Reykjavíkurprófastsdæmi vestra afmarkast af Elliðaám í austri, bæjarmörkum Reykjavíkur og Kópavogs í suðri og sjónum í vestur og norðurátt. Á þessu svæði eru 10 sóknarkirkjur.
Kostnaðurinn við viðhald og rekstur þessara bygginga var 117 milljón krónur árið 2003. Inn í þessum tölum eru EKKI nýframkvæmdir við Neskirkju, en þær námu í kringum 45 milljónum á árinu 2003. Þannig má segja að kostnaður við byggingar, vöktun þeirra og þrif séu nærri 161 milljón krónur á árinu 2003. Í þessum tölum er ekki litið til vaxtakostnaðar vegna bygginganna en vaxtagjöld námu tæpum 52 milljónum króna á fyrrgreindu ári. Ef við leggjum vaxtakostnað við nýbyggingar, viðhald og rekstur þá fáum við út að heildarkostnaður við byggingar sé 213 milljónir króna á árinu 2003.
Sóknargjöld þessara sömu safnaða voru 313 milljónir króna, þannig að kostnaður við húsnæði tekur tæplega 2/3 af sóknargjöldum og það þrátt fyrir að einungis sé um eina nýbyggingu að ræða. Ef litið er fram hjá nýbyggingunni og vaxtakostnaði þá nemur kostnaður vegna viðhalds og reksturs bygginga ríflega 1/3 af sóknargjöldum.
Þetta eru vissulega háar tölur og merkilegt til þess að hugsa hversu gífurlega dýrt er að eiga og viðhalda þessum húsum. Nauðsynlegt er þó að hafa fyrirvara um að laun kirkjuvarða eru inni í rekstrarkostnaði eigna og þeir annast sumir hverjir mun fjölbreyttari verkefni en aðeins húsvörslu. Þá er ekki litið til þess að hluti af rekstrarkostnaði húsanna kemur hugsanlega inn aftur í sértekjum.
Tel nauðsynlegt að horfa á þessar tölur til lengri tíma, þ.e. að finna út meðaltal tíu ára. Svæðið sem þú nefnir er með kirkjur á tiltölulega svipuðum aldri og viðhald misjafnt eftir árum. Tel ekki að hlutfallið sé svona hátt ef litið er til lengri tíma og viðhaldsáætlanir komnar í gang í öllum kirkjum til að fyrirbyggja of ,,stórar” skemmdir á húsunum!
Það er rétt athugað að þessar tölur eru háar og eitt einstakt ár segir enga sögu. Hins vegar liggja viðhaldsáætlanir sjaldnast fyrir og ég er því miður ekki að sjá það breytast. Miklar framkvæmdir standa fyrir dyrum víða. Ég þykist vita um frágangsframkvæmdir og fyrirliggjandi viðhald á þessu svæði upp á 3-400 milljónir á næstu 5-10 árum (og þetta er varlega áætlað). Vaxtakostnaður 2003 er hins vegar örugglega 10 milljónum króna hærri en að jafnaði á þessu svæði, enda bókfærði ein kirkja skammtímavexti vegna uppgjöra við lánadrottna mörg ár aftur í tímann á árinu 2003. Rekstur húsanna er hins vegar stighækkandi upphæð og á ekki eftir að lækka nema með mjög meðvituðum aðgerðum. Niðurstaða: Þetta eru eitthvað hærri tölur en við sjáum á næstu árum, en munurinn er ekki mjög mikill – hugsanlega 10-20 milljónir á ári.