Nikódemus skyldi að það var eitthvað að. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera í musterinu, staðnum sem margir trúðu að væri heimili Guðs. Hann hafði líklega heyrt af aðgerðum Jesús, þar sem hann réðst að sölumennskunni og sjálfhverfu trúarlegra yfirvalda. Kannski hafði hann séð Gallup-könnun sem sýndi 33% traust í garð trúarlegra stjórnvalda, kannski hafði hann séð til kynferðisglæpamanna sem notuðu trúfélög til að fela illverkin sín. Kannski hafði hann setið ótal námskeið og ráðstefnur um SVÓT-greiningar og hvernig hægt er að nota bókhaldstæknilegar aðferðir til að marka framtíðarsýn. Kannski hafði hann meira að segja velt fyrir sér samfélagsmiðlun.
Hann vissi samt ekki hvernig hægt væri að bregðast við vandanum. Það sem hann vissi var að breytingar eru alltaf erfiðar og oft hættulegar. Það var í þessum aðstæðum sem Nikódemus læddist í skjóli myrkurs til að tala við Jesús.
Nikódemus veit sem er að það er eitthvað við þennan Jesús. Nikódemus þekkir eigin hugsanir í aðgerðum Jesús og langar að vita hvort þar sé að finna einhverjar lausnir, en ekki bara mótmæli.
Svar Jesús er að horfa til upphafsins, rifja upp hvers vegna við erum í “rekstri.” Við getum ekki séð hvað við erum að gera, nema við áttum okkur á hvaðan við komum, fæðumst á ný, lítum yfir lærða hegðun, menningarlegar hefðir og horfum til upphafsins. Tilraunir okkar til að setja vilja Guðs í box eru dæmdar til að mistakast.
Ég get ímyndað mér að svarið hafi hrætt Nikódemus, það hræðir mig. Ég get séð fyrir mér að Jesús hafi bent Nikódemusi á, til að róa hann, að þrátt fyrir nauðsyn þess að horfa til upphafsins, séu bókhaldstækninámskeið ekki af hinu illa. Jesús gæti meira að segja hafa bent á að lærisveinarnir hefðu skipað einn í sínum hópi til að halda utan um fjármálin og sjá til þess að þeir þættir væru í lagi.
Jesús hefur samt ítrekað við Nikódemus að það sem skipti máli er upphafið, en ekki framkvæmdin. Það sem við þurfum að beina sjónum okkar að sé Guð, Guð sem steig niður til fólksins síns, Guð sem láti sig varða um okkur. Skoðanakannanir, rekstrargrundvöllur, menningarmiðlunaráherslur eða hefðir megi ekki og eigi ekki að skyggja á það sem skipti máli.
Það er í þessu ljósi sem að við getum lesið Jóhannes 3.16-17. Markmið Jesús er ekki að brjóta niður musterið, dæma trúarleiðtogana fyrir að misnota stöðu sína og afvegaleiða fólkið sem þeir voru kallaðir til að þjóna. Markmið Jesús er að endurnýja samband okkar við skaparann, gera okkur mögulegt að sjá Guð í gegnum hefðirnir, venjurnar, rituölin og viðskiptamódelin sem eru notuð til að réttlæta og upphefja trúarstofnanir.
Jesús veit samt vel að það er auðveldara að festast í fari hefðana, slíta sig lausan. Það er auðveldara að sitja í myrkrinu og þakka fyrir að hafa stól, en að standa upp og ganga út í sólarljósið.
—
Innskot: Það er vinsælt í mínum hluta guðfræðiskógarins að einblína á einstaklinginn þegar við lesum og túlkum Jóhannesarguðspjall og sér í lagi 3. kaflann. Slík túlkun er að sjálfsögðu gild, hins vegar er ég þar staddur, sem sérfræðingur í kirkjufræðum og safnaðarstjórnun að ég hef tilhneigingu til að skilja orðin í samhengi trúarsamfélagsins alls, fremur en að horfa til einstaklingsins.