Baráttan við heimsdrottna myrkursins

Fyrir nokkrum árum, þegar ég var opnari og ferskari en ég var í dag, þá las ég skáldsögu eftir Frank E. Peretti, “Baráttan við heimsdrottna myrkursins“. Sagan fjallar um átök sannkristinna og þá sem frjálslyndari eru. Vissulega bar sagan keim af því að vera skrifuð af bókstafstrúarmanni og sannfæring hans skein sterkt í gegn að hefðbundnar kirkjudeildir væru hluti af herdeild heljar og ynnu ómeðvitað en þó markvisst að því að rífa niður hina sönnu kirkju Krists á jörðu. Lýsingar af stríðsátökum engla og djöfla, voru myndrænar og spennandi. Þessi saga kemur á stundum upp í huga mér, t.d. þegar ég var í heimsókn í Trinity Lutheran Seminary og Stacey Anderson sagði mér að hinir “sanntrúuðu” í bænum þar sem hún var í starfsþjálfun héldu að lútherska kirkjan væri í raun kirkja Lúsifers. Ég hef lesið og heyrt svipaðar frásögur annars staðar.

Bókin kom upp í huga mér í gærkvöldi og hefur ekki vikið þaðan. Ég tel mig vera tiltölulega jarðbundinn. Þegar ég hlusta á ræður velti ég að jafnaði fyrir mér kenningunni sem að baki liggur, en leyfi mér sjaldnast að hrífast með. Ég reyni að fylgjast með fjölbreyttri umræðu um stöðu trúar og trúarbragða, reyni að vera tilbúin að hlusta og greina það sem sagt er. Það mistekst á stundum, en ég reyni.

En eins og ég sagði, bókin var sterk í gær. Sú tilfinning að andaverur vonskunnar, sem rífa og tæta, brjóta niður og eyðileggja, væru að verki í atburðunum í Garðabæ, var yfirþyrmandi þegar ég gekk af fundinum í Hofstaðaskóla. Það er óhætt að segja að á fundinum hafi vilji Guðs og áætlun hans verið lítils virt. Beiðni ungs manns um bæn fyrir málinu var mætt með undarlegu tilsvari fundarstjóra. Hatur og vanlíðan virtist drifkraftur þess sem fram fór. Það fór um mig hrollur þegar lögfræðingurinn taldi kirkjuleg yfirvöld ekkert hafa um starf sóknarprests að segja. Það er ósmekklegt að segja það, en sóknarprestur sem leitar aðstoðar hjá lögfræðingi sem er hvað þekktastur fyrir að verja morðingja og nauðgara er ekki að leita aðstoðar í rétta átt.

Það er alveg ljóst að sjaldan á einn sök, þá tveir deila. Margir einstaklingar hafa liðið fyrir það sem gerst hefur, sér í lagi sóknarpresturinn. Hitt er hins vegar ljóst að í Hofstaðaskóla í gær var andi Guðs ekki að verki, þar fengu öll hin eldlegu skeyti hins vonda að loga í friði.

Það sem er að gerast í Garðasókn, er raunveruleg barátta kirkju Krists fyrir að vera einmitt það, kirkja Krists. Á fundinum talaði einn maður um Guð, annar lagði nafn hans við hégóma. Ef við sem kirkja bregðumst ekki við árásunum með krafti, þá mun fara illa. Hér er þörf á bænum þeirra sem treysta Drottni. Allir sem tilheyra kirkjunni og búa í Garðabæ, þurfa að taka höndum saman og hjálpa til við að byggja söfnuðinn upp að nýju, þegar baráttunni lýkur. Þau sem hafa staðið í skotlínu illskunnar þarfnast alls þess stuðnings sem hægt er að veita.

En fyrst og fremst þarf fyrirbæn. Kirkjan í Garðabæ er baráttusvæði, við sem viljum veg kirkju Krists sem mestan þurfum að standa sannleikans megin, leita friðar og umfram allt leita vilja Guðs.

—————–

Í bréfi Páls til íbúa Efesus stendur:

Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans. Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.

Standið því gyrtir sannleika um lendar yðar og klæddir brynju réttlætisins og skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins. Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda. Takið við hjálmi hjálpræðisins og sverði andans, sem er Guðs orð. Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið því árvakrir og staðfastir í bæn fyrir öllum heilögum.

5 thoughts on “Baráttan við heimsdrottna myrkursins”

  1. Því miður get ég ekki tekið undir með Vídó að Elli mæli hér vel. Miklu frekar er um að ræða undarlega loðna langloku um frið, kærleika og einingu þar sem hugur virðist ekki fylgja máli. Þ.e. enn eitt dæmi um kristileg kærleiksblóm sem spretta kringum hitt og þetta. Ekki var ég á þessum fundi sem Elli vísar til, en lesið hefi ég úrskurð áfrýjunarnefndar sem ég tel all merkan. Þar fá sóknarnefndarmennirnir tveir, sem einkum beittu sér gegn sóknarpresti, mjög alvarlega áminningu eða eins og stendur í úrskurðinum: “Áfrýjunarnefnd telur umrædda háttsemi gagnaðila vera verulega ámælisverða og fela í sér agabrot í skilningi 12. gr. laga nr. 78/1997. Þegar af þeirri ástæðu er það niðurstaða áfrýjunarnefndar að leggja til að gagnaðilar verði áminntir í samræmi við a-lið 4. mgr. 12. gr. laga nr. 78/1997.” Þá fær djákninn einnig áminningu vegna margvíslegra agabrota í samstarfi við sóknarprest. Hið sama fær prestur fyrir að sverta persónu sóknarprests og magna upp neikvæða mynd af aðstæðum f

  2. Já skrítin eru skrif Ella hér. Hann telur sig vita hver sé vilji Guðs og áætlun, sem ekki sé hinn sami sem stuðningsfundurinn við sr. Hans Markús vitnaði um. Þá eru og furðuleg ummæli Ella um að það sem er að gerast í Garðasókn, sé “raunveruleg barátta kirkju Krists” fyrir að vera hans kirkja. Við hvað er átt hér? Að framferði sóknarnefndarformanns, varaformanns, djákna og prests Garðasóknar sé dæmi um kirkju Krists, þó svo að lagt sé til í áliti áfrýjunarnefndar að veita þeim öllum áminngu fyrir agabrot? Ekki er hægt að lesa annað úr þessum skrifum. Elli er skyndilega kominn í hóp hinna sanntrúuðu sem virðast líta svo á að allir aðrir séu verkfæri djöfulsins. Svo, góða ferð til Ameríku Elli minn, og láttu það ógert að koma til baka. Svona hugsun á nefnilega ekki heima hér í lúterskri kirkju “Lúsifers”.

  3. Blessaður Torfi, ólíkt Kjartani og mér varst þú ekki á þessum fundi. Þú heyrðir ekki niðrandi ummælin um kirkjuna, þú heyrðir ekki þegar lögfræðingurinn gerði lítið úr starfsfólki kirkjunnar, þú heyrðir ekki sjálfhverfuna í orðum sóknarprestsins, vanvirðinguna í garð þess safnaðarstarfs sem unnið er. Torfi, sóknarpresturinn hefur mátt líða í þessu máli eins og aðrir. Allir aðilar þessa máls hafa eitthvað til sakar unnið. Hins vegar breytir það ekki því að þegar hatur og hefnd drífur menn áfram og lygar eru helsta vopnið eins og gerðist á umræddum fundi, þá er næsta víst að það er ekki í nafni Krists.

  4. Nú skánar þetta aðeins hjá þér. Í stað hálfkveðinna vísna, uppskrúfaðrar helgislepju og biblíutilvitnanna kemur eitthvað haldfast um fundinn: niðrandi ummæli, gert lítið úr, sjálfhverfa og vanvirðing. En svo gengur þú lengra en þú getur staðið við þegar þú talar um hatur og hefnd og klikkir út með að væna fundinn um lygar. Ég hef lesið úrskurð áfrýjunarnefndar þar sem tekin eru fjölmörg dæmi um alveg ótrúlega framkomu fjórmenninganna í garð sóknarprestins. Því skil ég vel reiðina á fundinum. Lygin í þessu máli virðist fyrst og fremst hafa verið í heiðri höfð af andstæðingum sr. Hans Markúsar en ekki stuðningsmönnum. Hlutdrægari skrif en þín hef ég sjaldan lesið. Átt þú einhverja hagsmuni þarna að gæta?

Comments are closed.