Þar sem ég reyni eftir mestum mætti að sinna verkefnum mínum í fæðingarorlofi og njóta þess sem BNA bíður upp á gefst mér ekki mikill tími til að blogga. Hins vegar hef ég í morgun lesið mér til gleði og ánægju hina stórkostlegu “The Lutheran Handbook” sem er hluti af “Here We Stand” fræðsluefni ELCA, sem ég hef fjallað um áður. Kaflinn um náðina er einfaldur en útskýrandi.
…
Þar sem Guð hefur nú þegar tryggt frelsun þína með gjörðum Jesús, þarft þú aldrei að gera nokkurn skapaðan hlut til að njóta velvildar Guðs, sama hversu illa þú fylgir reglunum. En það kallar á vinnu að venjast frelsinu.1) Reyndu að skilja hugtakið “náð”.
Náð merkir að Guð gefur þér allt hið góða – fyrirgefningu, frelsi, ást og líf með hæðum þess og lægðum – án nokkurs endurgjalds af þinni hálfu. Leitaðu eftir tækifærum til að nota hugtakið náð og notaðu það reglulega. Brátt sérðu náð Guðs allt í kringum þig.2) Æfðu þig í að gefa af sjálfum þér.
Að einblína á sjálfan sig og eigin þarfir gerir okkur erfitt um vik að sjá náðina í kringum okkur. Að gefa af sjálfum sér, tíma sínum og eigum gerir okkur opnari fyrir að sjá náðina. Það er ekki hægt að “finna” frelsið sem Guð gefur, það opinberast okkur.3) Gleymdu sjálfum þér sem oftast.
Hluti þess að vera opin(n) fyrir náðinni er að geta gleymt sjálfum sér um stund. Þetta er aðeins hægt með því að gefa sjálfan sig algjörlega þegar við sinnum einhverjum verkefnum. Þetta getur gerst í bæn eða helgihaldi, en ekki síður í leikjum, íþróttum, samtali, með fjölskyldunni, við lestur góðrar bókar, í þjónustu við aðra eða í hljóðfæraleik. Jafnvel er hægt að gleyma sjálfum sér í vinnunni.4) Viðurkenndu takmörk þín.
Án þess að festast í eymd og volæði, viðurkenndu fyrir sjálfum þér, hvað þú getur og hvað ekki. Hver þú ert og hver þú ert ekki. Þegar þú færð raunhæfa mynd af sjálfum þér þá opnast hugi þinn á nýjan hátt fyrir fagnaðarerindi Guðs um ást, náð og frelsi.5) Viðurkenndu sérstöðu þína.
Í augum Guðs ertu svo dýrmætur að hann gaf son sinn, jafnvel áður en þú varst myndaður í móðurlífi. Guð mun nota allt líf þitt til að leitast við að minna þig á mikilvægi þitt. Þegar þú samþykkir að þú ert undursamleg sköpun er auðveldara að skilja hvers vegna Guð gaf son sinn.6) Gefðu þér tíma til að biðja og til helgihalds.
Þrátt fyrir að Guð einn veiti gjöf trúarinnar sem frelsar, þá gefur kirkjan þér fjölmörg tækifæri þar sem Guð hefur lofað að mæta þér.7) Forðastu verkaréttlætingu.
Hinn gamli maður – syndarinn í þér – vill stöðuglega ná stjórn á Guði. Af þeim sökum höfum við tilhneigingu til að finnast við þurfa að gera eitthvað, náðin geti ekki verið fullnægjandi. Minnstu þess alltaf að þú varst skírður fyrir Jesú Krist og það er allt sem þarf!
Endursögnin (þýðingin) er mín og ekki til eftirbreytni að öllu leiti. Ég er enda meðvitaður um að tungumálamaður er ég ekki.
Flottur texti! Þakka annars skemmtilegt símtal fyrr í dag, þú ert sniðugur!
Ekki get ég nú tekið undir það að þetta sé flottur texti. Því efast ég um að þessi lútherska handbók sé eins stórkostleg og Elli vill vera láta. Þegar í upphafi er texti sem slær mig: “þarft þú aldrei að gera nokkurn skapaðan hlut til að njóta velvildar Guðs, sama hversu illa þú fylgir reglunum.” Hvaða dólgalútherska er þetta eiginlega? Þótt þarna sé verið að forðast verkaréttlætinguna, þá er sú hugsun sett fram eins og um öfgafulla vakningartrú sé um að ræða: Fyrst þú er frelsaður, þ.e. hefur uppgötvað náð Guðs, þá skiptir engu máli hvernig þú hagar þér. Þetta minnir reyndar á náðarboðskap Kanans um víða veröld um þessar mundir: Þar sem ég er Kani þarf ég ekki að fara eftir neinum reglum um stríðsglæpi, mannréttindi o.s.frv. Mér sýnist af þessu dæmi úr Here We Stand-efninu að það hafi ekkert erindi hingað upp á klakann.
Ég skil athugasemd þína Torfi, en á móti kemur að í kjölfar þessarar setningar kemur síðan upptalning á því sem að náðin kallar okkur til að gera. E.t.v. kemur þessi mótsögn Lúthers um að vera frjáls gagnvart Guði en þræll manna ekki nægilega skýrt fram í þýðingunni minni.
Það er nú mjög óljóst í textanum hvað náðin kallar okkur til að gera. Aðallega virðist það vera nokkurs konar sjálfsrannsókn, innra uppgjör, og þannig sjálfhvert í raun. Þá er of mikið talað um Guð að mínu mati! Fimmti liðurinn um sérstöðu mannsins er gott dæmi um þetta tvennt. Fyrir mér er eftirfarandi setning merkingarlaus: “Í augum Guðs ertu svo dýrmætur að hann gaf son sinn, jafnvel áður en þú varst myndaður í móðurlífi. Guð mun nota allt líf þitt til að leitast við að minna þig á mikilvægi þitt. Þegar þú samþykkir að þú ert undursamleg sköpun er auðveldara að skilja hvers vegna Guð gaf son sinn.” Við Íslendingar höfum aldrei verið sérstaklega “lúthersk”. Hér hefur fátt verið lesið eftir Luther nema Fræðin minni. Því er þessi náðaráhersla okkur framandi. Áherslan á tengsl trúar og breytni er miklu meira áberandi hjá okkur. Eflaust er hægt að nota eitthvað úr Here We Stand-efninu í okkar kirkju, en það verður að heimfæra það upp á íslenskan veruleika.
Þar er ég sammála þér Torfi, efnið þarfnast heimfærslu. Eins er ég sammála um að náðaráherslan hefur aldrei verið sterk á Íslandi, enda Íslendingar ólesnir/illa lesnir í Lúther. Eins er það rétt að í efninu er lítil samfélagsleg áhersla, hún er hins vegar meiri en t.d. í því fermingarefni sem er notað mest í dag á Íslandi.