Það vita allir sem hafa farið á skóla-„reunion“ að það er rétt eins og tíminn hafi staðið í stað. Sá sem var nörd er ennþá nörd, sá sem var flottur er ennþá flottur (jafnvel þó tíminn hafi ekki leikið viðkomandi vel).
Þegar Jesús kom til ættborgar sinnar, skipti ekki lengur máli hvað hafði gerst við skírnina í Jórdan, að hann hefði reist fólk upp frá dauðum, læknað sjúka og að lærisveinar fylgdu honum hvert fótmál.
Er þetta ekki smiðurinn, sonur Maríu, bróðir þeirra Jakobs, Jóse, Júdasar og Símonar? Og eru ekki systur hans hér hjá okkur?“ Og þeir hneyksluðust á honum.
Breytingar eru nefnilega vondar. Jesús sonar Maríu og bróðir Jakobs, Jóse, Júdasar og Símonar er einmitt það og ekkert meira. Ef íbúar ættborgarinnar þurfa að hundsa og hafna öllu sem gæti breytt því hver Jesús var, þá er best að gera það, til að viðhalda jafnvæginu.
—
Jesús sendi lærisveina sína af stað og bauð þeim að tala og boða í sínum krafti. Jesús lagði áherslu á að staldra ekki lengi við þar sem fólk hlustaði ekki. Ef fólk vill ekki hlusta og sjá, þá sér það hvorki né heyrir, hvorki kraftaverk né karisma breytir því.
—
Innskotssagan af Heródesi, virðist til þess gerð að segja okkur frá afdrifum Jóhannesar skírara. Heródes var greinilega í ástar-/haturssambandi við Jóhannes. Heródes vissi sem var að Jóhannes var réttlátur og heiðarlegur.
[Heródes] komst í mikinn vanda þegar hann hlýddi á mál [Jóhannesar] en þó var honum ljúft að hlusta á hann.
Til að leysa klemmuna sem hann er í, þá bauð Heródes, fósturdóttur sinni eina ósk. Þegar hún biður um höfuð Jóhannesar á fati, þá „neyðist“ konungur til að uppfylla óskina. Með þessu móti getur konungur látið myrða Jóhannes, en verið á sama tíma hryggur yfir að „þurfa“ að láta myrða manninn.
—
Fólkið fylgir Jesú eftir í leit að svörum. Jesús er sagður finna til með þeim
því að þeir voru sem sauðir er engan hirði hafa.
Jesús kenndi, en þegar leið að kvöldi fóru lærisveinarnir að hafa áhyggjur af því að ekki væri nægur matur fyrir alla, réttast væri að senda alla burt svo þeir gætu útvegað sér mat á eigin spýtur. Jesú þykir þetta „cheap lausn“ og segir lærisveinunum að redda málinu.
Lærisveinarnir hafa í fórum sér fimm brauð og tvo fiska, en á svæðinu voru fimm þúsund karlmenn auk kvenna og barna. Það eru til margar leiðir til að sjá og skilja þetta kraftaverk. Mér sýnist augljóst að Jesús tók að sér að vera hirðir fólksins, vera fyrirmynd, vera sannur leiðtogi. Þegar hann tók það litla sem lærisveinarnir réttu honum og hóf að gefa með sér, þá tók fólkið sig til, greip í nestistöskuna sína, tók upp brauð, kannski kjötbita og fisk og gaf með sér þeim sem sáttu næst. Auðvitað voru lærisveinarnir ekki þær einu með nesti, nú eða litli strákurinn sem við heyrum um í hinum guðspjöllunum.
Kraftaverkið fólst í því að fá viðstadda til að gefa með sér, gefa af gnægtum sínum. Eitthvað svona endalaust töfrabrauð er einfaldlega ómerkileg og ódýr lausn á sögunni. Það að sannfæra þann sem á nóg um að gefa með sér, það er alvöru kraftaverk (sjá hér).
—
Við sjáum aftur hvernig Jesús hræðir lærisveina sína, þegar hann gengur til móts við þá á vatninu.
Þegar þeir sáu Jesú ganga á vatninu hugðu þeir að þar færi vofa og æptu upp yfir sig.
Hér er ekkert sagt um tilraunir Péturs til vatnsgöngu, en það er ljóst að lærisveinahópurinn á erfitt með að átta sig á því hvað það er með þennan Jesú.