án þess að ég hafi kynnt mér kenningar Thorkild vel, eða nýtt tækifærið þegar ég bjó á viskýbeltinu og sótt messu til hans, þá sýnist mér fljótt á litið að Thorkild geti tekið undir framtíðarsýn þjóðkirkjunnar á Íslandi eins og hún er sett fram hér. Hann virðist líta á kirkjuna sem vettvang fyrir samfélag og trúarlíf í víðum skilningi. Sóknarbörnin taka undir með honum.

Afleiðingin er sú að Folkekirken neyðist til að vega mikilvægi játninganna. Danska kirkjan þarf að svara hvort hún metur meira, þá játningabundnu trú sem kirkjan segist boða eða kirkjuna sem samfélagslegt afl sem býður upp á kyrrð og frið.

Einhvern tíma þarf þjóðkirkjan á Íslandi að svara sömu spurningu.

3 thoughts on “Hafa játningar þýðingu í dag?”

  1. Ég er sammála þér að það er nokkuð opin sýn sem kemur fram í þessum setningum, en þær ber þó að lesa í samhengi annars sem stendur í stefnuskjalinu. Annars velti ég fyrir mér hvort Folkekirken gæti ekki tekið undir þessa framtíðarsýn líka? Einnig hvort málið snúist e.t.v. um það á hvaða grunni svona framtíðarsýn stendur og hvað er átt við með yrðingum eins og „trúnni á Jesú Krist“, „kristinni trú“ og „Guð“?

  2. Ég tek undir með þér. Hins vegar sýnist mér að Stefnumótunarplaggið sjálft sé í heild mjög opið og þar er hvergi vísað til þess að þjóðkirkjan sé lúthersk kirkja, hvað þá evangelísk. Hvergi er vísað í játningar kirkjunnar og umfjöllun um trúarleg sannindi er mjög yfirborðskennd.

    …yrðingum eins og „trúnni á Jesú Krist“, „kristinni trú“ og „Guð“.

    Slíkar yrðingar eru næsta marklausar án vísunar til sögu, hefðar eða kenningar. Engar markvissar slíkar vísanir er að finna í ofangreindu plaggi. Hér er samt rétt að taka fram að ég tel stefnumótunarvinnu kirkjunnar hafa verið gagnlega og margt í hana að sækja.

  3. Leiðrétting: Þrátt fyrir að í stefnumótunarplagginu eins og það birtist á netinu sé ekki vísað til þess að þjóðkirkjan sé lúthersk kirkja, hvað þá evangelísk. Þá er það gert í prentaðri útgáfu skýrslunnar sem barst mér í pósti í dag.

Comments are closed.