Þú skalt ekki fylgja meirihlutanum til illra verka.
Það er ef til vill við hæfi að vísa hér til Edward Snowden og allra hinna „góðmennanna“ sem ganga gegn straumnum og berjast fyrir því sem rétt er, gegn meirihlutanum sem vill ekkert sjá og ekkert vita.
Ég hins vegar hef mínar efasemdir um „mótív“ slíkra manna og hef tilhneigingu til að efast um að það sé flóttinn frá illum verkum sem hvetur þá áfram. En hvað um það.
Í þessum kafla er lögð rík krafa á einstaklinga um aðgerðir, en ekki aðeins aðgerðaleysi. Okkur ber að láta okkur aðra varða. Í þeim anda eru lögin um hvíldarárið.
Í sex ár skaltu sá í land þitt og hirða afrakstur þess en sjöunda árið skaltu láta það liggja ónotað og hvílast. Þá geta hinir fátæku meðal þjóðar þinnar lifað af því og það sem þeir skilja eftir geta villt dýr étið. Þú skalt fara eins með víngarð þinn og ólífutré. Í sex daga skaltu vinna verk þitt en sjöunda daginn skaltu ekkert verk vinna svo að uxi þinn og asni geti hvílt sig og sonur ambáttar þinnar og aðkomumaðurinn geti endurnærst.
Mikilvægi helgihalds og hátíðarhalda er undirstrikað og þá lofar YHWH að smátt og smátt muni Ísraelsþjóðin taka yfir allt það land sem YHWH ætlar þeim. Mikilvægi þess að halda fast í eigin siði og venjur og virða YHWH öllu fremur er forsenda árangurs, sem mun leiða til velmegunar.