Í dag eru tvö ár síðan ég hóf að skrifa hér á annall.is, áður hafði ég reyndar skrifað hitt og þetta á netið, m.a. með mínum eigin bloggkerfum en það efni er ekki lengur aðgengilegt. Ég var ekki sannfærður um að ég myndi endast en nú tveimur árum og einni heimsálfu síðar er ég enn að. Skrifin hér hafa um margt hjálpað mér að átta mig á hvar ég stend í ýmsum málum og kannski gefið einhverjum öðrum mynd af því hver ég er.
Þannig má vonandi sjá að ég er trúaður, kalla mig kristinnar trúar og leitast við að lifa í samræmi við það. Einhverjir kunningja minna myndu telja mig fremur “liberal”, en sjálfur er ég ekki sannfærður um það. Ég tel að tengsl ríkisins við lúthersku kirkjunnar á Íslandi séu kirkjunni til vansa og dragi úr starfi safnaðanna í landi. Mér mislíkar þegar ríkidæmi og völd eru misnotuð, hvort sem sá sem misnotar er fjármálahéðinn eða stjórnmálamaður.
Mér finnast samræður um eðli og inntak trúarbragða skemmtilegar, spennandi og gefandi. Slíkar umræður dýpka þegar vel tekst til, skilning minn á sjálfum mér og því sem ég tel mest um vert. Líkt og öðrum í slíkri umræðu á ég til að móðga/misbjóða fólki, en tel um leið skyldu mína að biðjast afsökunar og leita leiða til að útskýra mál mitt á sem hógværastan hátt er það gerist.
Loks er rétt að geta þess að ég tel að mér sé bæði rétt og skylt að gagnrýna valdhafa á öllum sviðum ef ég tel að einhverju sé ábótavant í hegðun/orðum þeirra. Þó leitast ég við að misbjóða/móðga ekki þá sem ég ræði um (sjá ofar). Þessi þáttur hjálpar mér líka til að fá útrás fyrir pirring minn og neikvæðni í garð alls og allra :-).
Óhætt er að segja að færslurnar mínar á vefnum hafi meira eða minna leiti komið inn á ofangreinda þætti, meðan annað hefur verið látið í friði.
Til hamingju með áfangann, Elli. Þú heldur úti afar góðu, málefnalegu og gjöfulu bloggi.
Tek undir hamingjuóskir með bloggafmælið, þú ert mikilvægur hluti af samfélaginu hér á annál.is!
… og svo er bara að halda áfram því sem vel er farið af stað!