Í dag fékk ég að gjöf í skólanum 4 miða á leik í AAA-atvinnudeildinni í hafnabolta (Baseball), en Columbus Clippers er nafn atvinnuliðsins hér í Columbus. Miðarnir giltu bara í kvöld þannig að við ákváðum að skella okkur á leikinn og stoppa í c.a. tvo tíma, en leikurinn stendur eitthvað lengur. Við fórum því öll og stefndum á fjölskyldusvæðið í stúkunni. Þetta er einhver amerískasta upplifun sem ég hef um ævina átt, og hef þó búið hér í tæplega 1 og 1/2 ár.
Þegar við fórum í stúkuna þá stóð yfir flutningur þjóðsöngsins, áhorfendur jafnt sem leikmenn héldu derhúfunum yfir hjartastað og hlustuðu af andakt. Þegar flutningi söngsins lauk, hófst síðan fjörið. Sölufólk með hnetur, bjór og kandífloss gengu milli áhorfendanna, reglulega komu einhvers konar skemmtiatriði, meðan annað liðið fór út og hitt kom sér fyrir á vellinum og svo mætti lengi telja. Reyndar er mikilvægt að taka fram að ekkert okkar, nema kannski Tómas, hafði minnstu hugmynd út á hvað leikurinn gengur þegar við komum. En Tómas klappaði og benti eins og óður maður, þannig að hann virtist alla vega hafa skilning á því sem var að gerast enda búið mestan hluta ævinnar í Bandaríkjunum. Tilfinningin að ég væri dottinn inn í bíómynd kom reglulega, ég hefði ekki orðið undrandi þó einhver hefði kallað “cut” eða Kevin Costner hefði birst á kastarasvæðinu.
Annars verður að segjast að fyrsta 1 1/2 klukkutímann á vellinum gerðist næstum ekkert, en við skemmtum okkur samt vel. Rétt um það leiti sem við vorum að fara kom smá spenna í leikinn, en ég er ekki viss um að margir áhorfendur hafi látið sig nokkru varða um hvernig staðan var. Hafi fólk yfirleitt skilið það. Að fara á hafnaboltaleik snýst, að því er virðist, ekkert svo mikið um leikinn, heldur um að vera Bandaríkjamaður, hlusta á þjóðsönginn, fá sér pyslu og bjór og njóta þess að vera með fjölskyldunni. Það verður að viðurkennast að mér hefði fundist ég betur heima ef við ættum Ford F150 pick-up. En það er líklega næst. 🙂
(Upphaflega birt á hrafnar.net)