Ég stóð við moltuhauginn með skófluna í gær þegar góður maður sagði mér að hann þyrfti að heyra í prestinum fljótlega. Það væri ólíðandi hvað þeir væru byrjaðir að tjá sig pólitískt. Þeir yrðu að átta sig á því að í söfnuðinum væri fólk úr öllum flokkum.
Ég hef heyrt svipaðar raddir áður. Ég minnist skólafélaga úr MR sem var á því að kirkjan væri vettvangur kyrrðar í annríki daganna. Um leið og kirkjan færi að tjá skoðanir myndi hún missa tilgang sinn. Annar skólabróðir minn úr Menntaskólanum sá kirkjuna sem “íhald per exelence í samtali okkar fyrir nokkrum mánuðum. Hlutverk kirkjunnar er að samþykkja síðust. Hún á að berjast gegn hjónaböndum samkynhneigðra, bregðast hart við sjálfsvígum og fóstureyðingum. Hvorugur þessara skólafélaga minna mætir til kirkju. Þeir hafa samt sem áður sterkar skoðanir, hvor í sína átt og vilja kirkjunni vel. Þess vegna sjá þeir ástæðu til að ráðleggja mér (enda sá eini sem þeir þekkja sem er nátengdur kirkjunni).
Það er spennandi að tilheyra kirkju sem allir hafa væntingar til, skoðanir á. En það getur verið erfitt. Við moltuhauginn er kvartað undan Erni Bárði, en á sama tíma er annar hópur sem hrópar: Hvernig getur kirkjan staðið hjá?
Í stefnumótunargögnum kirkjunnar má lesa út að kirkjan hyggst vera
…samfélag og hreyfing sem nærist á orði Guðs, vex og dafnar í kærleika Krists og mætti heilags anda er knýr hana til góðra verka. Þessi megináhersla hefur áhrif á alla aðra þætti í stefnu hennar.
Í þessum orðum felst lítið spámannlegt ákall eftir réttlæti. Þetta er áhugavert í ljósi þess að í SVÓT-greiningunni kemur fram að:
Rúmur helmingur [athugasemdanna um boðun] fjallar um samræðu við samtímann. Þar er krafa um að kirkjan taki sér stöðu með þeim sem minna mega sín, tjái sig um siðferðilega álitamál, eigi samstarf við aðra trúarhópa, tali skýrt gegn klámi, stríði og í álitamálum er varða umhverfið. (Sjá nánar: http://www.kirkjan.is/stefnumotun/?meira?id=17)
Að lokum
Í mínum huga er ljóst að þessi setning á ekki mörg ár eftir:
Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Þess vegna er þjóðkirkjunni nú sem aldrei fyrr mikilvægt að marka sér raunverulega stefnu. Ætlar þjóðkirkjan að vera spámannleg kirkja sem kallar eftir réttlætinu, er kirkjunni ætlað að vera vettvangur kyrrðar (og þagnar) og/eða kirkja hinna íhaldsömu gilda? Viljum við kannski vera allt þrennt og glíma áfram við óánægjuna við moltuhauginn?
Góðar hugleiðingar Elli. Sjálfur hef ég brotið um þetta heilann talsvert. Arfleifð Þóris heitins Kr. er sumpart lifandi – þessi spámannlega vídd – og auðvitað er fráleitt ef kirkjan lætur eins og ekkert sé á seyði í kringum sig. En er þessi “samræða við samtímann” ekki sömu lögmálum háð og annað spjall? Menn þurfa að geta gagnrýnt, ekki síst vini sína og vandamenn, spurningin er bara hvernig það er gert. Með sama hætti þurfa prestar að vera varkárir þegar þeir gagnrýna ráðamenn og ákvarðanir þeirra! Svo má ekki heldur gleyma því að predikun er einræða – pólitík samræða. Það nær náttúrulega ekki nokkurri átt að flytja pólitískan pistil yfir messugestum sem standa svo bara upp í lokin og taka mót postulegri kveðju! Ef menn vilja ræða póltík í kirkjunni er nær að gera það eftir messu – og leyfa þá fólki að segja sína skoðun!