Ólafur [breytt] neitaði að skrifa undir breytingar á lögum nr. 53 frá árinu 2000 og lögum nr. 8 frá 1993 í gær. Ýmislegt hefur verið sagt um þessi merku lög. Sumt átti við um frumdrög þeirra, annað átti við um meintar langanir Davíðs Oddsonar. En hvað var það sem Ólafur skrifaði ekki undir? Hér fyrir neðan er inntak breytinganna.
- Í stað þess að Alþingi kjósi sjö í Útvarpsréttarnefnd skv. hlutfallskosningu mun Menntamálaráðherra velja einn og Hæstiréttur tvo í nefndina. Gerð er krafa um að nefndarmenn séu lögfræðingar. Þá er tekið fram að nefndinni sé heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila.
- Fyrirtæki sem eru með meginrekstur á öðru sviði en fjölmiðlun geta ekki fengið útvarpsleyfi.
- Fyrirtæki sem er að meira en 5% í eigu fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu í markaðsráðandi stöðu getur ekki fengið útvarpsleyfi. Undantekning á þessu er ef ársvelta fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu er undir tveimur milljörðum kr.
- Það er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef annað fyrirtæki eða fyrirtæki í sömu fyrirtækjasamstæðu eiga meira en 35% eignarhlut.
- Fyrirtæki sem á hlut í dagblaði getur ekki fengið útvarpsleyfi.
- Þeir sem hafa útvarpsleyfi þurfa að tilkynna útvarpsréttarnefnd um breytingar á eignarhaldi. Ef breytingar valda broti á ofangreindum reglum getur útvarpsréttarnefnd afturkallað útvarpsleyfi. Með þeim fyrirvara þó að leyfishafi fær 120 daga til að koma eignarhaldi í lag.
- Útvarpsréttarnefnd getur vikið frá skilyrðum 4. mgr. ef um er að ræða leyfi til svæðisbundins hljóðvarps.
- Samkeppnisstofnun þarf að fylgjast með hvort fyrirtæki hafi markaðsráðandi stöðu og láta útvarpsréttarnefnd í té upplýsingar um slíkt. Viðkomandi fyrirtæki skal veittur hæfilegur frestur til andmæla.
Flóknari eru breytingarnar ekki. Ég spyr mig, hvað er það í þessum lagabreytingum sem fólk er á móti og hvers vegna?
Ja, nú er lag. Nú verðum við öll að setjast niður og móta með okkur afstöðu sem byggð er á umtalsverðri rannsókn, meðal annars á þessu plaggi.
Megingagnrýnin er held ég sú að núverandi rekstrarform Fréttablaðsins og Stöðvar 2 stangast á við þessi lög og að lögin setji tilvist þessara fjölmiðla í töluverða óvissu. Þó hefur ekki verið sýnt að þessir miðlar hafi gert nokkuð annað en að auðga fjölmiðlaflóru landsins og vera til gagns. Átriði 5. í upptalningunni þinni er hlægilega augljós árás á Fréttablaðið – af hverju er bara bannað reka dagblöð með öðrum miðlum? Af hverju er ekki bannað að reka saman útvarp og sjónvarp (RÚV,. Norðurljós)? Eða dagblað og netmiðil (RÚV, mbl)? Þetta ósamræmi er meira en lítið skrítið. Þess má reyndar geta að mér þætti í raun og veru í lagi að setja svona lög í forvarnarskyni – ef þau hefðu verið til umræðu fyrir fimm árum síðan eða eitthvað hefði mér þótt þetta ágæt hugmynd. En mér finnst ekki sanngjarnt að kippa skyndilega rekstrargrundvellinum undan starfandi fyrirtækjum með fjölda starfsmanna og fjölda ánægðra viðskiptavina nema sýnt hafi verið fram á að viðkomandi fyrirtæki hafi brotið af sér á mjög alvarlegan hátt. Ég gæti vel trúað því að tal manna um mögulega skaðabótaskyldu ríkisins sé á rökum reist og mig langar ekkert sérstaklega að sjá skattpeninga mína fara í að greiða Baug einhverjar bætur vegna óvandaðra lagasetninga.
Þessu ótengt: Mér finnst rosalegur galli að þetta spjallkerfi samþykki innlegg, en klippi þau svo niður án þess að vara mann við! Ojj!
Blessaður Bjarni, hugmyndin er að takmarka athugasemdir við 1000 slög. En ok, það er galli. En ég er ekki að fullu sammála þér að eignarhald Baugs sé forsenda þess að viðkomandi fjölmiðlar lifi nema að Baugur sé að greiða með viðkomandi fyrirtækjum. Þá sé ég ekki að fylgi því neitt hagræði að reka saman ljósvakamiðil og dagblað eins og það er gert hjá Norðljósum. Ef eitthvað er að marka það að rekstur eininganna sé sjálfstæður. Af þeim sökum blasir ekki við í mínum huga að viðkomandi miðlar hverfi þrátt fyrir lögin. Nema jú, ef þeir einu sem eiga fjármagn reka markaðsráðandi fyrirtæki. Þá er ástandið líka alvarlegt. Annars er undarlegast í þessu frumvarpi að mínu viti, ofuráherslan á lögfræðinga. Hvað í ósköpunum veldur því að 5 ára háskólanám í textagreiningu geri einhvern hæfan til að vera í útvarpsréttarnefnd?
Nei, ég er reyndar sammála því að ég skil ekki alveg fullyrðingar um að þessi fyrirtæki fari á hausinn og drepist við það að Baugur neyðist til að selja. Það væri umhugsunarvert ef satt – því það myndi gefa til kynna að Baugur væri að halda fyrirtækjunum uppi með styrkjum og þá spyr maður sig: til hvers gera þeir það? Til að koma höggi á sitjandi ríkisstjórn? 😉 Það er samt ekki sanngjarnt að neyða Baug til að selja þessi fyrirtæki. Þú færð ekki jafn gott verð fyrir vöru sem þú selur tilneyddur og það er alveg ljóst að Baugur verður fyrir fjárhagslegu tjóni ef af verður. Í víðara samhengi gæti þetta gert íslenska fjölmiðla að mun óálitlegri fjárfestingarkosti ef búast má við því að ríkið bara eyðileggji fjárfestingarnar þegar þeim sýnist. Það hefði neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi allra fjölmiðla utan RÚV. Og hvað gerist ef Baugur finnur ekki kaupanda? Þá þurfa fyrirtækin að hætta rekstri, eða hvað?
Þetta er bara helvítis haftakommúnismi og ekkert annað. Ég les þennan lista og sé fyrir mér skrifræðið í kringum þetta og fæ aumingjahroll við tilhugsunina um að þarna er gerð krafa á að fjölmiðlar (reyndar bara “dagblöð” og ljósvakamiðlar) segi opinberlega frá því hverjir fjármagna þá og þessi löggjöf er samin af þeim sem standa manna harðastir gegn því að fjármál stjórnmálaflokka séu gerð opinber.
Már, ertu sem sé alfarið á móti lögum um eignarhald? Hefðir þú talið rétt að forsetinn hefði sleppt því að undirrita lög lög nr. 161 frá 2002? Eins spyr ég, ertu á móti því að fjármál stjórnmálaflokka séu opinber, ertu á móti samkeppnislögum o.s.frv.? Ofangreind lög og hugmyndir eru allt dæmi um haftakommúnisma eins og þú skilgreinir hann hér að ofan, afskipti ríkisvaldsins af mismunandi sviðum þjóðfélagsins. Að mínu mati geta slík afskipti verið nauðsynleg. Mín skoðun er að ekki sé nóg gert. Þannig vantar enn lög um fjármál stjórnmálaflokka. En vonandi eru þessi nýju lög byrjun á meiri vernd fyrir þegnanna gegn ofurvaldi fjármagnsins.
Mér finnast þetta illa útfærð lög, nokkuð nálægt því að vera hámarks afskipti ríkisins fyrir lágmarks gróða í þessu tilfelli. Ég tel að m.a. virkari og skýrari samkeppnislög séu allt sem þarf til að koma í veg fyrir “hættulega” samþjöppun á fjölmiðlamarkaðnum. Hvað er fjölmiðill? spurði ég á meðan efni frumvarpsins var enn leyndarmál (hvað var málið með það eiginlega???), og stakk svo upp á leiðum fram hjá frumvarpinu daginn eftir að Davíð gaf fyrst í skyn að frumvarpið næði bara til “dagblaða” og ljósvakamiðla. Ég er eindregið fylgjandi því að fjármál stjórnmálaflokkana séu gerð algjörlega gagnsæ, og finnst það eðlileg lágmarkskurteisi hjá þeim sem sækjast eftir atkvæðinu mínu, og að binda það í lög er því miður nauðsynlegt til að tryggja jafnan leikvöll fyrir alla …
…flokka. Annars er hætta á að þeir stjórnmálaflokkar sem ákveða að birta fjármál sín fái lægri framlög en þeir sem gera það ekki. Varðandi lögin sem þú vísar til þar sem settar eru hömlur á fjármálastofnanir, þá verð ég að viðurkenna að ég er pínu efins um hvort ég fylgi þeim eða ekki, en þó geri ég stóran greinarmun á fyrirtækjum sem stunda fjármálastarfssemi og fyrirtækjum sem langar að spila lélega tónlist á öldum ljósvakans. Fjármálafyrirtæki hafa beint og óbeint fjárhagslega framtíð viðskiptavina sinna í lúkunum, og það er að mínu mati alveg glæpsamlegt athæfi ef þessi fyrirtæki ætla svo að pukrast til að reka sjálf sín eigin fyrirtæki í samkeppni við viðskiptavini sína. Viðskiptavinurinn hlýtur alltaf að tapa á því. Hvort það sé nauðsynlegt að setja þessa varnagla í lög á þennan hátt veit ég ekki (líklega væri hægt að gera í staðinn kröfu á “full disclosure”) en ég veit þó að það er rík hefð fyrir því að svona lög gildi um fjármálastofnanir hér á landi.
…Sama gildir ekki um fjölmiðla. Að auki er bilið milli hafta á rekstur fjölmiðla og hafta á frjálsa tjáningu svo óhugulega lítið að ég ætla ekki einu sinni að nefna það. Þetta sem ég skrifa hér, ásamt bloggfærslunum sem ég vísaði í að ofan, og athugasemdum mínum í kjölfar þeirra, gefi smá mynd af því af hverju ég hefði viljað sjá meiri og vandaðri vinnu lagða í ákvarðanatökuna á bak við fjölmiðlaögin sjálf. Að auki er ég líka ósáttur við stjórnunartaktík og hugarfar ríkisstjórnarinnar, meðhöndlunina sem þetta mál fékk, og það hvernig frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að vera leiftursnöggt högg á höfuð Jóns Ágseirs og félaga fyrir að dansa ekki í takt við Sjálfsstæðisforystuna og fjárhagslega bakhjarla hennar.
Þessi röksemdafærsla hlýtur líka að eiga við að einhverju leiti um fyrirtæki sem selur auglýsingaaðgang að mörkuðum, þ.e. fjölmiðlafyrirtæki. Enda er “rík” hefð fyrir reglum um eignarhald á fjölmiðlum víða í Evrópu.
Ég sé hvað þú ert að meina, en ég geri samt greinarmun þarna á. Ég hef samt áður lagt til að stórum fyrirtækjasamsteypum verði einfaldlega bannað að kaupa auglýsingapláss í fjölmiðlum því með einni snöggri afturköllun allra auglýsinga geta þau skaðað viðkomandi fjölmiðil. ..sem minnir mann á háttalag Davíðs Oddssonar sem harðneitar að eiga nein samskipti við fjölmiðla í eigu Norðurljósa, og kvartar svo í næstu andrá yfir því að umfjöllun þeirra sé of einhliða. Hvort kom fyrst – hænan eða eggið?
[Þessi ummæli voru fjarlægð þar sem þau snertu ekki færsluna hér fyrir ofan. Halldór E.]