Enn og aftur vísar Jesaja til lausnarans. Til réttláta leiðtogans sem mun koma, Jesarótarinnar, eins og sungið er í jólasálmunum.
Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu
og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu.
Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns,
deyða hinn guðlausa með anda vara sinna.
Réttlæti verður belti um lendar hans,
trúfesti lindinn um mjaðmir hans.
Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu
og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum.
Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman
og smásveinn gæta þeirra.
Lausn frá kúgurum og ofbeldi, óréttlæti og misskiptingu er meginstef Jesaja í lýsingum sínum á komu lausnarans. Þessi texti hefur skiljanlega verið túlkaður í ljósi komu Krists og líkt og fjölmargir aðrir textar í Jesaja notaður í tengslum við jólahátíðina.
Í því ljósi er áhugavert hversu sjálfhverf jólahátíðin er, jafnvel í boðun kirkjunnar sem segist sækja markmið sín og boðskap til lausnarans sem Jesaja lýsir. Auðvitað er það ekki algilt í kirkjunni alstaðar, sum okkar reyna og það er safnað fyrir Hjálparstarfið á aðventunni og allt það, en hjálparstarf og ölmusa er ekki réttlæti, heldur plástur á svöðusár óréttlætisins.