Hér held ég áfram með stutta þanka mína um biskup og biskupsembættið.
Í yfirlitinu hér fyrr á iSpeculate má sjá vísbendingar um að í tíð síðustu biskupa hafi orðið þróun í átt til aukinnar miðstýringar, þar sem “völd” biskups hafa aukist og staða Biskupsstofu hefur styrkst. Þessi þróun er að sjálfsögðu ekki óumdeild, en í raun má segja að með Þjóðkirkjulögunum 1997 hafi Biskupsstofa orðið að Biskupsstofnun, þar sem sífellt meiri áhersla hefur verið lögð á utanumhald og eftirlit, en þjónustuhlutverkið gagnvart söfnuðunum á sviði safnaðarstarfs hafi ekki þróast á sama hátt.
Þessi þróun er ekki endilega slæm, stofnunin hefur gripið ítrekað inn í aðstæður í söfnuðum þar sem samspil presta og sóknarbarna var skaðlegt báðum aðilum. Eins hefur verið tekið á hlunnindatekjum presta og launakjör verið leiðrétt. Eftirlit með prestsetrum hefur verið aukið og bætt og svo mætti lengi telja.
Þessi þróun hefur hins vegar leitt til þess að aukin “völd” og með þeim ábyrgð, hafa flust inn á Laugaveg. Til að sinna þessum verkefnum hefur þurft starfsfólk á ýmsum “veraldlegum sviðum”. Þar sem fjöldi starfsmanna á Biskupsstofu er því sem næst fasti, hefur aukning á sviði eftirlits þýtt fækkun á sviði stoðþjónustu við söfnuði.
Þetta hefur líka haft áhrif á ásýnd Biskupsstofu, í átt frá þjónustustofnun og til eftirlitsstofnunar. Þetta er auðvitað ekki nýtt, hófst ekki í tíð Karls en hefur líkast til fengið á sig skýrari mynd nú á síðustu árum og kannski skerpst enn frekar nú í kjölfar niðurskurðar síðustu þriggja ára. Þetta er í sjálfu sér ekki óeðlileg þróun í huga Lúthers var hlutverk biskup fyrst og fremst tilsjónarhlutverk.
Stofnanir hafi tilhneigingu til að stefna í eina átt og til að gera stefnubreytingar þarf markvissa ákvarðanatöku og skort á átakafælni. Ein af spurningunum sem þarf að velta upp í tengslum við nýjan biskup er hvaða viðhorf hann hefur til þróunarinnar í átt til miðstýringar og aukins eftirlitshlutverks stofnunarinnar. Það er ekki auðveld spurning og það má velta fyrir sér hvort hægt sé að aðgreina miðstýringu annars vegar og eftirlit hins vegar, ef einhverjum hugnast það.
Það er samt ekki nóg fyrir nýjan biskup að hafa á þessu skoðun. Ef breyta á um stefnu, þarf kjark og þor, viljann til að leggja sjálfan sig í sölurnar fyrir hugsjónir sínar.
One thought on “Biskupsstofnun”
Comments are closed.