Fyrir rúmlega 15 árum komum ég og Magnús Fjalar að kynningarmálum í KSS. Við hönnuðum og stóðum að hinni frábæru kynningu: “Ég vil þig fyrir vin”. Meðal þess sem við gerðum voru plaköt með mynd af agressívum banjóspilara af Strikinu sem brosti hinu svakalegasta brosi og horfði beint í myndavélina. Þetta er að mínu viti eitthvert skemmtilegasta KSS-plakatið ever og á pari við “Þau voru nakin” plakatið nokkrum árum síðar (sem er það flottasta).
En hvað um það. Meðan við unnum að gerð plakatsins og fengum tilboð frá prentsmiðjum þá kom sr. Guðni Gunnarsson heitinn að máli við okkur félagana. Við höfðum nýverið fengið tilboð í verkið frá PRENTMET sem var þá staðsett í Bláu húsunum, nýstofnað og flott með Guðmund á miðju gólfi fyrir aftan skrifborðið sitt. Sr. Guðni leit á tilboðið sem hljóðaði upp á 30.000 krónur og spurði okkur hversu margir myndu mæta á kynningarátakið út af því að hafa séð plakötin. Ég man að við höfðum rætt þetta og nefndi því töluna 2-3. Sr. Guðni (sem er eini maðurinn sem ég hef alltaf hugsað um sem sr.) spurði þá einfaldlega, af hverju við borguðum ekki bara 100 manns 300 krónur fyrir að koma á fundinn í stað þess að prenta plakötin.
Að sjálfsögðu vorum við ungir og ferskir með svörin tilbúin. Plakötin styrkja sjálfsvitund núverandi félaga, gefa þeim tækifæri til að opna umræðu um trú sína við skólafélaganna, þau eru hluti af jákvæðri langtímaímyndaruppbyggingu á KSS og kristni almennt og svo framvegis. Ég veit ekki, en 80 milljónir er næstum 1.000 krónur á hverja fjölskyldu í landinu.